26.05.1932
Efri deild: 84. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2083 í B-deild Alþingistíðinda. (2382)

645. mál, lántaka fyrir ríkissjóð

Jón Baldvinsson:

Við fyrri hl. 3. umr. tók ég mér frest til þess að athuga brtt. hv. 1. landsk. um að setja það inn í frv. sjálft, að láninu skuli varið til þess að greiða upp önnur tiltekin lán. Eftir að hafa athugað þetta nokkuð skilst mér, að lánsheimildin sé alveg ófullnægjandi, ef þessi brtt. er samþ., vegna þess að fram hefir komið áður, að ekki hefir fengizt lán samkv. lánsheimild, sem skilyrði hafa verið sett inn í um það, til hvers láninu skuli varið. Hinsvegar hefir nú hæstv. fjmrh. lýst því yfir, sem líka stendur í grg. frv., að því láni, sem hér er verið að veita heimild til að taka, eigi að verja til þess að greiða upp tiltekin lán. Þó í frv. sé farið fram á nokkuð hærri upphæð heldur en þau lán nema samtals, þá er mismunurinn ekki það mikill, að búast má við, að meginhluti hans fari í afföll og kostnað við lántökuna. Mun því sú ríkisstj., sem lánið tekur, ekki fá neitt, sem dregur, af því til annarar ráðstöfunar. Hinu, að nokkur stj. mundi voga sér að taka lán til eyðslu samkv. þessari lánsheimild, þó ekki sé tekið fram í frv. sjálfu, til hvers á að nota hana, því hefi ég enga trú á. Eftir þær yfirlýsingar, sem fram hafa komið frá hæstv. fjmrh. og þeirri n., sem um frv. hefir fjallað, auk þess sem um þetta atriði stendur í grg. frv., held ég, að engin stj. mundi þora að nota þessa lánsheimild til þess að taka lán til almennrar eyðslu, í stað þess að greiða upp þær skuldir, sem lánsheimildin er miðuð við, jafnvel hvað miklir vandræðamenn sem í henni væru. Álít ég því óhætt að samþ. frv. óbreytt. Ef það skyldi koma fyrir, að möguleiki yrði til þess á milli þinga að breyta þeim skuldum, sem greindar eru í grg. frv., í hagkvæmara horf, þá vil ég ekki, að neitt sé því til fyrirstöðu, að landsmenn njóti þess hagnaðar, sem af því gæti leitt. þess vegna mun ég greiða atkv. með frv. eins og það liggur fyrir, og mundi gera það undir svipuðum kringumstæðum fyrir hvaða stj. sem væri, — enda er ég, eins og menn vita, í andstöðu við núverandi stj., ef nokkur stj. er annars til í landinu í dag. — Ég tel útilokað, að nokkur stj. geti misnotað þessa heimild, en tel hinsvegar, að hún gæti orðið þjóðinni að nokkru gagni.