28.04.1932
Efri deild: 62. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2103 í B-deild Alþingistíðinda. (2400)

463. mál, fátækralög

Jón Þorláksson:

Aðalkostur frv. þessa er í mínum augum sá, að það gerir nýja og hentugri ráðstöfun á fé því, sem nú er varið úr ríkissjóði til fátækramála, svo framarlega sem treysta má ummælum í grg. frv. Þar er sagt, að eftir ákvæðum frv. myndi tilkostnaður ríkissjóðs vegna fátækramálanna hafa dreifzt yfir á 60 sveitarfélög, þau, er mest sveitarþyngsli höfðu 1930, og numið svipaðri upphæð alls og sveitarfélögin hefðu fengið í sjúkrastyrki samkv. 67. gr. fátækralaganna. Það er því svo að sjá, að frv. sé ekki ætlað að baka ríkissjóði ný útgjöld, heldur miði það að því að láta það, sem ríkissjóður leggur nú af mörkum til fátækramálanna, koma réttlatar niður en verið hefir, og jafnframt að því, að nema burt verstu agnúana, sem á því eru, hve fátækraframfærslan kemur misjafnlega niður, svo langt sem þessi fjárhæð hrekkur. Ég álít rétt að gera þessa tilraun, að raðstafa því fé, sem ríkissjóður leggur til fátækraframfærslunnar, eins og frv. fer fram á. En ég fyrir mitt leyti er ófús á, eins og nú standa sakir, að fara út fyrir þann fjárhagslega grundvöll, sem takmarkaður er í frv. Þess vegna treysti ég mér ekki til að greiða atkv. með brtt. á þskj. 551, því að mér virðist hún raska þessum grundvelli nokkuð mikið. Ég hefi að vísu ekki heyrt flutningsmenn gera grein fyrir því, hve mikil aukaútgjöld tillagan mundi hafa í for með sér fyrir ríkissjóðinn. Af þessum ástæðum get ég ekki heldur greitt henni atkv. mitt, því ég vil ekki, að hún verði samþ. í blindni, án þess að fyllilega sé ljóst, hvaða fjárhagslegar afleiðingar hún kann að hafa í fór með sér.

Þá hefir talsvert verið um það rætt, hvaða mælikvarða eigi að nota til þess að finna samanburð á fátækraframfærslu hinna ýmsu sveitarfélaga, og að því leyti get ég tekið undir ummæli hv. 2. þm. Árn., að undirbúningur undir þetta mál sé ófullkominn, enda þótt grg. frv. fylgi ýtarleg tafla um fátækraframfærsluna fyrir 1 ár. Úr þessu hefði líka mátt vinna miklu betur. Það hefði mátt framkvæma stærðfræðlega rannsókn, byggða á rannsókn þeirri, sem gerð hefir verið, og þá rannsókn mætti ennþá fá gerða. Á ég þar við, að hægt sé að gera samanburð á þeim mælikvörðum, sem hér liggja fyrir og sjá, hver þeirra sýnir mestar og hver minnstar sveiflur frá meðaltali, og má þá ganga út frá því, að sá mælikvarðinn, sem minnstar sveiflur synir frá meðaltali, sé ábyggilegastur. Ég hefði talið æskilegt að fá þetta gert, því að ég tel hálfgerða synd að láta framkvæma allt það erfiði, sem það hefir kostað að taka tölur þessar upp, en nota þær svo ekki til þess, sem þær bjóða upp a. Ef litið er á þessa mælikvarða eins og þeir liggja fyrir, þá er sá mælikvarði, sem byggist á mannfjöldanum, mjög ábyggilegur, að því leyti, að tölur þær, er hann byggist á, takna það, sem þeim er ætlað að takna. Sama er að segja um fasteignamatið. Samt er það óábyggilegt að því leyti, sem það er misjafnlega framkvæmt í hinum ýmsu sýslum. Ég hefði því haldið, að sá mælikvarðinn, er byggist á skattskyldum tekjum og skuldlausum eignum, væri óábyggilegastur, af því að tölur þær, sem hann byggist á, eru ekki sem ábyggilegastar. Með því er ég þó alls ekki að véfengja þær tölur, sem byggjast á framtölum góðra manna og yfirfarnar eru af skattanefndum, en það er ekki lagaleg skylda að telja fram tekjur og eignir. Verður því oft að áætla hjá mönnum tekjur og eignir, en það eru þær tölur, sem ég tel óábyggilegar. Þá eru eins og kunnugt er, allar eignir undir 5 þús. kr. skattfrjálsar, og mér er næst að halda, að á þeim framtölum sé mjög mikill misbrestur. Menn vita, að eignir þeirra ná ekki lágmarkinu, og gæta því ekki þeirrar nákvæmni við framtalið sem skyldi, en það er allur þorri manna, sem fellur undir þennan flokk. Samkv. þessu verð ég að telja það, að með rannsókn megi fá skorið úr því, hver mælikvarðinn sé helzt viðunandi.

Ég mun nú fylgja þeim till., sem n. er sammála um, en greiða atkv. á móti hinum.