17.05.1932
Neðri deild: 76. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 626 í B-deild Alþingistíðinda. (247)

2. mál, fjáraukalög 1930

Frsm. meiri hl. (Halldór Stefánsson):

ég efast um, að það sé ástæða til að vera að ræða ýtarlega það höfuðágreiningsatriði, sem komið hefir fram í umr. Hvorki býst ég við, að við andstæðingarnir sannfærum hvorir aðra, né heldur að málið upplýsist til muna betur hér eftir en orðið er.

Hv. stj.andstæðingar hafa ekki viljað fallast á, að rétt væri það, sem ég nefndi í upphafi umr., að ýmsar sérstakar ástæður væru til, að þessi fjáraukal. væru hærri en venja er til, og um þetta hefir verið karpað. Ég held því, að ég verði að víkja að því aftur, vegna þeirra andmæla, sem komið hafa fram.

Ég man nú ekki, hvort ég hafði þau ummæli í upphafi umr., að hér hefði verið tekin upp ný regla, en ég skal ekki fortaka, að ég hafi haft þau orð, en ég man, að ég talaði um, að það hafi verið ýtarlegar að því gengið að taka umframgreiðslur upp í fjáraukal. nú en áður. Og þetta er rétt; það er meira tekið í þessi fjáraukal. en venja hefir verið, þ. á. m. umframgreiðslur, sem orðið hafa á framkvæmdum, sem ákveðnar voru í sérstökum l. og þál., en ekki teknar upp í fjárl.frv. Og vísaði ég þar til 35. aths. við LR. 1929 um að svo beri að gera. Ég held líka, að fjáraukalagafrv. sjálft beri það með sér, að þetta sé rétt með farið hjá mér, því 12. gr. frv. fer fram á eftirásamþykkt á 743 þús. kr. Þær framkvæmdir, sem hér um ræðir, eru gerðar samkv. sérstökum lögum, og hefir ekki verið tekið upp í fjárl. neitt af heim. 11. gr. fjáraukalagafrv. leitar umframfjárveitingar fyrir gjöldum í síðustu gr. fjárl., en til þeirra framkvæmda, sem eru í 12. gr. á því, hefir aldrei neitt verið tekið upp í fjárl.

Þá er það atriði, sem kallað hefir verið afmælisgjöfin og nokkuð hefir verið rætt, ekki eingöngu við umr., heldur einnig í blöðunum. Ég hafði látið falla orð um það, að stj. mundi hafa haft í huga að láta þjóðina fá einskonar minningargjöf um afmælið með því að láta fara fram ýmsar umbætur, almenningi sjálfum til hagsbóta, meir en venja hefir verið — að hún hefði gert þetta sérstaklega vegna þessa afmælisárs. Það, sem ég nefndi og vil nefna þessu nafni, eru almennar umbætur á landshögum, svo sem vegagerðir, brúagerðir, vitabyggingar, símalagningar, umbætur á samgöngumálum yfir höfuð á sjó og landi og ennfremur ræktunarmálum og byggingum. Og þrátt fyrir það, að ég viðurkenni, að greitt hefir verið mjög riflega til þessara hluta 1930, þar sem umframgreiðslurnar á þessum liðum eru rétt um 1 millj. kr. eða nálega 1/5 af öllum þessum fjáraukal., þá átel ég það ekki. Ég hefi jafnan við umr. um fjáraukal. hér heyrt það haft í orði, að því fé væri vel varið, sem varið væri til umbóta samkv. þessum liðum, og ég hefi enga tilhneigingu til að átelja það, þó miklar umframgreiðslur hafi orðið á þessum liðum. Ég minnist þess, að á árinu 1925 var ríflega notað fé til þessara hluta umfram heimildir fjárlaga, en það var tekið fram af þáv. stjórnarandstæðingum, að þeir vildu ekki átelja þáv. stj. fyrir það. En það er kannske nokkurð eðlilegt, þó núv. stjórnarandstæðingar vilji gera þetta að ásökunarefni. Eins og menn vita, þá er Íhaldsflokknum ekki eins annt um umbætur á almenningshögum eins og þeim flokkum, sem framgjarnir eru, og því ekki nema eðlilegt, að þeir öðrum fremur sjái ástæðu til að telja slíkt eftir og meti lítils, þó þjóðin fái að njóta þeirra umbóta. Þetta eru umbætur, sem ekki verða af þjóðinni teknar, og ætla ég, að þeirra muni minnast lengi þeir, sem nótið hafa.

