28.04.1932
Efri deild: 62. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2094 í B-deild Alþingistíðinda. (2396)

463. mál, fátækralög

Pétur Magnússon:

Þó ég sem einn nm. hafi gerzt meðflm. þessa frv. og ætli því að ljá því fylgi mitt, þá verð ég að segja, að ég er ekkert hreykinn af þessu afkvæmi okkar. Mér er ljóst, að sú breyt., sem hér er lagt til að gerð verði, er ekki annað en kák, sem ekki verður búið við lengi. Það orkar ekki tvímælis, að það dregur að því, að við verðum að gera gagngerða breyt. á fyrirkomulagi fátækramálanna, og ég geri ráð fyrir, að það dragi til þess áður en langt um liður, að landið verði gert að einu framfærsluumdæmi, þrátt fyrir alla þá ágalla, sem á því eru. Hinsvegar er það ljóst, að fátækramálin eru komin í það horf, að óhjákvæmilegt er að gera einhverja breyt. á þeim þegar í stað. Sú byrði, sem er lögð á vissa hreppa landsins, er orðin svo þung, að þeir eru hættir að geta risið undir henni. Þetta er staðreynd, sem öllum er ljós, sem hafa kynnt sér þetta mál. Þegar því stendur svo á, að ekki er útlit fyrir, að gagngerð breyt. geti farið fram í þessu efni á þessu þingi, þá er ekki annars kostur en að reyna að bæta úr sárustu ágöllunum. sá ágallinn, sem mest er áberandi, er, að fátækraframfærslan skiptist svo misjafnt á ýmsar byggðir landsins, að ekki verður við unað. Úr þessum ágalla er frv. ætlað að bæta. Aðalbreyt., sem lagt er til að gerð verði á fátækral., er fólgin í 3. gr. frv., þar sem gert er ráð fyrir því, að meðaltal fátækraútgjalda sá fundið eftir tilteknum reglum, og þau framfærsluhéruð, sem verst verða úti, fái endurgreiddan vissan hluta af því, sem þau leggja fram. Eins og hv. dm. hafa veitt athygli, þá er lagt til í frv., að enginn hreppur geti fengið endurgreiðslu fyrr en fátækraútgjöld hans eru komin 20% fram úr meðaltali. En af því, sem þar er fram yfir, er ætlazt til, að hann fái endurgreidda 2/3 hluta. Það er svo eftir þessari till., að hrepparnir verða fyrst að greiða 1/5 fram yfir meðaltal, og í viðbót við það 1/3 af því, sem fram yfir er, hvað mikil upphæð, sem það kann að vera. Þessi ákvæði eru sett í þeim tilgangi að halda fátækragjöldunum niðri, eftir því sem föng eru til, og að hreppsn. hafi vegna eigin hagsmuna ekki tilhneigingu til að láta fátækraútgjöld fara fram úr því, sem nauðsyn krefur. Og mér er ljóst, að ekki er hægt að komast hjá því að setja einhver ákvæði til þess að fyrirbyggja, að hreppsn. hagi sér of gálauslega í þessu efni. Ef þær hafa ekki eigin hagsmuna að gæta, þá er hætt við, að minna sé skeytt um að halda útgjöldunum í skefjum. En ég álít það nægilegt aðhald fyrir hreppsn. að eiga að greina 1/3 af því, sem er fram yfir meðaltal. Hreppsnefndirnar vita í mörgum tilfellum ekki, hvort fátækragjöldin muni verða fyrir neðan eða ofan meðallag, og eiga líka sömu hagsmuna að gæta, meðan ekki er komið yfir meðaltal. En þegar yfir það er komið, eiga þó hrepparnir að bera 1/3 kostnaðarins við fátækraframfærsln. Ætti það að vera nægileg trygging fyrir því, að ávallt yrði gætt allrar skynsamlegrar sparsemi. Ég hefi því, ásamt hv. 2. þm. Eyf., leyft mér að gera brtt. um, að úr frv. falli niður orðin „meira en 20%“. Okkur sýnist fullkomin sanngirni vera í því að leggja ekki þyngri byrðar af fátækraframfærinu en 1/3 fram yfir meðaltal á þau hreppsfélög, sem verða harðast úti.

Hv. 3. landsk. og hv. 2. þm. Eyf. hafa gert brtt. um útreikning fátækraþungans, haunig að 1/6 komi á tölu verkfærra manna, en 1/3 á skuldlausar eignir, þegar finna skal meðaltalið. Ég hefi ekki getað fallizt á þessa brtt., því þó að tala fullvinnandi manna sé hæpinn mælikvarði, þá er þó hitt ennþá hæpnara. Það er augljóst, að þau héruð, sem hafa marga menn á bezta aldri, eru betur fær um að bera nokkrar byrðar en þau, sem eiga lítið af slíkum mönnum. En eignaframtal er þar á móti í mörgum tilfellum svo hæpinn mælikvarði, að varla er rétt að byggja á því sem undirstöðutölu í svo ríkum mæli sem brtt. gerir ráð fyrir. Það þýðir ekki að vera að hræsna neitt með það, að eignaframtal er oft mjög fjarri hinu raunverulega. Tíundin gamla reyndist ekki sérlega ábyggileg. Og ég hygg, að það sé komið fullkomlega í ljós, að núverandi framtöl reynast það ekki heldur. Hinsvegar er sanngjarnt að taka eitthvert tillit til eigna, og hygg ég, að það sé hæfilega gert eins og ákvæði frv. eru nú, enda getur varla verið meiningin að miða svo við skuldlausar eignir, að á þær verði að ganga í stórum stíl.

Þá er hér till. frá hv. 3. landsk. og hv. 2. þm. Árn., um að stytta sveitfestistímann úr 4 árum í 2 ár. Ég álít óheppilegt að stytta sveitfestistímann, meðan því fyrirkomulagi er haldið, sem nú er. Það yrði til þess, að hreppsnefndirnar myndu reyna að velta þurfalingunum hver á aðra enn meira en nú er gert. Á þessu bar nokkuð meðan sveitfestistíminn var 10 ár og hefir aukizt eftir að hann var færður niður í 4 ár. Það er því augljóst, að þetta mundi enn aukast, ef hann væri færður niður í 2 ár. Ég hygg því ótímabært að gera þessa breyt. nú. Hitt gæti komið til mála, að afnema sveitfestistímann með öllu, ef landið væri gert að einu framfærsluhéraði. Einnig held ég, að samþykkt þessa ákvæðis mundi valda ágreiningi og geta orðið til að hindra framgang málsins í þetta sinn. En ég hygg, að það sé nauðsynlegt, að þetta frv. gangi fram nú þegar, þótt skiptar kunni að vera skoðanir um það, hversu vel sé frá því gengið. Ég vil því mjög eindregið leggja á móti því, að þessi breytingartillaga nái samþykki.