17.05.1932
Neðri deild: 76. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 618 í B-deild Alþingistíðinda. (244)

2. mál, fjáraukalög 1930

Frsm. minni hl. (Magnús Jónsson) [óyfirl.]:

Ég hefi eiginlega litlu að svara þeim andmælum, sem fram komu við fyrri hl. umr. Hv. frsm. meiri hl. sagði, að ég væri að reyna að auka ágreining um málið með því að tala um tvenn fjáraukalög fyrir þetta ár (1930) og leggja saman upphæðirnar. En ég var aðeins að skýra það, sem hv. þdm. er kunnugt, að umframgreiðslur ársins 1930 koma fram í tveimum fjáraukalögum; þær koma ekki allar fram í þessu frv., heldur er fast að því milljón komin áður, í fjáraukalögunum, sem samþ. voru í fyrra. Það er því ekki hægt að fá rétta mynd af umframgreiðslu ársins nema með því að taka þessi tvenn fjáraukalög til athugunar samtímis, og það var aðeins vegna þess, að ég minntist á fjáraukalögin, sem samþ. voru í fyrra. Sömu aðferð þarf að hafa, ef fá á út umframgreiðslu ársins næsta á undan til samanburðar, að leggja saman uppphæðir af tvennum fjárlögum.

Þeir yfirskoðunarmenn LR., sem sæti eiga hér í hv. d., hafa nú látið í ljós sína skoðun á því ágreiningsatriði okkar nm., hvort hér hafi í raun og veru verið beitt nýjum reglum í till. yfirskoðunarmannanna um aukafjárveitingar. Og mér virðist það koma ljóst fram í orðum þeirra, að engar nýjar reglur hafi verið upp teknar í þessu efni. Að svo miklu leyti sem um nýjar leiðir er að ræða í till. yfirskoðunarmannanna, er það vegna þess, að um nýstárleg útgjöld er að ræða, sem áður hafa ekki komið til. Það er því ekki hægt að fóðra hina miklu umframeyðslu, sem fram kemur í frv., með því, að beitt hafi verið öðrum reglum við samningu þess en áður hefir tíðkazt. En eins og ég gat um, hefir komið til orða, hvort ekki væri rétt að taka upp þá reglu að leita aukafjárveitingar fyrir öllu, sem greitt er umfram það, sem stendur í fjárl., og það er nokkuð til í því, að á þann hátt einan fengist fullt samræmi milli ára í þessu efni, því það er ekki hægt að neita því, að þegar yfirskoðunarmennirnir eiga að meta þetta í hvert skipti, fyrir hvaða umframgreiðslum er ástæða til að leita aukafjárveitingar, getur komið fyrir, að einhver munur verði, sérstaklega þegar skipt er um yfirskoðunarmenn. En nú er óhætt að segja, að engin stefnubreyt. hefir enn orðið í þessa átt. Þó ágreiningur geti orðið um einstakar upphæðir, hvort stj. hefði getað haft veruleg áhrif á þær og hvort leita á aukafjárveitingar fyrir þeim, þá getur aldrei munað neinu verulegu, þannig að þessi fjáraukalög hefðu t. d. ekki getað orðið neitt teljandi lægri en þau eru.

Ég þarf varla að fara út í þá ástæðu hv. frsm. meiri hl., að ástæða hafi verið til að gefa þjóðinni gjafir á þessu þúsund ára afmæli árið 1930. Ég held, að okkur hljóti að koma saman um, að ef gefa á slíkar gjafir, þá eigi að leita samþykkis Alþingis sjálfs um það, sérstaklega þar sem þessi hv. þm. er, að ég hygg, sá úr stjórnarflokknum, sem fastast vill halda í fjárveitingarvald Alþ., og hinn eini, sem greiddi atkv. á síðasta þingi með till. í þá átt að binda stj. fastar við ákvæði fjárl. um meðferð ríkisfjár heldur en verið hefir hingað til.

Það kom til orða að gera eitthvað merkilegt á afmælisárinu, að veita fé í stórum stíl til þess að halda upp á afmælið, en af þessu varð þó ekkert.

Það hefir oft verið dregið fram, að hér sé ekki um neitt nýtt að ræða og að u undanförnum árum hafi fé verið eytt umfram áætlun. Er það að vísu satt, og álít ég, að það hafi meira að segja verið gert um of. En að segja, að hér sé ekki nema um stigmun að ræða, er fjarstæða. Þarf ekki annað en að taka alkunn dæmi til þess að sanna það.

