30.03.1932
Neðri deild: 38. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2132 í B-deild Alþingistíðinda. (2457)

38. mál, skipulag kauptúna og sjávarþorpa

Pétur Ottesen:

Hv. flm. þessa frv. var ekki viðstaddur á dögunum, þegar ég gerði grein fyrir brtt. minni um að fella niður úr frv. ákvæðið um, að sveitar- og bæjarfélög væru skyld til þegar í stað að svara út fyrir eða greiða það tjón og óhagræði, sem leitt gæti fyrir einstaka menn af hinu nýja skipulagi, og að þau ættu að greiða þetta út, þó að ekki væri farið að framkvæma breytingarnar.

Ég benti þá á, eftir þeim upplýsingum, sem ég hafði fengið, að eins og ástatt væri á Akranesi, myndi það ekki nema minna en 270 þús. kr., sem kauptúnið yrði að borga til þeirra manna, sem skipulagsuppdrátturinn gerir ráð fyrir, að götur og annað samkv. skipulagsuppdrættinum verði lagðar yfir lóðir og eignir þeirra. Jafnframt fylgdu þessu þau skilyrði ofan að, að ef svo hefði verið ákveðið í skipulagslögunum, þegar þeir gengu undir þau, að þetta skyldi greiða strax, hefðu þeir aldrei gert það; þeir hefðu þá séð sitt óvænna, því þeir hefðu ekki álitið sig geta greitt út í einu lagi slíka upphæð sem þetta. Þegar þeir gengu undir lögin, byggðu þeir á ákvæði 28. gr. l., þar sem gert er ráð fyrir, að skaðabæturnar verði ekki greiddar fyrr en jafnóðum og breyt. koma til framkvæmda.

Þetta er meginástæðan fyrir því, að ég tók að mér að flytja þessa brtt. mína. Og ég veit, að mótmæli þau, sem komið hafa til þingsins frá hverjum einum og einasta kaupstað og kauptúni á landinu, sem samþ. hafa skipulagsuppdrátt, eru byggð á sömu ástæðum.

Hv. flm. frv. talaði mikið um það, að hér væri gengið lengra í því en vera þótti að skerða eignarrétt manna. Ég get mjög vel tekið undir þetta með honum, og skal verða honum samtaka um það að verja eignarréttinn, þannig að ekki sé gengið lengra í því en brýnasta nauðsyn krefur að seilast inn á eignarréttarsvið einstakra manna. En með tilliti til þess og út af því, hvernig þessum skipulagslögum var komið á, með því að samþ. fyrir bæina einmitt þá vernd, sem felst í 28. gr. l., að þeir þurfi ekki að svara út skaðabótunum fyrr en jafnóðum — fyrir þetta, hvernig lögunum var komið á, og fyrir það eitt, hefi ég tekið að mér flutning þessarar brtt. Hitt, að fara nú að afnema þetta ákvæði, finnst mér að koma aftan að þeim, sem í góðri trú hafa gengizt undir ákvæði laganna. En þetta horfir öðruvísi við þeim, sem ennþá hafa ekki gengið undir lögin, því að þeir gerðu það þá ekki, og þó það ætti að þröngva þeim til þess, þá mundi rísa svo sterk alda gegn því, að hún mundi knýja Alþingi til að breyta l. aftur. Því það yrði kaupstöðum og kauptúnum algerlega ofviða að inna af hendi slíka greiðslu í einu svipan.

Hv. 4. þm. Reykv. var að segja það, að með ákvæðum skipulagslaganna væri gengið nærri eignarrétti manna. Þetta er alveg rétt. En það hefði verði nær að vera á verði um þetta atriði, þegar lögin voru sett 1921. Ég hefi því síðan aðan verið að athuga afstöðu þingmanna til þessa máls 1921. Og þá sé ég, að skoðanirnar eru mjög skiptar um ráð, hvort ganga eigi undir þetta skipulag samkv. þeim till., sem lágu þá fyrir. Og ég sé, að hv. flm. þessa frv. hefir þá verið allra manna ákafastur í því að knýja málið fram. Hann ræðst þá á þær brtt., sem fluttar eru til að draga úr þessum framkvæmdum, og kallar þær vitleysu, sem haldið sé fram til að sporna við, að skipulagið komi til framkvæmda í sem fyllstum mæli. Það kemur ekkert fram hjá honum um neina agnúa á þessum lögum þá, ekki um neina harðleikni gegn einstökum borgurum. Ég hefi aðeins viljað benda á þetta, af því, að hv. flm. er að færa þetta mál eða afgreiðslu þess nú inn á það svið, hver sé afstaða manna til þess, hvort vernda beri eignarréttinn eða ekki.

Ég hefi þá gert grein fyrir því frá mínu sjónarmiði af hvaða ástæðu ég flyt þessa brtt., og vil jafnframt benda hv. flm. á afstöðu hans 1921, þegar þessum ósköpum var dembt á, sem hann nú kallar svo.

Ég get til viðbótar þessu bent á þau mótmæli, sem alstaðar hafa komið fram gegn 2. gr. frv. frá þeim, sem hafa gengið undir lögin. Og það hefir, bæði af hv. þm. Ak. og hv. þm. Vestm. verið bent á mótmæli úr þeirra kjördæmum. Ég hefi og átt tal við hv. þm. Ísaf., og það er sama sagan þar. Einnig hafa Alþ. borizt mótmæli frá Hafnarfirði og Norðfirði og þaðan er sömu söguna að segja, og sé ég ekki ástæðu til að rekja alla þá staði, sem hafa sent mótmæli. En þau eru eðlileg afleiðing af því, að menn hafa af frjálsum vilja undirgengizt lögin með tilliti til þeirrar verndar, sem felst í 28. gr. l.

Já, ég skal ekki fara fleiri orðum um þetta, en vænti þess gagnvart þeim kaupstöðum og kauptúnum, sem hafa gengið undir lögin, að þeim sé sýnd sú sanngirni og sú réttlætisviðurkenning, að þessi ákvæði séu ekki sett inn í lögin, heldur verði áfram látið haldast ákvæði 28. gr. 1. um þetta.