23.05.1932
Efri deild: 81. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2080 í B-deild Alþingistíðinda. (2375)

645. mál, lántaka fyrir ríkissjóð

Jón Baldvinsson:

Hv. 1. landsk. hefir nú flutt hér fram svipaðar aths. og hann gerði við 2. umr. þessa máls og borið fram brtt. við frv. í samræmi við þær á þskj. 770. Hinsvegar hefir hæstv. fjmrh. lýst yfir því, að þetta lán verði ekki tekið nema til endurgreiðslu á þeim eldri lánum, sem til eru tekin í grg. frv. Álít ég hagkvæmt, ef hægt væri þannig að breyta hinum eldri lánum, sem sumpart standa sem lausaskuldir og sumpart eru með mjög háum vöxtum, í betra horf, sem hagkvæmara væri fyrir landið. Hefir mér skilizt svo, að mismunurinn á heimildaupphæðinni, sem er 12 millj. ísl. kr. samkv. frv. eins og það liggur fyrir, og þeim £498000, sem til eru tekin í grg. frv. og endurgreiða á, sé gerður fyrir kostnaði og afföllum við þessa væntanlegu lántöku, og er ekki gott að vita, hvað þau afföll verða mikil, en sennilega verður þó ekki mikil fjárhæð afgangs, eftir venjulegum afföllum á slíkum lánum. Ef lánið verður notað, eins og hæstv. fjmrh. hefir lýst yfir, að verði gert, og enda er tekið fram í grg. frv., er því ekki mikil hætta á, að það verði misnotað til annara hluta, eins og gefið hefir verið í skyn. Það er að vísu ekki gott að vita, hverjir við taka, en mér finnst það þó allsterkt, þegar það bæði er tekið fram í grg. frv. og eins yfirlýst af hæstv. fjmrh., til hvers lánið skuli nota.

Nú er ég ekki að segja, að ekki gæti komið til mála að setja varnagla í frv., eins og hv. 1. landsk. stingur upp á. En ég er ekki viss um, að það form fyrir lántöku væri nokkurs virði fyrir nokkra stjórn. Ég hefi ekki getað aflað mér nægra upplýsinga um það, og af því ég hefi ekki lokið við þá athugun, vildi ég beina því til forseta, hvort hann vildi ekki taka málið út af dagskrá í dag, því ef svo væri, að ekki þýddi neitt að setja í frv. slík skilyrði um endurgreiðslu sem felst í brtt. hv. 1. landsk., þá væri það sama sem engin heimild, og ef á því tímabili, sem þing ekki sæti, byðist ódýrara lánsfé en þessi lán, sem greiða á upp, þá álít ég það mikið gagn fyrir ríkið, og það þætti kannske illt að sleppa slíku tækifæri. Af þessum ástæðum vildi ég gjarnan, að forseti tæki málið af dagskrá.