25.04.1932
Efri deild: 59. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2091 í B-deild Alþingistíðinda. (2391)

463. mál, fátækralög

Jón Baldvinsson:

Mér kemur í hug að fara fram á það við hv. allshn., að hún lati frv. ganga til umsagnar bæjarstjórnar eða fátækrastjórnar Rvíkur og Hafnarfjarðar. Þau tvö sveitarfélög greiða mikinn hluta fátækrakostnaðar hér á landi. Vil ég mælast til þess, að hv. n. leiti umsagnar þeirra um þetta.

Út af orðum hv. 2. þm. Eyf. tek ég það fram, að ég tel það hafa þýðingu að láta frv. mitt til framfærslul. koma fram í deildinni, til þess að sjá afstöðu hv. þm., því að þótt hv. þm. segi, að það myndi ekki lagt til grundvallar við breyt. á fátækral., þá veit hann það ekki, og mér skilst á sumum hv. dm., að þeir myndu vilja fallast á frv. lítið breytt fremur en þetta, sem hér liggur fyrir.

Held ég ekki, að það sé þýðingarlaust að láta frv. koma til umr. án tillits til till. n.