28.04.1932
Efri deild: 62. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2100 í B-deild Alþingistíðinda. (2398)

463. mál, fátækralög

Frsm. (Jón Jónsson) [óyfirl.]:

Hv. 4. landsk. fór nokkrum orðum um aðalefni frv. og þá þörf, sem væri á, að ákvæði þess kæmust í framkvæmd. Í framsöguræðu minni taldi ég ekki vera þörf á að tala um frv. í heild, þar sem ég gerði það við 1. umr. En það er rétt, að á ákvæðum þessa frv. er brýn þörf. En svo endaði hv. þm. með því, að hann teldi æskilegast, að landið allt yrði gert að einu framfærsluhéraði. Ég get ekki tekið undir þetta. Ég vona fyrir mitt leyti, að slíkt verði ekki gert í bráð. Ég er sannfærður um, að það mundi verða til þess að auka mjög framfærslukostnaðinn. Með því móti yrði miklu síður gætt sanngjarnrar hagsýni og sparnaðar, án þess að í því væri fólgin nein trygging fyrir því, að kjör og líðan þurfamanna yrði að nokkru betri.

Með þessu frv. er dreginn sárasti broddurinn úr því geysilega ósamræmi, sem er á framfærslukostnaði þurfalinga nú sveita á milli. En ég vil ekki með þeirri lagfæringu draga úr þeirri hvöt til sparnaðar, sem núgildandi fyrirkomulag veitir. En ég held, að sú hvöt verði fulllítil, ef framfærsluhéruðunum er ekki gert að borga meira en 1/3 af því, sem fátækraframfærið fer fram yfir meðaltal. Ég tel því vafasamt, hvort rétt sé að samþ. brtt. um að fella niður ákvæðið um 20% fram yfir meðaltal.

Þá vildi hv. 4. landsk. andmæla till. okkar hv. 2. þm. Eyf., að miða meira við skuldlausar eignir en fólksfjölda. Ég hélt satt að segja, að nefskattarnir væru orðnir svo óvinsælir, að öðru eins og þessu væri ekki haldið fram. — Þá skildi ég ekki þá fullyrðingu hv. þm., að framtalið til eignarskattsins væri mjög hæpið yfirleitt. Það má vel vera, að peningar í bönkum og sparisjóðum komi ekki alveg fram, en yfirleitt held ég, að framtalið sé ábyggilegt. Ég verð því að álíta, að skuldlaus eign og skattskyldar tekjur sé sá sanngjarnasti grundvöllur, sem hægt er að byggja á í þessum málum.

Þá var þessi hv. þm. að andmæla brtt. okkar 2. þm. Árn. um að stytta sveitfestistímann úr 4 árum niður í 2 ár. Ég skal játa, að ég legg ekki eins mikla áherzlu á það atriði eins og hitt. Þó myndi það draga mikið úr því, sem sveitirnar þyrftu að borga út hver til annarar. Hann hélt, hv. þm., að þessi stytting sveitfestistímans yrði frekast til þess, að hver sveit færi að reyna að velta sem mestu af sér, en Þetta held ég að sé alls ekki rétt. Ég get t. d. tekið undir með hv. 2. þm. Árn., að ég þekki fá dæmi um slíkt úr minni sveit eða þar, sem ég þekki til. Þó ég leiti með sjálfum mér, get ég ekki fundið nema eitt tilfelli.

Hvað snertir till. hv. 2. þm. Árn. í þskj. 546, þá sé ég ekkert á móti því, að hún sé samþ. Hún bindur það, að lögin skuli endurskoða innan tiltölulega skamms tíma, en sem sagt, ég legg mesta áherzlu á brtt. okkar hv. 2. þm. Eyf., því að hún felur í sér mikilsverða leiðréttingu frá því, sem er í frv.