Hvernig stendur á því, að þegar rætt er um töp bankanna, þá er aðeins höggið niður á stóru liðunum? Því er ekki líka höggið niður á því, þegar maður fær 100 kr. víxil og kemst í vanskil? Eins og óhugsandi er, að hægt sé að stjórna svo stórum bankastofnunum, að ekkert tapist, eins er hægt að tapa í stórum stíl. Geta verið mismunandi sterkar ástæður fyrir því, að stj. veitir meira fé en áætlað er, en þetta getur komizt út í þær öfgar, að hér sé ekki aðeins um stigmun að ræða. Hefir þetta átt sér stað 1929 og svo 1930 svo gífurlega, að um eðlismun verður að ræða. Stj. hefir að miklu leyti tekið fjárveitingavaldið í sínar hendur. Verður að líta á það, hversu skynsamlegar ráðstafanir stjórnar eru. Vil ég benda á það, að árið 1926 var mikið fé veitt til verklegra framkvæmda umfram áætlun. Þá hafði verið haldið þannig á fé undanfarin ár, að fjárhagur ríkisins var góður. Var þá búið að borga lausaskuldir og ríkissjóður átti margar millj. í sjóði, og svo steðjaði að kreppa í landinu og útlit fyrir mikið atvinnuleysi. Er ekki hægt að hugsa sér ríkari ástæður en þessar til þess; að stjórn láti framkvæma meira en fjárl. heimila, þar sem ríkissjóður er vel efnum búinn, en lítið um atvinnu í landinu. Þetta var öfugt 1930. Þá voru fyrirsjáanlegir erfiðleikar framundan ríkissjóði, en mikið kapp í öllum framkvæmdum í landinu. Í fyrra tilfellinu tekur stj. af miklum efnum til þess að hjálpa atvinnuvegunum, sem eiga í erfiðleikum, en í hinu síðara tekur hún af litlum efnum, þegar mikið er um atvinnu alstaðar.

Ég ætla ekki að fara mikið út í það að svara hv. þm. V.-Húnv., t. d. viðvíkjandi alþingishátíðinni. Vildi hann sýna fram á það að alþingishátíðin væri eitt skýrasta dæmið upp á ógegndareyðslu 1930. Ef nokkur er sakaður fyrir þetta, þá ætti fyrst og fremst að saka alþingishátíðarnefndina. Það er skylt skeggið hökunni. Allir ráðh. voru í þessari n. Gæti hv. hm. þá talað við sína ráðherra. — En sannleikurinn er sá, að 1930 var hvergi sparað nema þarna. Þessi hátíð varð miklu ódýrari en nokkurn grunaði. Vil ég benda hv. þm. á það, að ef alþingishátíðin er borin saman við einstakar konungskomur hingað til lands, þá er ekki hægt að kalla hana dýra. Þarna var bæði um konungskomu að ræða og svo boðið fulltrúum frá mörgum löndum. Hefir aldrei hér á landi verið stofnað til annarar eins hátíðar. Hefi ég ekki hitt þann mann, sem lét sér detta það í hug fyrirfram, að hún myndi kosta minna en eina millj. En hver var svo útkoman? Þegar reikningarnir verða gerðir upp, mun það sýna sig, að kostnaðurinn nær ekki 1/2 millj. Þar er reyndar tekinn upp kostnaður, sem nemur 3/4 millj. kr., en mikið af því er eign, sem er örugg vara að seljast. Er hetta ótrúlega lítið. Hinsvegar er ómögulegt að nota alþingishátíðina hér til samanburðar. Ég er ekki að gagnrýna stj. fyrir það, að hún hafi eytt miklu, heldur fyrir það, sem hún hefir eytt umfram heimild þingsins. Þar sem ekki var veitt sérstök upphæð til hátíðarinnar, er allur slíkur samanburður gagnslaus. —

Annars skal ég gjarnan ræða um þessar ráðstafanir við hv. þm. V.-Húnv., þótt ég sé ekki málsvari þessarar n., en ég held þó, að heppilegra væri að ræða þær í sambandi við landsreikningana en fjáraukalögin.

Hv. frsm. meiri hl., að ég ætla, talaði um, að það væri vantraust á stj., ef fjáraukal. yrðu felld. Ekki er þetta þó orðað svo. Þó er stj. auðvitað sjálfráð um það, hvernig hún metur það, ef þingið fellir mál, sem hún ber fram. Sumstaðar erlendis taka stjórnir slíkt svo óstinnt upp, að þær segja af sér. Þótt fjáraukal. séu felld, lætur þingið ekkert annað í ljós en vanþóknun á þeirri fármeðferð, sem hér er um að ræða. En stj. verður að eiga ráð við sjálfa sig, hvort hún skoðar það sem vantraust og segir af sér.