28.04.1932
Efri deild: 62. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2092 í B-deild Alþingistíðinda. (2395)

463. mál, fátækralög

Frsm. (Jón Jónsson) [óyfirl.]:

Allshn. hefir tekið þetta mál til athugunar og hefir leyft sér að bera fram á þskj. 550 brtt. við frv. eins og það kom frá atvmrn. Þær eru í sjálfu sér ekki stórfelldar. Fyrri brtt. er um það, að lengja þann frest, sem oddvitum er veittur samkv. 2. gr. til þess að senda atvmrn. skýrslur um fátækraframfæri, þannig að í stað febrúarlok komi marzlok. N. telur, að þetta sé of snemmt á árinu, a. m. k. á stærri stöðum, sem varla geta haft reikninga sína til svo snemma til þess að senda fyrir febrúarlok, og sá ekki, að það væri neinn skaði, þó það væri dregið í einn mánuð.

Önnur brtt. er við 3. gr. Þar er ákveðið, hvernig eigi að reikna út fátækrakostnað sveitarfélaganna, og er gert ráð fyrir, að það sé miðað að 1/3 hluta við mannfjölda. En n. gerir brtt. um það, að í staðinn fyrir að miða við mannfjölda sé miðað við það, sem maður kallar verkfært fólk, 18–60 ára, m. ö. o. það, sem gjaldskylt er til ellistyrktarsjóðs. Með því að þær skýrslur eru fyrir hendi, er eðlilegt, að við þær sé miðað.

Aðrar brtt. ber n. ekki fram sameiginlega. En ég skal leyfa mér að fara nokkrum orðum um brtt., sem ég ber fram ásamt öðrum utan n. Fyrsta brtt. er á þskj. 552, sem hv. 2. þm. Eyf. flytur með mér. Hún er við 3. gr. og ræðir um það, hvernig skuli reiknaður út fátækrakostnaður hreppanna. Maður verður að gera sér ljóst, hvaða aðferð sé heppilegust til þess að finna gjaldþol sveitarfélaganna. En ég verð að segja það, að mannfjöldinn út af fyrir sig er lítill mælikvarði á gjaldþolið, en vinnuaflið, sem mannfjöldinn getur lagt til, er nokkur mælikvarði, en það kemur fram í hækkun eða lækkun á tekjum sveitarfélagsins. Að öðru leyti en það, sem kemur fram í tekjum, sem menn hafa unnið sér inn, sýnir lítið um gjaldþol manna. Þess vegna tel ég fyrir mitt leyti, að hinir liðirnir, sem taldir eru hér upp sem mælikvarði yfir gjaldþol manna, skattskyldar tekjur og skuldlausar eignir, séu miklu sannari mælikvarði en það, hvort fólkið er fleira eða færra, og þess vegna, þegar leita á að gjaldþoli, á fyrst og fremst að miða við þessa 2 stofna. Nú er í frv., þvert á móti því, sem ég tel rétt, lögð aðaláherzlan á mannfjöldann, þar sem gert er ráð fyrir, að 1/3 skattsins sé miðaður við mannfjölda. Þetta er óhæfilega hátt, og vil ég því breyta til og færa þennan hluta niður í 1/6 miðað við mannfjölda, en aftur 13 miðað við skuldlausar eignir. Ef sveit á mikið af skuldlausum eignum, þá sýnir það miklu ljósar, að hún hefir mikið gjaldþol, en þó hún hefði margt af fólki, einkanlega ef mikið er af börnum og gamalmennum. Ég vil þess vegna leggja áherzlu á, að þessi brtt. nái fram að ganga.

Þá flyt ég aðra brtt. á þskj. 526 með hv. 2. þm. Árn., og skal ég játa, að hún er þessu frv. óskyld, snertir ekki þessi atriði, sem frv. ræðir um, heldur það, sem um áratugi hefir verið mjög viðkvæmt deilumál, sveitfestistímann. Eins og menn vita, þá var sveitfestistíminn fyrir skömmu 10 ár, en var fyrir nokkru færður niður í 4 ár, en við leggjum til í þessari brtt., að hann verði enn þá styttur niður í 2 ár. Með því vinnst ýmislegt að okkar dómi, fyrst og fremst það, að fátækraflutningar munu minnka og einnig skrifleg viðskipti milli sveitarfélaganna, og með því vinnst það, sem við leggjum aðaláherzluna á, að þá kemur minna fyrir af því, sem þjáir sveitarfélögin mest, að þurfa að borga með þurfamönnum út úr sveitunum, sem verður til þess, að fátækrakostnaður hvers sveitarfélags verður miklu meiri en ella þyrfti að vera. Við höldum, að þetta stuðli að því m. a. að draga úr því, að ríkissjóður þurfi að leggja mikið fram til fátækraframfærslu, og að því að draga úr fátækrakostnaði, og það teljum við afskaplega stórt atriði, þegar hvert sveitarfélag þarf lítið annað að annast en sína eigin þurfalinga. Í frv., sem komið er fram í Nd., hefir verið lagt til að stiga sporið ennþá lengra, sem sé að gera dvalarsveitina að framfærslusveit. Með því móti losna menn við fátækraflutninga og allt vafstur milli sveitarfélaga. En það hefir ýmsa annmarka í för með sér og er miklu stærra spor, svo ekki er þorandi að leggja út á þá braut.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta að svo stöddu, fyrr en einhver andmæli hafa komið fram gegn þessum till., sem hér liggja fyrir. Hér er einnig ein till. frá hv. 4. landsk. og hv. 2. þm. Eyf. Ég sé ekki ástæðu til að tala um hana fyrr en þeir hafa gert grein fyrir henni.