14.05.1932
Neðri deild: 75. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 606 í B-deild Alþingistíðinda. (239)

2. mál, fjáraukalög 1930

Frsm. minni hl. (Magnús Jónsson) [óyfirl.]:

Það er rétt, sem hv. frsm. meiri hl. sagði, að ég tók þátt í störfum fjhn., bæði um athugun á LR. og fjáraukalfrv. Var ég, ásamt hv. frsm. meiri hl., í undirn., og gerðum við þann samanburð, sem hann hefir lýst. Það er vitaskuld rétt, sem hann sagði, að við fundum þar engar villur, heldur er allt fullkomlega rétt skrifað upp eftir LR. Ef ekki hefði verið um neitt annað en það að ræða, hvort nokkrar reikningsvillur væru, þá hefði ég getað orðið hv. meiri hl. n. samferða um að leggja til, að frv. væri samþ. En það er annað og stærra, sem liggur hér á bak við og er ástæðan til þess, að ég hefi klofið mig frá meðnm. mínum og lagt til, að þessi fjáraukal. yrðu ekki samþ. Annars skal ég taka það fram, að mér hefði þótt heppilegra, að frv. til l. um samþykkt á LR. hefði verið hér til umr. á undan, því að LR. er nokkurskonar undirstaða þessa frv. Mér finnst eðlilegra að taka í sambandi við LR. þær aðfinnslur, sem bæði ég og kannske einhverjir aðrir hefðu viljað bera fram um einstök atriði. Ég mun því í sambandi við þetta mál aðeins taka þær almennu ástæður til umr., en láta hitt bíða, þangað til LR. kemur til umr.

Hv. frsm. sagði, að það væru einsdæmi, ef nú ætti að synja stj. um samþykkt á fjáraukalögum, þar sem har væri að öllu leyti farið eftir till. yfirskoðunarmanna LR. Þetta er ekki einsdæmi. Ég greiddi atkv. á móti fjáraukalögum í fyrra, þó að þau næðu þá samþykki þingsins, og má vera, að eins verði með þessi fjáraukalög. Þó var ekki eins mikil ástæða til að vera á móti fjáraukalögunum, sem voru til meðferðar, eins og þeim fjáraukalögum, sem nú liggja fyrir, því að í því frv., sem þá var til meðferðar, sem sé fjáraukalögunum fyrir 1929, voru ekki eins stórbrotnar misfellur eins og í því frv., sem nú liggur fyrir. Þá var umframeyðsla þó ekki meira en hátt á 3 millj. En nú er um að ræða fjáraukalög, þar sem umframeyðsla er 5125572,87 kr., og áður hafa verið samþ. fjáraukalög fyrir sama ar, er nema kr. 978017,19. Öll umframeyðsla þessa árs nemur því kr. 6103590,06, eða á sjöundu millj. kr. hér er því um svo gífurlega fjáreyðslu að ræða, að það er ekki einleikið, ef hér er um forsvaranlega meðferð fjár að ræða.

Hv. frsm. meiri hl. leitaðist við að bera fram vörn fyrir hinni gengdarlausu eyðslu umfram fjárlög og nefndi par til tvær ástæður. Önnur ástæðan var sú, að yfirskoðunarmenn LR. hefðu nú lagt til, að teknar væru upp í fjáraukalög ýmsar aukafjárveitingar og liðir, sem ekki hefði áður verið venja að taka þar upp. Ég þori ekki að þvertaka fyrir þetta, en ég hygg, að það muni ekki svo miklu, að það skipti nokkru verulegu máli. Tveir af yfirskoðunarmönnum LR. eiga sæti hér í d., og geta þeir þá leiðrétt þetta, ef það er ekki rétt. Eftir því sem mér hefir virzt við yfirlestur þessara aths. frá yfirskoðunarmönnum, þá er þar fylgt alveg sömu reglum og áður hafa gilt, t. d. þau tvö ár, sem ég var yfirskoðunarmaður LR., sem sé heim reglum, að taka upp í fjáraukalög allar umframgreiðslur aðrar en þær, sem bersýnilegt var, að hver einasta ríkisstj., eyðslusöm sem sparsöm, hefði innt af hendi. Það er í sumum tilfellum hægt að segja, að gjöld séu óhjákvæmileg, þótt þau séu ekki lögboðin, og þá höfðum við það fyrir reglu að leggja til heldur oftar en sjaldnar, að aukafjárveiting væri veitt, og ég held, að alveg sama aðferð sé höfð við þetta ennþá.

