23.03.1932
Neðri deild: 36. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2126 í B-deild Alþingistíðinda. (2449)

38. mál, skipulag kauptúna og sjávarþorpa

Pétur Ottesen:

Ég hefi flutt brtt. við frv. þetta, sem fer fram á það, að fella niður 2. gr. frv. En með þessari 2. gr. er gert ráð fyrir þeirri breyt. á 1. frá 1921 um skipulag kauptúna og sjávarþorpa, að þeir menn, sem verði fyrir ákvæðum frv., þannig, að leggja þurfi götur um lönd þeirra og gera aðrar þær ráðstafanir, sem af skipulaginu leiðir, geti þegar í stað heimtað skaðabætur fyrir það tjón, sem af framkvæmd skipulagsins hlýzt; og það þótt e. t. v. liggi langt undan, að þetta skipulag komi til framkvæmda.

Eitt þeirra kauptúna, sem búið er að samþ. skipulagsuppdrátt, er Akranes. Öll gatnagerð og allar byggingar eru miðaðar við ákvæði skipulagsins. En þetta raskar vitanlega mjög núv. skipulagi. Og nú segja þeir mér, hreppsn.mennirnir í Ytri-Akraneshreppi, að það verði hreppsfél. óbærilegt, ef greiða þurfi nú þegar þessar skaðabætur, og telja nauðsynlegt, að ákvæði núgildandi laga í þessu efni standi óbreytt. Verður með öllu ófært fyrir hreppsfél., ef það þarf e. t. v. í einu að svara út öllum þeim fjárkröfum, sem til þess kynnu að verða gerðar, þar sem lóðaverð er töluvert hátt. Myndi sú upphæð, sem Akranes yrði að láta af hendi rakna nú þegar, nema um 270 þús. kr., eftir því sem mér er skýrt frá, yrði þetta fyrirkomulag tekið upp. Ég hefi því verið beðinn að flytja brtt. um að fella 2. gr. niður. Heldur hreppsnefndin á Akranesi því fram, að með hliðsjón af þessum ákvæðum laganna hafi það verið, að samþykki fékkst fyrir því þar að ganga undir ákvæði skipulagsins. Ég vil því mjög mælast til þess, að þessi brtt. verði samþ.

Mér er sagt, að komið hafi fram samskonar mótmæli frá öðrum stöðum, þar sem búið er að samþ. skipulagsuppdrátt og farið að framkvæma hann. Er það í fyllsta máta eðlilegt, því að þetta kemur nokkuð jafnilla niður á alla, því að vitanlega hefir þetta nýja fyrirkomulag rekizt mjög á hið gamla, sem fyrir var. Mér er t. d. sagt, að mótmæli hafi komið frá Vestmannaeyjum, og í gærkvöldi var samþ. í Hafnarfirði áskorun um að breyta þessu ákvæði eða fella það niður. Sama kvað og hafa komið fram á Akureyri. Ég geri ráð fyrir því, að mótmæli gegn þessu komi fram alstaðar þar, sem búið er að samþ. hið nýja skipulag.