03.05.1932
Efri deild: 66. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2110 í B-deild Alþingistíðinda. (2410)

463. mál, fátækralög

Frsm. (Jón Jónsson) [óyfirl.]:

Ég hefi leyft mér að flytja tvær brtt. við þetta frv., á þskj. 614. Hæstv. fjmrh. hefir nú gert ýtarlega grein fyrir þörfinni á fyrri brtt., við 4. gr., og sé ég því ekki ástæðu til að fjölyrða meira um hana. En síðari brtt. mín stafar af því, að komizt hafði lítilsháttar gat inn í 6. gr. frv. með till. frá hv. 2. þm. Árn., sem orsakaði þennan rugling og árekstur í ákvæðum frv., einkum þegar hin nýja 1. gr. frv. kom inn.

Af 6. gr. frv. má ráða það, að lögin eigi aðeins að gilda til 31. des. 1935, en samkv. 1. gr. frv. er sveitfestistíminn styttur úr 4 árum niður í 2 ár, og virðist það benda til, að ef ákvæði 6. gr. helzt óbreytt, þá eigi í árslok 1935 að lengja tímann aftur úr 2 upp í 4 ár. Til þess að koma í veg fyrir þetta, hefi ég flutt síðari brtt. á þskj. 614, sem gerir ráð fyrir, að login öðlist nú þegar gildi, en að ákvæði 1. gr. um breyt. á sveitfestistímanum komi eigi til framkvæmda fyrr en 1. jan. 1933. Og er svo látið óumtalað, hversu lengi það skuli gilda. Ég vona, að hv. þdm. sé það ljóst, að þessi brtt. er nauðsynleg, eftir að 1. gr. kom inn í frv. við 2. umr.

Loks flyt ég brtt. á þskj. 618, og skal ég geta þess, að hún er flutt samkv. ósk skrifstofustjórans í atvmrn., sem hefir unnið að undirbúningi þessa frv. Þessi brtt. ákveður, að þeir, sem hafa unnið sér sveitfesti samkv. lögunum frá 1924, þegar sveitfestistíminn var styttur úr 10 árum niður í 4 ár, haldi henni þangað til þeir hafa unnið sveitfesti annarsstaðar samkv. þessum lögum. Í öðru lagi er ákveðið í brtt., að þeir menn, sem dvalið hafa síðustu 3 árin áður en þessi lög komu í gildi sveitfestisdvöl í sömu sveit, þá vinna þeir sér þar framfærslusveit, þó að þeir dvelji þar aðeins 1 ár til viðbótar eftir að þessi lög ganga í gildi. Hér er um undantekningarakvæði að ræða, sem á að útiloka það, að þeir, sem dvalið hafa 3 ár í sömu sveit, þurfi að bæta þar við tveggja ára sveitfestisdvöl samkv. þessum lögum, því þá væri krafizt, að þeir hefðu 5 ára sveitfestistíma, en það er ekki tilgangurinn með þessu frv. að lengja þann tíma frá því, sem nú er, heldur þvert á móti. Þegar lögin koma til framkvæmda, verður sveitfestistíminn aðeins 2 ár. Ég býst við, að það sé rétt og eðlilegt að samþ. þessa brtt.

Ég hefi tilhneigingu til að andæfa brtt. hv. 1. þm. Reykv. á þskj. 410, en af því að ég hefi grun um, að við hana komi fram brtt. úr annari átt, þá get ég að mestu fallið frá því. Ég skil ekki þær hugleiðingar hv. þm. út af 1. gr. frv., að hún muni auka þurfamannaflutninga milli sveita. (JakM: Ég talaði ekkert um þá). Eitthvað var hv. þm. að tala um, að ákvæði 1. gr. mundu auka togstreitu milli sveita út af þurfamönnum og að ein sveit mundi reyna að koma sínum þurfamönnum á aðrar sveitir. En ég tel litlar líkur til, að það ákvæði valdi meiri ýfingum en áður hafa verið.