14.05.1932
Neðri deild: 75. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 614 í B-deild Alþingistíðinda. (242)

2. mál, fjáraukalög 1930

Hannes Jónsson:

Ég skal fylgja þeirri reglu, sem tekin hefir verið upp af þeim hv. þdm., sem tekið hafa þátt í umr. um þetta mál, að meða ekki ýtarlega um einstök atriði fjáraukalaganna, en láta það bíða þangað til LR. fyrir 1930 kemur til umr. En ég vil þó drepa á nokkur atriði, sem fram hafa komið í umr., og þá fyrst og fremst á ráð, sem hv. 2. þm. Skagf. og hv. 4. þm. Reykv. hafa bent á, að þessi fjáraukalög væru óvenjulega há, eða fullar 5 millj. kr. Hv. frsm. meiri hl. fjhn. hefir nú bent á það með skýrum rökum, að ýmsir útgjaldaliðir í frv. væru dálítið óvenjulegs eðlis og sumir þannig, að stj. yrði ekki með réttu ásökuð fyrir þá. Ég hefi dregið saman nokkra stærstu útgjaldaliðina í fjáraukalfrv. og skal nú gera grein fyrir þeim. Er þá fyrst að geta þess, að til landhelgigæzlu var greitt umfram áætlun ca. 140 þús. kr., og skattanefndarkostnaður m. m. ca. 100 þús. kr. Til frekari skýringar má geta þess, að meginhluti þeirrar upphæðar hefir farið til greiðslu kostnaðar við fasteignamatið í landinu, sem fór fram á árunum 1929 og 1930, og fyrir þeim kostnaði var lítið áætlað í fjárl., en hinsvegar var öllum vitanlegt, að hann mundi fara langt fram úr áætlun. Eins og áður hefir verið nefnt, var greitt til byggingar landsspítalans um 870 þús. kr. Eins og kunnugt er, hafði Alþingi lagt mjög ríka áherzlu á það við stj., að lokið væri við landsspítalabygginguna fyrir alþingishátíðina 1930, þó að það kostaði slíka umframgreiðslu úr ríkissjóði. Til skrifstofubyggingarinnar Arnarhváls var greitt 126 þús. kr. umfram áætlaðar fjárveitingar, og þess vegna er sú upphæð tekin í fjáraukalög. Þegar stj. var heimilað að reisa þessa byggingu, var fjárveitingin miðuð við áætlunarupphæðina, en það hefir nú reynzt nálega algild regla, að byggingarkostnaður fari fram úr áætlun, hvort sem verkfræðingar eða húsameistarar hafa þar átt hlut að máli, en hinsvegar var ekki hægt að ætlast til þess, að stj. léti hætta við bygginguna án þess að hún yrði nothæf, og þess vegna var óhjákvæmilegt að fullgera húsið, þó að kostnaðurinn færi fram úr áætlun.

Til nýja Þingvallavegarins var varið fullum 360 þús. kr. Alþ. hafði ákveðið, að þessi vegur yrði lagður fyrir alþingishátíðina og heimilað stj. að taka lán til þess. Stjórnin hlaut því að framkvæma þá ákvörðun.

Um síldarbræðslustöð ríkisins á Siglufirði er svipað að segja og Arnarhvál; hún var reist samkv. lagafyrirmælum og vilja Alþingis, og fjárveitingu þá, sem þingið heimilaði til þess, bar nánast að skoða sem áætlun um það, hverju varið skyldi til þeirra framkvæmda, fremur en ákvörðun þingsins um það, að síldarverksmiðjan mætti ekki kosta meir:. Enda var ómögulegt að fastákveða um það fyrirfram, hvað verksmiðjan myndi kosta. Og vitanlega mátti stj. ekki játa hætta við þá byggingu hálfgerða eins og á stóð, enda þótt það hefði verið réttara, formsins vegna, að láta síðari hluta byggingarinnar bíða þangað til Alþingi hefði veitt nýja heimild til viðbótarfjárveitingar. En slík bið á því að fullgera bygginguna gat leitt til meira tjóns fyrir þjóðina heldur en forsvaranlegt hefði verið af stj. að leggja út í (MG: Hvað mikils tjóns?) Vafalaust nokkuð mikils, enda þótt það verði ekki ákveðið með tölum. Það hefir gengið svo um kostnaðaráætlanir viðvíkjandi verklegum framkvæmdum hér á landi, bæði þær, sem einstaklingar hafa látið gera og þjóðfélagið, að þær hafa reynzt mjög óábyggilegar, og minnist ég þess t. d., sem oft hefir komið fram á Alþingi, að mörgum hefir þótt ýmislegt ábótavant um áætlanir viðvíkjandi áveitufyrirtækjum í Árnessýslu, sem í upphafi voru þannig gerðar, að þær leiddu menn út í þær framkvæmdir, sem þeir hefðu annars ekki byrjað á.

