01.04.1932
Neðri deild: 40. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2191 í B-deild Alþingistíðinda. (2489)

256. mál, gjaldfrestur bænda og bátaútvegsmanna

Bjarni Ásgeirsson:

Þær umr., sem orðið hafa um frv. það, sem hér liggur fyrir, hafa orðið á margan hatt merkilegar, og ég held þær alvarlegustu, sem fram hafa farið á Alþingi, að öllum öðrum ólöstuðum. Það er ekki að undra, því að hér liggur fyrir mesta alvörumál þings og þjóðar á yfirstandandi tímum: ríkjandi ástand í heiminum og hagkvæmustu leiðir til bóta á því. Ég verð að segja það, að mig undrar ekki, þótt ýmsar aths. hafi fram komið við frv. Ég býst við, að okkur sé það öllum ljóst, að hér er um vandamál að ræða, sem sannarlega þurfi að leggja sig allan fram, til að finna meðalhóf í þeim leiðum, sem fara skyldi. Þótt við gerum hið bezta, sem við höfum skilning og getu til, er eðlilegt, að fleiri augu sjái ýmsa annmarka við frv., sem við vitanlega munum taka til greina eins og unnt er, þannig, að frv. verði að einhverju liði. því ber ekki að neita, að frv., sem hér liggur fyrir, er engin lausn á sjálfri kreppunni, þótt það yrði að lögum. Slíkt hefir okkur aldrei dottið í hug. Það er aðeins tilraun til að veita miklum hluta þjóðarinnar starfsfrið, í þeirri von, að hann komist þá fremur klakklaust í gegnum erfiðleikana, í von um betri tíma. Því að ef við hefðum ekki von um slíka tíma, væri öll viðleitni til þess að komast áfram einskis virði. Vonin verður að vera hér hið knýjandi afl. En hitt skal ég játa með hv. þm. G.-K., að ef svo færi, að þessari kreppu, sem nú stendur yfir, létti ekki af á næstu árum, yrðu flestar tilraunir tilgangslausar.

Ég ætla að svara ofurlítið nokkrum aths., sem hv. þm. hafa gert við frv. Ég vil þá byrja á því að svara aths. hv. 1. þm. Eyf., sem kom með það, hvort ekki væri hægt að koma inn í frv. Þetta smábændum við kaupstaði. Ég myndi fús til slíkra breytinga og hygg, eftir þeim undirtektum, sem það fékk í n., að ekki myndi standa á lagfæringu í þá átt. Ég býst við því, að flestir myndu komast undir ákvæði frv. eins og það nú er. En ef eitthvað vantaði, mætti hliðra því til með orðabreytingam. Hv. þm. talaði um, að það, sem bændur ættu verst með, væru vaxtagreiðslur af skuldum, og því væri lítil hjálp í þessu frv., þar sem ekki væri gert ráð fyrir því í frv., að vextir væru afnumdir. Undirstaða frv. er sú skoðun og trú, að bændur eigi yfirleitt fyrir skuldum, og sömuleiðis, að þeim mönnum, sem eiga fyrir skuldum, verði unnt að greiða vexti af lánum, þegar tilraun er gerð til þess að hindra, að gengið verði að þeim á öðrum sviðum.

