14.05.1932
Neðri deild: 75. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 605 í B-deild Alþingistíðinda. (238)

2. mál, fjáraukalög 1930

Frsm. meiri hl. (Halldór Stefánsson):

Eins og menn munu hafa tekið eftir af þeim nál., sem komið hafa frá meiri og minni hl. fjhn., þá hefir fjhn. ekki getað orðið sammála um afstöðu til þessa frv. Meiri hl. leggur til, að frv. verði samþ., en minni hl. að það verði fellt. En þótt niðurstaðan yrði þessi, þá vil ég geta þess, að n. vann í sameiningu að því að bera frv. saman við till. yfirskoðunarmanna LR. um aukafjárveitingar, og ber þar ekkert á milli. Eru teknar í frv. allar þær upphæðir, sem yfirskoðunarmennirnir gera till. um, að teknar verði.

Þetta munu vera hæstu fjáraukal., sem komið hafa fram á síðari árum, og stafar það að nokkru leyti af sérstökum orsökum. Skal ég geta um þær helztu. Í aths. við LR. 1929 gerðu yfirskoðunarmennirnir till. um, að sú venja væri upp tekin, að tekið væri upp í fjáraukal. meira en venja hefir verið til, þannig að ekki einungis allt það væri tekið upp í fjáraukal., sem greitt væri umfram lögbundnar greiðslur og greiðslur, sem einungis eru ákveðnar í fjárl., heldur einnig umframgreiðslur, sem verða vegna greiðsluheimilda í þál. og sérstökum l. til ákveðinna framkvæmda. Þetta er nú gert í fyrsta sinn í þessum fjáraukal. Veldur það miklu um, að þau eru hærri nú en venjulega. Það má t. d. nefna, að það, sem varið var til byggingar landsspítalans, var miklum mun meira en það, sem veitt var í fjárl. Er leitað aukafjárveitingar fyrir því. Nam sú umframgreiðsla eigi minnu en 867 þús. kr.

Þá má og geta þess, að á þessu ári, hátíðarárinu 1930, urðu alveg óvenjuleg útgjöld, þar sem er kostnaður við alþingishátíðina, sem nemur allt upp í millj. kr. Eru það útgjöld, sem ekkert hafði verið áætlað fyrir. En útgjöld vegna slíkra atburða falla vitanlega ekki til á hverju ári.

Þá má og nefna það, að árið 1930 var alveg óvenjulega mikið um framkvæmdir, bæði sérstakar og almenns eðlis, framkvæmdir, sem yfir höfuð miðuðu að umbótum á landshögum. Það var óvenjulega mikið fé lagt til vegagerða, brúabygginga, simalagninga, og loks var meira fé veitt vegna ræktunar og bygginga en nokkurntíma áður hefir verið gert. Allt hlaut þetta að koma fram í þessum fjáraukal. Ég býst við, að stj. hafi litið svo á, að réttmætt væri, að þjóðin fengi sem einskonar 1000 ára afmælisgjöf, að meira væri unnið á þessu ári en venja var til. Þótt umframgreiðslur hafi orðið meiri en venja var til, og það af þeim ástæðum, er ég hefi lýst, þá sér meiri hl. fjhn. ekki ástæðu til þess að breyta út af vana um samþykkt fjáraukal. með því að bregða fæti fyrir frv. Það hefir ekki verið venja áður, að það væri gert, þó um háar umframgreiðslur hafi oft og einatt verið að ræða, að vísu ekki jafnháar sem nú. En um þetta var höfuðágreiningurinn innan fjhn. Meiri hl. þykir ekki hæfa að synja um samþykkt þessara fjáraukal. frekar en venja er til, þar sem líka till. yfirskoðunarmanna hafa að fullu verið teknar til greina, þó minni hl. n. vilji ekki leggja til, að frv. verði samþ. Má og vera, að djúptækari ágreiningur liggi á bak við. En hann ætti þá að koma fram á annan hátt en þann, að synja þessu frv. staðfestingar.