03.05.1932
Efri deild: 66. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2116 í B-deild Alþingistíðinda. (2417)

463. mál, fátækralög

Frsm. (Jón Jónsson) [óyfirl.]:

Hv. 4. landsk. benti á, að ég hefði upphaflega komið með þá till. í allshn. að jafna framfærslukostnaðinn innan hverrar sýslu. Ég játa það, að í byrjun þings stakk ég upp á þessu sem einni leið. Ég hafði þá ekki séð frv. atvmrn. og vissi ekki af því, en fann sárt til þess, að það var þörf einhverra breyt. Ég hafði hugsað mér þessa aðferð til að halda við hvötinni hjá hreppunum til að halda kostnaðinum niðri, því að eftir því sem hringurinn er minni, eftir því er meiri hvöt til að láta hann ekki flæða yfir öll takmörk. Svo kom þetta frv., og er þar bent á aðra leið til þess, nefnilega þá, að endurgjalda hreppsfélögunum aðeins 2/3 hluta af því, sem fátækraútgjöld þeirra fara fram úr meðaltali, en láta þau bera 1/3 hluta sjálf. Þá sá ég, að það var minni þörf á minni upphaflegu till. Auk þess fann ég, að erfitt var að setja samskonar hemil á kaupstaðina. Hitt, sem hv. 4. landsk. minntist á, að gera landið að tveimur ríkjum í þessu efni, sýslurnar annarsvegar og kaupstaðina hinsvegar, fellur mér illa í geð. Og þótt það yrði sett, hugsa ég, að það yrði einungis til bráðabirgða og skjótlega horfið frá því aftur.

Hv. 1. landsk. minntist á, að hæstv. fjmrh. hefði ekki í útreikningum. sínum gert grein fyrir, hvað fátækraútgjöld ríkissjóðs mundu aukast við það, að miðað yrði við 15% fram yfir meðalútgjöld á öllu landinu, í stað 20%, eins og var í upphaflega frv. Það hefir ekki unnizt tími til að reikna það út enn, en ég tel líklegt, að kostnaðurinn veiði tiltölulegur. Þetta verður athugað á næstunni og getur komið fram í Nd.

Ég vil geta þess, að ég mun greiða atkv. með brtt. hv. þm. Snæf. Það varð af hálfgerðu ógáti, að tíminn var styttur á síðari staðnum í 1. gr. Hugmyndin var einungis sú, að stytta tímann, sem menn gætu unnið sér sveit á.

Ég er þakklátur hv. 1. landsk. fyrir brtt. hans. Það var óaðgæzla, að n. bar hana ekki fram um leið og brtt. við 4. gr., sem áður var samþ.