03.05.1932
Efri deild: 66. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2113 í B-deild Alþingistíðinda. (2413)

463. mál, fátækralög

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Ég hefi aðeins skipt mér af þessu frv. að því er snertir þann kostnað, er það kann að hafa í för með sér fyrir ríkissjóð. En sem þingmál heyrir þetta mál undir atvmrh., og er það því eigi mitt að svara spurningu hv. 4. landsk. En annars er það mitt álit, að ef á að fara að jafna fátækraútgjöldum milli hreppa innan hverrar sýslu og milli kaupstaðanna innbyrðis, verði það til þess, að fljótlega rísi sú krafa, að jafnað verði milli hreppa um allt land og þetta verði því aðeins millistig.

Auk þess sem þetta frv., ef samþ. verður, veldur ríkissjóði auknum kostnaði af fátækraframfærslunni vegna aðstoðar við þá hreppa, er harðast verða úti, leiðir einnig aukinn kostnað af ákvæðum 5. gr., um þátttöku ríkissjóðs í skuldagreiðslu eins sveitarfélags til annars, ef sveitarfélagið er ekki þess umkomið að greiða skuldina. Hve mikill þessi kostnaður verður, er ekki hægt að segja með vissu, en hér er um kostnað að ræða, sem ég treysti mér ekki til að leggjast á móti, því að skuldir sveitarfélaga á milli eru orðin hrein vandræði, sem leysa verður á einhvern hatt. Auk þess má gera ráð fyrir ýmsum öðrum kostnaði. Breytt fyrirkomulag veldur breyttum framkvæmdum, og þær eru jafnan fremur í kostnaðaráttina. Þegar litið er á þetta allt, verð ég að leggjast fast á móti því, að ríkissjóður greiði 2/3 af öllu því, sem fer fram yfir meðaltal. Ég skal ekki segja um, hvort ég geri tilraun til að hækka 15% fram yfir meðaltal, sem hér er komin brtt. fram um, upp í 20% í Nd., en nái sú breyt. ekki fram að ganga hér, verður frv. áreiðanlega sent til þessarar hv. d. aftur.

Mér þykir leiðinlegt að geta ekki gefið hv. 4. landsk. skýrari svör við fyrirspurn hans, en þessi hlið málsins heyrir ekki undir mitt ráðuneyti, eins og ég hefi tekið fram.