01.04.1932
Neðri deild: 40. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2150 í B-deild Alþingistíðinda. (2476)

256. mál, gjaldfrestur bænda og bátaútvegsmanna

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég fagna því, að frv. Þetta skuli vera fram komið, og þakka hv. landbn. fyrir, hve mikla og góða vinnu hún hefir lagt í það og að hún skuli hafa orðið á einu máli um að leggja til, að það verði samþ. Lít ég á það sem vott þess, að málið geti fengið afgreiðslu á þessu þingi, og má þá hiklaust telja það eitthvert merkasta málið, sem þingið afgreiðir að þessu sinni.

Mikill aðdragandi og vinna liggur á bak við þetta mál. Það var ljóst í haust, er hið mikla verðfall varð á peningum og öllum framleiðsluvörum, að framleiðendum myndi veitast erfitt að standa straum af greiðslum sínum, og því leit stjórn Búnaðarfél. Íslands svo á, að af hálfu landbúnaðarins a. m. k. yrðu að koma fram ákveðnar raddir um það, hvað gera skyldi. Var því horfið að því raði að kalla saman aukabúnaðarþing í vetur. Hv. þm. Mýr. var sendur, í samráði við búnaðarstjórnina, til nágrannalandanna, til að kynna sér, hvað þau hefðu gert í þessu efni, en þar er kreppa ekki síður en hér, sem kunnugt er. Hann viðaði að sér miklum og góðum gögnum, og voru þau gögn síðan lögð fyrir búnaðarþing. Lagði hv. þm. Mýr. Þar fram aðalvinnuna. Frv. búnaðarþings um gjaldfrest bænda var síðan lagt fyrir landbn. Hún lagði til, að gjaldfresturinn næði einnig til smærri bátaútvegsmanna og gerði ýmsar fleiri breyt., sem eru til bóta og ættu að tryggja frv. góða og greiða afgreiðslu.

Hér er auðvitað um frumsmið að ræða, og þótt frv. hafi verið sniðið með hliðsjón af ráðstöfunum annara landa, má þó líta á það sem bráðabirgðalausn og gera ráð fyrir, að síðar megi færa það í betra horf. En hér er um mjög góða undirstöðu að ræða til hjálpar framleiðendum, og vil ég því gefa frv. mín beztu meðmæli. Um einstök atriði tala ég ekki að sinni. Þó býst ég við, að kveða þurfi nánar og skýrar á um heimild þá, sem ræðir um síðast í 16. gr., annaðhvort í framsögu eða frv. sjálfu.