Þá er þriðja atriðið, sem ég hafði nefnt, að á þessu ári hefðu verið hafðar með höndum sérstaklega stórar framkvæmdir, sem ekki lægju fyrir jafnan, og umframgreiðslur vegna þeirra væru því alveg óvenjulegir liðir, og má þar til nefna landsspítalann og síldarbræðsluverksmiðjuna, sem er það stærsta af þessum umframgreiðslum. Það má náttúrlega gera það að álitamáli og ásökunarefni, að þessum framkvæmdum var hraðað, en ekki t. d. landsspítalinn látinn bíða. En ég sé ekki, að það sé ásökunarefni, að þetta var framkvæmt, fyrst möguleikar voru til að gera það, því ég hygg, að fjöldi manna hafi þráð, að landsspítalinn kæmist sem fyrst upp og til nota. Og ég fyrir mitt leyti vil snúa þessum ásökunum upp í þakklæti til stj. fyrir að hún lét það verk ganga örar fram en ætlað hafði verið af þinginu, fyrst möguleikar voru til þess. Um síldarbræðsluverksmiðjuna er líkt að segja, þó ekki væri veitt til hennar jafnmikið fé og notað var, þá hlaut að þurfa að leggja féð fram, þó seinna væri, svo það er þá eina ásökunin, að verkið var ekki látið bíða. Nú er leitað samþykkis fyrir öllu þessu fé eftir á, eins og venja er til, og mér finnst stjórnarandstæðingar ekki hafa réttmæta ástæðu til að neita um samþykki, þó að framkvæmdin hafi ekki verið látin dragast, úr því hægt var að framkvæma hana. Það hlaut að reka að því fyrr eða síðar, að síldarbræðsluverksmiðjan yrði fullgerð og að til hennar þyrfti þá allt þetta fé.

Það mun hafa verið hv. frsm. minni hl., sem fyrstur dró inn í umr. „fjáraukal. miklu“, sem stundum hafa verið kölluð svo, eða fjáraukal. 1921, a. m. k. var það ekki ég, sem nefndi þau fyrst í þessum umr. (MJ: það var ég). Mér virtist hv. 2. þm. Skagf. vera óánægður með, að ég tók þau til samanburðar við þetta frv., og gat hann þess, að ég hefði ekki tekið fram, að þau hefðu verið fyrir 2 ár. Auðvitað tók ég þetta ekki fram sérstaklega, en hafði, eins og venja er, kennt fjáraukalögin við það ár, sem þau lágu fyrir. Ég minnist ekki, að ég hafi sagt neitt hér á þingi í þá átt, eða að það geti verið haft eftir mér annarsstaðar frá, að ég hafi haft að sérstöku ásökunarefni meðferð fjármálanna á því tímabili; þó að aðrir hafi gert það, kemur það ekki mér við, og ég hefi því ekkert að afsaka fyrir hv. 2. þm. Skagf. í því efni, hvorki, sem ég hefi mælt hér eða annarsstaðar. Hann gat þess, að þau hefðu ekki verið nema nál. 41/2 millj. kr., og mun það rétt vera. En af því að hv. frsm. minni hl. lagði fjáraukal. frá í sumar saman við þetta fjáraukalagafrv., vil ég geta þess um fjáraukal. 1921, að það væru líka tvenn fjáraukal. þá. Fyrri fjáraukal. voru rétt um 11/4 millj. kr., og þá verður að leggja þau við hin síðari, ef á að fá réttan samanburð.

Ég hafði fyrr við umr. talað um, að þó þessi fjáraukal. væru þau hæstu, sem við höfum haft, þá væri þó hér eftir ekki að ræða um nema stigmun, en engan gagngerðan (absolut) mun. Það er sá stigmunur, að fjáraukal. eru hærri nú en í önnur skipti, en þó að þau séu í hæsta lagi, geta stjórnarandstæðingar látið sér nægja að átelja það, annaðhvort við umr. eins og áður hefir verið gert — og engin ástæða til að kvarta yfir —, eða með þál. En það er ekki réttmætt, að ásökunin komi fram í því formi að fella fjáraukal. að þessu sinni frekar en oft áður, þó að þau séu í hæsta lagi.