Þá bar hv. frsm. fram þá ástæðu, að stj. hefði haft svo margvísleg störf með höndum á þessu ári og að hún hefði gefið þjóðinni nokkurskonar afmælisgjöf í minningu um þúsund ára afmæli Alþingis. Ég er alveg sammála hv. frsm. um það, að mjög miklu fé hefir verið eytt af þessum ástæðum, en okkur greinir bara á um það, hvort stj. hafi haft nokkra heimild til þessara starfa, eða hvort hún hafi átt nokkuð með að gefa slíka afmælisgjöf upp á annara kostnað. hér má ekki blanda því saman við, að margt af þessu, sem unnið hefir verið, sé þarft og gott. Það væri hægt að setja ríkið margfaldlega á höfuðið með því að framkvæma þó ekkert annað en það, sem með sanni mætti telja þarft og gott. Stj. gæti t. d. látið byggja svo mikið af vegum og brúm, að ríkið yrði gjaldþrota, og mætti þó segja, að hver vegur og hver brú væri góð og þörf. Til að koma í veg fyrir slíkt, eru kosnir fulltrúar á löggjafarsamkomu þjóðarinnar. Eitt af allramikilvægustu störfum þeirra er að sjá svo um, að fjármálunum sé skynsamlega stjórnað á þingi er kosin fjölmennasta nefnd þingsins til að athuga sérstaklega þessi mál. Hún situr hér og blaðar í skjölum og gegnumgengur öll plögg, sem fyrir liggja um þessi mál, til að hnitmiða, hversu miklu sé óhætt að verja til hvers og eins, þannig að afgreiðsla fjármálanna geti talizt sæmileg. En nú kemur stj. til og brýtur allar þessar reglur og fyrirmæli Alþingis, og það svo stórkostlega, að slíks hafa ekki áður þekkzt dæmi. Það er engin afsökun, að þetta eigi að vera afmælisgjöf, sem stj. gefur í minningu um það, að Alþingi sé þúsund ára gamalt. Það mætti þvert á móti áfellast stj. fyrir það, að hún skuli ekki hafa virt meira en þetta boð svo gamallar og virðulegrar stofnunar.

Það er einmitt þetta, sem mér virðist koma greinilega fram í þessum fjáraukalögum, að stj. hafi brotið. Hún hefir tekið í sínar hendur það vald, sem Alþingi á með réttu að hafa. Sem dæmi upp á þessa miklu eyðslu umfram heimildir vil ég taka fjárveitingar til þeirra framkvæmda, sem allir vita, að eru góðar og þarflegar, sem sé vega, brúa og vita. Til hvers er þingið að ákveða nokkuð um þetta, þegar stj. fer svo ekkert eftir þeim ákvæðum frekar en henni sjálfri gott þykir? Hún veitir kannske helmingi meira til einhvers vegar heldur en heimild var fyrir, þrisvar sinnum meira til annars vegar, og fellir svo ef til vill niður að miklu eða öllu leyti þær fjárveitingar, sem þingið hafði heimilað til annara vega. Hvers vegna eru vegalögin ekki heldur afgr. þannig, að sagt sé í vegalögunum, hverja vegi eigi að byggja, og fela svo stj. að framkvæma þær vegalagningar eftir eigin geðþótta, eftir því sem fé er til í hvert skipti? þessa reglu hefir þingið ekki viljað taka upp, af því að það vill sjálft setja lög og reglur um allar fjárveitingar. Þau lög hafa að vísu verið brotin áður, en aldrei svo óafsakanlega sem nú. Alþingi verður því að halda hér fast á þessum rétti sínum og taka í taumana svo að um muni.

Það var einu sinni áður — ég ætla, að það hafi verið 1920–1921 — sem eyðsla umfram fjárlög var akaflega mikil.

Var þá ógurlegur úlfaþytur í andstæðingum stj. út af þeim umframgreiðslum. Þá kom upp nafnið „fjáraukalögin miklu“. Þá mátti segja, að um sérstakar ástæður væri að ræða, þá voru t. d. sett ný launalög, an þess að fjárl. væri nokkuð breytt í sambandi við það, og þó að það hefði verið reynt, þá hefði það mistekizt. Menn heldu, að dýrtíðaruppbótin mundi lækka, en í staðinn fyrir það hækkaði hún svo, að hún varð 137% af öllum föstum launum. Þá bjuggust menn líka við, að allur kostnaður mundi stórlækka, en í staðinn fyrir það hækkaði hann geysilega mikið, t. d. hækkaði allt ljósmeti afarmikið í veiði og sömuleiðis eldiviður. T. d. komust kolin allt upp í 300 kr. smálestin. Af þessu leiddi vitanlega það, að greiða varð miklu hærri upphæðir til allra ríkisstofnana. Þetta voru sérstakar ástæður. Þá mátti segja, að óhjákvæmilegt væri fyrir hvaða stj. sem var að koma með gífurlega há fjáraukalög. Hitt er engin afsökun fyrir mikilli umframeyðslu, að Alþingi hafi átt þúsund ára afmæli.

Ég er ákaflega hræddur um, ef þingið leggur blessun sína yfir þessa meðferð fjárins árið 1930, þá eigi það eftirleiðis erfitt með að halda rétti sínum fyrir ráðríkri stjórn, sem vill hafa sinn vilja fram, hvað sem Alþingi segir . Það getur vel verið, að það geri ekki svo mikið til með þetta nú á næstu árum, af því að nú eru svo erfiðir tímar, að það er litlu hægt að eyða, og verður sjálfsagt fullerfitt að inna af hendi þau lögákveðnu gjöld. En ég býst við, að ef við samþ. Þessi fjáraukalög nú, þá muni sú stj., sem er við völd næst þegar góðæri kemur, muna, hvað Alþingi var leiðitamt 1932, að leggja blessun sína yfir þá gegndarlausu eyðslu, sem átti sér stað á árinu 1930, og strákast upp í að fara eins að.

Ef þingið aftur á móti gefur þeirri stj., sem nú hefir haft fjármálin til meðferðar, þá ráðningu, að fella þessi fjáraukalög og sömuleiðis frv. um samþykkt LR., þá álít ég, að þingið hafi þar gefið það eina svar, sem það sóma síns vegna getur gefið við slíku háttalagi sem þessu, og ætti það að geta orðið holl áminning eftirleiðis.