15.04.1932
Neðri deild: 52. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2198 í B-deild Alþingistíðinda. (2498)

256. mál, gjaldfrestur bænda og bátaútvegsmanna

Bernharð Stefánsson:

Ég skal gjarnan verða við þeim tilmælum að taka brtt. mína aftur til 3. umr. Ég bar þessa brtt. fram í samráði við það, sem ég sagði við 1. umr. um þetta mál, og hafði vonazt til, að hv. n. tæki þá aths. til greina. En ég varð þess ekki var, þegar ég sá till. n., og því bar ég þessa brtt. fram. Tilgangur hennar er, eins og menn munu sjá, sá, að fleiri geti orðið aðnjótandi þeirra hlunninda, sem í frv. felast, en þar er tekið fram. Sérstaklega hefi ég þar í huga þá, sem búa í smábýlum í grennd við kauptún og kaupstaði. Ég skildi hv. frsm. landbn. svo við 1. umr., að hv. n. mundi taka þetta til athugunar. Ég vil nú enn gefa henni kost á því að athuga þetta atriði rækilega, með því að taka brtt. mína aftur til 3. umr. Ég get líka gengið inn á, að ef til vill sé réttara að skilgreina þetta atriði betur en gert er í till., og er það því bezt að hún bíði.