Til bygginga héraðsskóla var á árinu 1930 varið hér um bil 238 þús kr., sem sett er hér í fjáraukalög, og hafði stj. verið heimilað að taka lán til þeirra framkvæmda.

Þessir sjö liðir, sem ég hefi hér gert grein fyrir, nema samtals rúmlega 21/3 millj. kr. Auk þess er áður búið að benda á, að til verklegra framkvæmda, sem taldar eru í 13. gr. fjárl., vega, brúa, síma, vita og lendingarbóta, var varið ca. 2 millj. kr. umfram áætlun samkv. fjárl. Þessir fáu liðir, sem ég hefi hér nefnt, mega flestir teljast ýmist óhjákvæmilegar eða nauðsynlegar framkvæmdir, sem auka framfarir og menningu þjóðarinnar, og fjárframlög til þeirra samkv. fjáraukal. nema samtals 41/4 millj. kr. Ennfremur má benda á, að við 19. gr. fjárl. er talin umframgreiðsla á aðeins einum lið, sem er nærri jafnhá og fjárveitingin sjálf, en það er endurgreiddur tollur, sem nemur um 100 þús. kr. þessi póstur á í raun og veru ekki að teljast til útgjalda í fjárlögum, heldur dragast frá tekjunum, og er því ranglega færður til hækkunar á gjaldahlið fjáraukalagafrv.

Þá var hv. 4. þm. Reykv. að minnast á fjáraukalögin, sem samþ. voru á sumarþinginu síðast, fyrir árið 1930. Þau voru um 900 þús. kr., og 2/3 af þeirri upphæð, um 600 þús. kr., voru eingöngu umframgreiðslur vegna alþingishátíðarinnar, og ætti hv. þm., sem var einn í hátíðarnefndinni, að vera vel kunnugt um meðferð þess fjár (MG: Það er ekki talið með í þessu frv.). Nei, en þegar hv. 2. hm. Skagf. og flokksbræður hans tala um, að fjáraukalögin fyrir 1930 séu um 6 millj. kr., þá blanda þeir þessari upphæð saman við. Annars vil ég benda hv. 4 þm. Reykv. á, að nú um skeið hefir mestur hluti af heim greiðslum, sem settar eru í fjáraukalög, aðeins verið þær fjárupphæðir, sem búið var að greiða umfram það, sem fjárlög heimila, og samkv. fjáraukal. á þingið að samþykkja það eftir á. — Í þessu sambandi má geta þess, að ýmsir af þeim útgjaldaliðum, sem urðu hærri á árinu 1930 en áður, standa í beinu eða óbeinu samhandi við alþingishátíðina. Má t. d. nefna það, að aðgerð og endurbætur á ýmsum húseignum ríkisins voru með langmesta móti á því ári, og einnig hygg ég, að hinn stórum aukni skrifstofukostnaður í stjórnarráðinu stafi að miklu leyti af hátíðahöldunum og ýmsum aukastörfum í sambandi við þau.

Þegar hv. 2. þm. Skagf. er að tala um þessa gegndarlausu fjársóun stj. árið 1930, verður hann jafnframt að athuga fjármeðferð Alþingishátíðarnefndarinnar það ár. En ég verð að segja, að hún tekur ekki stj. fram um gætni í fjárgreiðslum. Og þó var nefndin svo ánægð með störf sín, að þegar hún var búin að halda 100 fundi, þá þótti henni vel hlýða að minnast þess afmælis með því að halda sjálfri sér stóra veizlu á kostnað ríkissjóðs, er kostaði mörg hundruð kr. — Það væri vissulega ástæða til að glugga ofurlítið ofan í skjölin hjá þessari nefnd, sem hafði svo mikil fjárrað þetta ár og var að mestu leyti einráð um, hversu mikið fé var notað til hátíðarinnar, — ekki sízt þegar menn, sem voru í nefndinni, látast vera mjög vandlætingarfullir um það, hvernig farið hafi verið með fé þjóðarinnar þetta ár. Það fer a. m. k. ekki sérlega vel í munni hv. 4. þm. Reykv.

Það getur verið, að mér gefist tóm til að fara út í sitthvað fleira, sem snertir störf n., þegar LR. kemur til umr.