03.05.1932
Efri deild: 66. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2117 í B-deild Alþingistíðinda. (2419)

463. mál, fátækralög

Guðrún Lárusdóttir:

Mig langar til að líta á mál þetta frá sjónarmiði þurfafólksins sjálfs. Ég hygg, að þetta frv. sé síður en svo réttarbót fyrir það. Tilvera þess er á engan hátt tryggð með frv., heldur þvert á móti verður hún ennþá óvissari en nokkru sinni áður, því búast má við, að sveitarstjórnirnar skerpi eftirlitið með innflutningi fólks. Í fámennum sveitum, þar sem hver þekkir annan, er það ofurhægt, en það leiðir af sér, eins og gefur að skilja, leiðindi, óþægindi og sársauka fyrir fátækt fólk, að finna, að það er alstaðar amazt við því. Það liggur við, að manni detti í hug fé, sem stuggað er úr haga og hvergi fær að vera óáreitt. Ég vil benda á þetta hér, því að málið snertir þurfalingana sjálfa ekki hvað minnst.

Áður hefi ég bent á það, að þessi fækkun sveitfestisáranna leiði af sér aukin sveitarþyngsli í kaupstöðunum, og sé ég ekki, að réttlátt sé að íþyngja vissum hlutum landsins með fyrirsjáanlega stórhækkandi útgjöldum.