27.02.1932
Neðri deild: 15. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2124 í B-deild Alþingistíðinda. (2440)

38. mál, skipulag kauptúna og sjávarþorpa

Flm. (Magnús Jónsson) [óyfirl.]:

Þetta frv. gengur út á að létta af nokkurri ósanngirni, sem átt hefir sér stað í skjóli laganna frá 1921 um skipulag kauptúna og sjávarþorpa, er snertir þær skaðabætur, sem þeim mönnum ber að fá greiddar, er verða fyrir barðinu á þessu skipulagi.

Þegar skipulagsuppdrættir eru gerðir af bæjum og sjávarþorpum, fylgir þeim sú kvöð á eignir einstakra manna, er gerir það að verkum, að þær geta orðið verðminni en áður. Á hinn bóginn er ekkert ákveðið tímatakmark sett um það, hve lengi uppdrátturinn liggur fyrir og hvort hann gengur í gildi eða ekki. Má það teljast óþolandi, að einstakir menn líði þannig skerðingu á eignum sínum án fullrar vissu um, að þeir hljóti nokkurntíma skaðabætur.

Fyrri brtt. í þessu frv. felur það í sér, að ef skipulagsuppdráttur hefir ekki hlotið staðfestingu stjórnarráðsins áður en 2 ár eru liðin frá framlagningu hans, þá skuli hann eigi lengur teljast bindandi.

Hin brtt. á að bæta úr því ranglæti, sem jafnvel nálgast það að vera stjórnarskrárbrot, að lögin gera það mögulegt, að menn verði að bíða fleiri áratugi, jafnvel svo mannsöldrum skiptir, eftir þeim skaðabótum, sem þeim ber.

Ég flutti á þinginu í fyrra frv. um þetta efni, þar sem lagt var til, að þetta ákvæði í lögunum væri fellt niður. En þá gerði allshn. þá breyt. á því, að sá, sem krefst skaðabóta, verði að færa fram ástæður eða gera það sennilegt, að skipulagsbreyt. sá, er bætur skal gjalda fyrir, valdi honum tjóns eða óhagræðis. Þessa brtt. allshn. hefi ég fallizt á og tekið hana upp í frv. mitt.

Þetta frv. hefir legið fyrir tveimur síðustu þingum og ekki mætt mótspyrnu. Þar sem allshn. þessarar deildar hefir áður mælt samhljóða með frv., sé ég ekki ástæðu til að gera till. um, að því verði vísað til n., en þó set ég mig ekki á móti því, þar sem ég sé, að brtt. við frv. er fram komin. Vona ég, að þetta litla frv. mitt mæti góðum viðtökum hjá hv. þd.