Ég hefi áður og vil nú aftur minna á þær sérstöku ástæður, sem eru fyrir því, að fjáraukal. eru hærri nú en venjulega. Ég skal í þessu sambandi leyfa mér að rifja upp umframgreiðslur frá árinu 1925. Á því ári voru tekjurnar mjög miklar, svo að þær urðu nálega helmingi hærri en áætlað hafði verið til útgjalda. Á því ári var, eins og margrætt hefir verið um, nokkrum hluta af tekjunum varið til að greiða skuldir og auka sjóð. En þegar frá er talið það, sem varið var til greiðslu lausaskulda og til þess að auka sjóð, þá nema umframgreiðslurnar á því ári, árinu 1925, um 31/4 millj. kr. En upp í fjáraukal. fyrir það ár er ekki tekin hærri upphæð en 1,7 millj. kr., sem sýnir, að umframgreiðslur, sem ekki er leitað aukafjárveitingar á, hafa verið um 1,6 millj. kr. Ég bendi á þetta af því, að það var á dögum þáv. íhaldsstj., sem mest færir sér til ágætis gætni í fjármálum, og ég skal ekki draga úr því, að færa megi henni það til ágætis öðru fremur. En ekki er allt ágæti í því fólgið og þetta sýnir, að þeir geta líka tekið upp á því að brúka fé umfram heimildir.

Annars vil ég, út af samanburði um þetta, minnast á það, sem hv. frsm. minni hl. líka drap á, að það gæti vel komið til álita að taka upp þá reglu að leita aukafjárveitinga fyrir öllum greiðslum, sem eru umfram það, sem ákveðið er í fjárl.áætlun, annaðhvort í ótilteknum upphæðum í fjárlögunum sjálfum eða með öðrum heimildum, sérstökum lögum eða þál. Það hefir a. m. k. þann kost, að hægt er að fá hreinan samanburð á umframeyðslunni frá ári til árs, en hinsvegar er þessi regla ófullnægjandi að því leyti, að hún gefur ekki til kynna, hve mikið fer til lögbundinna útgjalda.

Það mun hafa verið meginhugsunin, að fjáraukalög séu þannig byggð, að með þeim sé leitað aukafjárveitinga á því sem eytt hefir verið umfram það, sem telja má að sé lögbundið, hvort sem er í fjárlögum eða öðrum lögum. Ég skal ekki hafa á móti þessari reglu, en henni þarf þá að vera nákvæmlega fylgt — og alltaf á sama hátt —, ef hægt á að vera að gera réttan samanburð á milli ára. Það verður þá verkefni yfirskoðunarmanna á hverjum tíma að meta það, og meta rétt jafnan, hvað það er, sem ekki var heimild fyrir í fjárl. eða lögbundið í öðrum lögum, og taka það eitt upp í till. sínar um aukafjárveitingar.

Ég hefi nú talað þrisvar sinnum eins og þingsköp heimila og geri ekki ráð fyrir að taka oftar til máls. Ég þykist hafa hagað orðum mínum þannig, að ég hafi ekki eggjað andstæðingana til frekari mótmæla. Ég hygg, að þeir geti sætt sig við þær umr., sem þegar eru orðnar, því að það hafa verið dregnar fram þær ástæður, sem mæla bæði með og móti því að samþykkja þetta frv., auk þess sem dregin hafa verið inn í umr. ýms atriði, sem ekki koma fjáraukal. við. Ég ætla ekki að átelja hv. frsm. minni hl. fyrir það, þó hann vilji fella frv-., en mér finnst dálítið öðru máli að gegna um hv. 2. þm. Skagf. Það virðist vera síður réttlætanlegt af honum, ef hann greiðir atkv. gegn frv., þar sem hann sem yfirskoðunarmaður landsreikningsins hefir lagt til, að allar þær upphæðir, sem standa í fjáraukal., væru settar í þau, og stj. í því efni hefir að öllu farið eftir hans till. Mér finnst þetta binda hann nokkuð til fylgis við frv., enda er ég ekki viss um, að hann ætli að greiða atkv. gegn frv. Jafnvel þó hann á síðasta þingi greiddi atkv. á móti fjáraukal., eftir að hafa lagt til í nál., að frv. yrði samþ.