01.04.1932
Neðri deild: 40. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2162 í B-deild Alþingistíðinda. (2481)

256. mál, gjaldfrestur bænda og bátaútvegsmanna

Héðinn Valdimarsson:

Hv. frsm. n. hefir að nokkru svarað því, sem ég sagði um þetta mál hér í minni fyrri ræðu. Verð ég að játa það, að hann hefir ekki sannfært mig um það, að nokkurt gagn muni verða af frv. í framkvæmdinni, eins og ég hafði haldið fram, að ekki mundi verða. Hinsvegar kom hann inn á það, að ég hafði sagt, að þetta gæti leitt til þess, að ríkið yrði að taka ábyrgð á öllum lánsstofnunum landsins, og fannst honum sem ég ætti ekki að hafa neitt á móti þessu samkv. minni skoðun á þessum málum. Vil ég algerlega mótmæla þessu. Ég óska ekki eftir því, að ríkisábyrgð verði tekin á fyrirtækjum einstaklinga, án þess þá að ríkið fái mjög mikinn íhlutunarrétt um rekstur þeirra, en ég skal geta þess í þessu sambandi, þó að það liggi ekki fyrir, að ég gæti t. d. hugsað mér, að S.Í. S. yrði veitt slík ríkisábyrgð, ef á þyrfti að halda, en ég ætla, að flokkur hv. frsm. mundi ekki óska eftir slíku undir neinum kringumstæðum. — Annars kemur mér það undarlega fyrir, af því að hv. frsm. hefir jafnan borið verzlunarstéttina svo sérstaklega fyrir brjósti, að álits verzlunarráðsins skuli ekki hafa verið leitað um þetta mál.

Hv. frsm. gat þess, að þetta mál hefði verið rætt í nágrannalöndum okkar, og taldi hann, að það mundi ekki fremur spilla lánstraustinu hér hjá okkur en hjá þeim. Ég hafði nú reyndar ekki haldið því fram, að það mundi spilla fyrir lánstraustinu, þó að málið væri rætt, en hinu hélt ég fram, að þegar farið yrði að framkvæma þessi lög, eftir því sem þau verða framkvæmd, mundi það hafa áhrif til hins verra bæði um erlend og innlend lán innan þess ramma.

Samkv. frv. er hér í raun og veru aðeins um að ræða að hjálpa þeim, sem eiga fyrir skuldum, og virðist reyndar lítil ástæða vera til þess, því að í flestum tilfellum er engin hætta á því, að að þeim verði gengið, en hinsvegar er mikil nauðsyn á að rétta þeim hjálparhönd, sem ekki eiga fyrir skuldum, og slíkra er nú mjög margt bæði til sveita og sjávar, og enda vitanlegt, að margar þessar skuldir, sem sumpart eru peningaskuldir, en sumpart verzlunarskuldir, verða aldrei greiddar. Alþingi hlýtur að horfast í augu við þetta og sjá það, að réttast er að gera hreint borð í þessum efnum og skera niður allar þessar „dauðu skuldir, sem hamla atvinnuvegunum og þjaka menn úti um allt landið, og ekki aðeins að skera niður atvinnurekstrarskuldir, heldur og líka verzlunarskuldir verkamanna, því að árferðið er svo og útlitið, sem framundan er, að vitanlegt er, að þessar skuldir fast aldrei inn. Og því þá ekki að líta framan í sannleikann og gera hér hreint borð? Ef inn á þá braut væri farið, gæti ég hugsað mér, að ríkið legði fram styrk til að hjálpa mönnum að borga það, sem eftir verður, svo að skuldheimtumennirnir geti látið þá sleppa. — ég álít, að með því að fara þessa leið mundum við ekki spilla fyrir lánstrausti landsins, heldur hvert á móti bæta það. Bankarnir hefðu og átt að vera búnir að gera þetta fyrir löngu, strax árið 1921, en síðan hefir ástandið alltaf farið versnandi og breiðzt út yfir stærri og stærri svæði, unz allt keyrir um hvert bak nú í kreppunni. Að fara að setja lög til þess sérstaklega að hjálpa þeim, sem efnaðir eru og bezt standa að vígi í þessum efnum, en skilja hina alla eftir úti á gaddinum, er hvorki rétt né heldur nægilega aðgert, og enda tvísýnt, hvort nokkurt gagn megi af þessum lögum hljótast í framkvæmdinni, eins og ég áður sagði.

Þá vil ég benda á tvo atriði, sem mér einkum er illa við í þessu frv., og er ég um það sammála hæstv. fjmrh., þótt af öðrum ástæðum sé.

Samkv. 16. gr. frv. er fjmrh. heimilað að hlaupa undir bagga með öllum þeim lánsstofnunum, sem lenda í greiðsluvandræðum vegna þessara laga. Ef þetta verður samþ. svo, hefir fjmrh. ótakmarkaða heimild til að gera allt það, sem hann vill í þessum efnum, hvort heldur eru peningaútborganir eða ríkisábyrgðir, og er ekkert líklegra en þetta geti leitt til þess, að ríkisábyrgð verði tekin á öllum lánsstofnunum landsins. Er óhæft að hafa þetta ekki bundið neinum takmörkunum, og ég ber enda ekki það traust til núv. fjmrh., að ég vilji fá honum í hendur svo ótakmarkaðar heimildir, og eftir ræðu hans að dæma, virðist hann ekki heldur kæra sig um það sjálfur.

Þá kveður frv. svo á í 9. gr., að úrskurði skilanefndar, sem skipuð er samkv. lögunum, verði ekki afrýjað, ef einróma sé, en ella hefir fjmrh. bindandi úrskurðarvald í þessum efnum. Sýnist mér sem völd stj. séu nú þegar ærið nóg. A. m. k. hefir hún sýnt það, að hún þykist hafa völd til að reka þingið þeim frá störfum, þegar hún vill svo, og virðist því ekki ástæða fyrir þingið að fara að auka völd stj. meira en nauðsyn krefur, því að ekkert er líklegra en að stj. mundi misnota slíkt vald á hinn ægilegasta hátt.