28.04.1932
Efri deild: 62. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2105 í B-deild Alþingistíðinda. (2401)

463. mál, fátækralög

Magnús Torfason:

Ég stend aðeins upp til þess að leiðrétta misskilning hjá hv. 4. landsk. Hann vildi herma það upp á mig, að ég hefði sagt, að nú beittu sveitarfélögin ekki brögðum eða krókaleiðum til þess að losna við þurfamenn. Ég sagði þetta alls ekki, heldur hitt, að ég vissi engin dæmi þess á mínum embættisferli, að menn hefðu verið sendir á heimili beint til afsláttar. Ég veit þvert á móti mörg dæmi þess, að ýms brögð hafa verið höfð í frammi hjá sveitarstjórnum til þess að losna við þurfamenn, en ég held fast við það, að það sé minna um slíkt nú síðan sveitfestistíminn varð 4 ár en meðan hann var 10 ár, og ég get endurtekið það, sem ég sagði áður, að ég veit ekki dæmi þess, að slík ólögleg krókabrögð hafi verið notuð í Árnessýslu síðan ég kom þangað. Ég tel það ekki, þó að stúlku með 5 bornum hafi verið komið á finnskan mann, enda var það allt löglegt, þau voru aðeins látin ganga í hjónaband.

Annars er mér ekki ókunnugt um, að það hafi átt sér stað í hreppi, sem liggur fyrir utan Árnessýslu, að þurfamanni hafi verið lagt í aðra sveit, án kostnaðar fyrir sveitarsjóðinn. Hreppur þessi hefir líka það til síns ágætis, að hann lætur börn aldrei fara á sveit. Þegar barnahópar koma á sveitina þá skipta góðir menn þeim á milli sin, og er þeim svo aðeins ívilnað í útsvari á eftir. þessi umhyggja, að láta börn ekki finna til þess, að þau væru þurfalingar, hefir ekki aðeins náð til innansveitarbarna, heldur og einnig til utansveitarbarna. Þetta myndi sennilega falla niður, ef þessi breyt. verður gerð, því að ég býst ekki við, að menn verði fáanlegir til þess að taka börn fyrir minna gjald en sanngjarnt væri, þar sem þeir að auki þyrftu að borga stórfé í aðrar sveitir fyrir góðmennsku sína, alúð og göfuglyndi.