Hv. þm. Seyðf. sagði, að líkindi væru til og raunar vissa fyrir, að bændur yrðu að draga úr kostnaði og framkvæmdum undanfarandi ára. myndu þeir frekar geta staðið straum af öðrum útgjöldum heldur en þeim, sem þeir hefðu varið í framkvæmdir á undanförnum árum. Hann talaði um, hver nauðsyn væri á að hjálpa þeim, sem ekki ættu fyrir skuldum; hann gat þess, að nú væri fjöldi bænda, sem ekki ættu fyrir skuldum, ef verðlag síðastl. árs væri lagt til grundvallar. Fyrir þessu hafði n. opin augu, því að í frv. er sagt, að leggja skuli til grundvallar meðalverð þriggja síðustu ára. Og með það fyrir augum, að eins og er væri ómögulegt að segja, hverjir ættu fyrir skuldum, ef lagt væri til grundvallar það verðlag, sem nú er. Þess vegna er aðalhættan í því, að bændur neyðist til að selja eignir sínar fyrir það verð, sem nú er fáanlegt, en það þýðir algert hrun, ef farið væri að ganga að mönnum í stórum stíl að þessum tímum. Hv. þm. Seyðf. talaði einnig um það, að hann þekkti til sveitar, þar sem allur fjöldi manna ætti ekki fyrir skuldum. Þetta mun vera fátítt. Það kann að vera stöku staður, þar sem slíkt þekkist, og ég verð að viðurkenna, að þar sem svo er komið, þarf meiri og róttækari ráð til þess að bæta úr því en þetta frv. flytur. Það er rétt hjá hv. þm. En ég veit ekki betur en lög hafi verið í gildi, sem miðuðu að því að hjálpa bændunum í þessum umrædda hreppi til þess að komast að viðunandi samningum við skuldunauta sína. Hv. þm. Seyðf. og hv. þm. G.K. bentu á, að vel gæti svo farið, að lánardrottnar þeirra manna, er fengju greiðslufrest samkv. þessum lögum, gætu sjálfir komizt í greiðsluþrot fyrir þessar sakir. Þessu er því að svara, að hjá þeim mönnum, sem svo er komið fyrir, að þeir þurfi að nota þessa vernd, hljóta lánardrottnarnir að tapa hvort eð er, ef gengið er að þeim. Vernd skuldunautanna er því að þessu leyti óbeint vernd lánardrottnanna, ef lög þessi gætu orðið til að vernda eignir manna þar til þær væru orðnar verðmeiri bæði eigendum og lánardrottnum þeirra.

Þá talaði hv. þm. Seyðf. um, að þetta næði of skammt. Um það atriði var talað í n., en hún sá sér ekki fært að taka með hina stærri atvinnurekendur, hvorki einstaklinga né samvinnufélög. Hún leit svo á, að hagur stofnana þeirra, sem þeir skipta við, væri svo mjög bundinn afkomu þeirra, að þær af þeim sökum væru jafnvel knúðar til að hlaupa undir bagga með þeim. Allt öðru máli er að gegna um hina smærri atvinnurekendur úti um landið. Þeim er ekki eins veitt eftirtekt né hjálp af þessum aðilum.

Þá talaði hv. þm. um, að réttast væri að verja nokkru af því fé, sem veitt er í fjárl. til styrktar landbúnaðinum, til þess að standa undir skuldagreiðslum bænda. Þetta er ekki tímabært nú. Öðru máli væri að gegna að taka það til athugunar á næsta þingi, ef frv. Þetta yrði að lögum nú. Og til skýringar vil ég benda hv. þm. á, að sumar af þeim upphæðum, sem hann benti á, er ekki ráðlegt að taka. Um jarðabótastyrk þessa árs er það að segja, að hann á að ganga til að fullgera jarðabætur, sem unnar hafa verið að nokkru leyti á síðasta ári.

Framlagið til Búnaðarbankans getur og tæplega komið til mála að taka, þar sem fyrir bankanum liggja nú beiðnir um meira fé til bygginga en bankinn hefir yfir að raða á þessu ári. Einar 200 þús. kr. geta heldur ekki talizt mikið fé þegar þess er gætt, sem vitanlegt er, að margir bæir í landinu eru svo komnir, að það verður að endurbyggja þá, ef hægt á að vera að búa áfram á jörðunum, og sem betur fer eru margir bændur svo efnum búnir, að þeir geta lagt í byggingu á ábýlum sínum án þess að gera sig efnalega ósjálfstæða, ef þeir aðeins fá dálítið lánsfé. Að stöðva þessar byggingar með öllu getur því alls ekki komið til mála, enda býst ég ekki við, að hv. þm. Ísaf. samkv. stefnu sinni í stjórnmálum telji það rétt, þar sem þær auka þó atvinnu í landinu.

Um styrkinn til Búnaðarfélags Íslands er hið sama að segja. Ég býst ekki við, að bændum landsins sé neinn greiði ger með því að leggja niður starfsemi Búnaðarfélagsins, því að hún er orðin svo fjölþætt og mikill liður í umbótastarfsemi þeirra. Að sjálfsögðu eru þetta þó atriði, sem athuga má, og verði rætt um þessi mál á næsta þingi og verði þá ekki orðið bjartara fram undan en nú er, má vel vera, að grípa þurfi til einhverra slíkra raða sem þessara.

