03.05.1932
Efri deild: 66. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2114 í B-deild Alþingistíðinda. (2415)

463. mál, fátækralög

Pétur Magnússon:

Það er misskilningur hjá hv. 1. landsk., ef hann heldur, að við séu m að berjast fyrir þá hreppa, sem fara aðeins lítið fram úr meðaltali, með því að vilja miða framlag ríkissjóðs við meðaltal. Það er auðvitað ekki gert vegna þeirra hreppa, heldur vegna hinna, sem lengst fara fram úr meðaltali, svo að þeir verði ekki eins hart úti. Ég skal taka til dæmis Gerðahrepp, þar sem fátækraframfærið kostar kr. 35,27 á íbúa. Er ekki nóg, að hreppurinn greiði 1/3 af því, sem fer fram úr meðallagi af þessari upphæð, þótt hann greiði ekki líka 20% fram yfir meðaltal áður?

Ég vil leggja áherzlu á það, að ég tel, að jöfnun á fátækraframfæri milli hreppa innan hverrar sýslu eigi hinn fyllsta rétt á sér. Það er óeðlilegt, að á einum hreppi hvíli ekkert fátækraframfæri, en á öðrum innan sömu sýslu séu sveitarþyngslin óbærileg. Venjulegast er hrein hending, hvar fátækraframfærið lendir. Sjaldnast hafa menn unnið hreppi sínum svo mikið eða lengi, að framfærið verði rökstutt með því. Úr því að verið er að reyna að koma réttlæti á löggjöfina með þessu frv., finnst mér óeðlilegt að vera að klípa af því aftur.

Það má segja, að framkvæmdaleysi hafi verið að bera ekki fram við þess umr. brtt. um jöfnun innan sýslna og bæjarfélaga, en ástæðan var sú, að ég gerði mér ekki von um, að sú brtt næði fram að ganga, þar sem allshn. var klofin um hana.