Þá sagði þessi hv. þm., að skýrsla mín um skuldir bændanna segði ekki neitt, af því að fjöldi þeirra væri leiguliðar. Ég tók það einmitt fram, að af því að margir þeirra væru leiguliðar, þá væru þar 50 millj., sem jarðir og hús á þeim væru metnar, ekki hrein eign þeirra. Þó ber þess að gæta, að leiguliðar eiga þó mikið af húsum á þeim jörðum, sem ekki eru í sjálfsábúð. Auk þess eru skuldir þær, sem ég gizkaði á, ekki nema 60% af fasteignamati jarðanna, og er það t. d. ekki mikið í samanburði við danska bændur. Annars benti ég ekki á þetta af því, að ég teldi hag bændanna góðan, heldur til þess að sýna fram á, að þeir ættu þó fyrir skuldum.

Þá minntist hv. þm. á, að verkamenn fengju ekki vernd eftir þessum lögum. Þetta er rétt. Hér á aðeins að hjálpa þeim bændum og smáútgerðarmönnum, sem komnir eru í greiðsluþrot, en eiga þó fyrir skuldum. En þetta er þó óbeinlínis hjálp fyrir verkamennina. Það hjálpar til þess, að bændur flosni ekki upp og bætist í verkamannastéttina. Sömuleiðis er það hagur fyrir verkamannastéttina, að bændur geti haldið búum sínum og veitt áfram atvinnu.

Hv. þm. G.-K. talaði alvarlegast um þetta mál, og ég verð að segja það, að ef allir væru jafnmyrkir um afkomu atvinnuveganna og hann, og útlitið væri eins og hann sagði, þá væri vonlítið, að hægt yrði að greiða úr fyrir þeim. Aftur var hv. 2. þm. Skagf. bjartsýnni. Hann vænti, að þessi kreppa stæði ekki lengi, og því færi að létta til aftur.

Hv. þm. sagði, að það væru litlar líkur til þess, að hinar stærri verzlanir færu að ganga að mönnum, eins og t. d. Sambandið. Þetta er rétt, en það eru fleiri en verzlanir, sem eiga kröfur í bú bænda. Hinir smærri lánardrottnar geta oft knúð hina stærri til að ganga að mönnum með því að gera það sjálfir. Til að koma í veg fyrir það er frv. ekki sízt fram borið.

Þá hefir verið bent á það, að búast mætti við því, að þeir, sem kæmust undir vernd þessara laga, fengju síður lán, á því held ég sé engin hætta, a. m. k. er hægt að búa svo um, að ekki verði hætta á slíku, því að bændur munu klifa þrítugan hamarinn til þess að bæta ekki við skuldir sínar og reyna að greiða þær skuldir, sem þeir stofna á sama árinu. Ég tel því engan galla á frv., þó að það gefi lánardrottnum aðstöðu til þess að tryggja sig fyrir því, að þær skuldir, sem stofnaðar eru eftir 1932, verði greiddar upp árlega.

Þá talaði hv. þm. mikið um það, að ég hefði sagzt ekki örvænta um afkomu bændanna, og spurði, á hverju ég byggði það. Út af þessum ummælum hv. þm. get ég sagt honum það, að ég hefi ekkert fyrir mér um þetta annað en óljósa von um, að fljótlega fari að létta til. En hinsvegar skal ég viðurkenna, að svo fremi, sem kreppan heldur áfram um nokkur ár enn, þá stoða slíkar ráðstafanir sem þessar ekki neitt. Það, sem hér er verið að gera, er aðeins það, að gera nokkrum mönnum kleift að þurfa ekki að greiða skuldir sínar fyrr en það, sem þeir hafa til þess að greiða með, er komið í meira samræmi við verðlagið á þeim tíma, sem þær voru hafnar.

Hv. þm. G.-K. og hv. 3. þm. Revkv. voru svartsýnastir af öllum, sem tekið hafa til máls um þetta frv. Má vera, að það sé af því, að þeir séu öðrum vitrari eða framsýnni. En það vita þessir hv. þm., að eigi að fara að strika skuldirnar út og færa þær svo niður, að menn eigi fyrir skuldum með því verðlagi, sem nú er, þá þolir enginn banki það. — Læt ég svo úttalað um þetta mál að sinni, en vænti þess, að þeir verði fleiri, sem líta bjartari augum á framtíðina en hinir tveir hv. þm., er ég nefndi síðast.