05.04.1932
Neðri deild: 43. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 160 í B-deild Alþingistíðinda. (25)

1. mál, fjárlög 1933

Héðinn Valdimarsson:

Ég lýsti því í ræðu í gær, hvernig kjósendur Framsóknarfl. hafa ávallt verið miklu róttækari en foringjarnir. Þetta hefir komið greinilega í ljós.

Á flokksþingi Framsóknar í fyrra voru bornar fram kröfur um og hátíðlega lýst yfir, að ríkisstj. hallaðist meira að stefnu okkar jafnaðarmanna en íhaldsmanna. En foringjarnir sviku liðið. Ég vænti, að ég geti á þessum 7 mín. fundið þessum orðum mínum stað, þótt tíminn sé naumur.

Ég vil þá líta á stefnuskrá Framsóknarfl., sem birt var í „Tímanum“ 6. maí 1931 og samþ. var á flokksþinginu, sem háð var dagana 29. marz til 9. apríl s. á.

Ég ætla hér aðeins að taka fá dæmi, t. d. kennslumálin. Í stefnuskrá Framsóknarfl. er gert ráð fyrir, að flokkurinn berjist fyrir, að kennaramenntun verði bætt með hærri undirbúningskröfum og auknum kennslufræðum og bætt verði kjör kennarastéttarinnar“. Á sumarþinginu, sem það var eftir að flokkurinn hafði samþ. þessa stefnuskrá, bárum við jafnaðarmenn fram till. um bætt kjör kennarastéttarinnar. Þær till. mættu eindreginni andstöðu. Við höfum nú aftur á þessu þingi borið slíkar kröfur fram, og sennilega verða endalok þeirra þau, að þær verða svæfðar í n., en ríkisstj. og hennar flokkur er á móti þeim, þótt fjmrh. segist persónulega vera þeim hlynntur. Þá er enn það atriði í stefnuskránni, „að tekinn verði upp útflutningur á ísvörðum fiski með atbeina ríkisins þar sem samvinna myndast um útflutninginn í verstöðvunum, en samband slíkra sölusamlaga, byggt að samvinnuháttum, tekur að sér reksturinn. Verði nú jafnframt gerðar ráðstafanir til þess, að nauðsynleg ísgeymslu- og kælihús verði reist“. Var búizt við því, að með þessu væri hægt að bæta úr atvinnukreppunni og bæta útveg landsmanna. Hið eina, sem ríkisstj. hefir gert í þessu efni, er lítilsháttar tilraun, sem gerð var á Austurlandi og fór þannig, að útgerðarmenn fengu ekki annað greitt en nokkurn hluta veiðarfæranna, sem þeir urðu að kaupa, en fyrir sjálfan fiskinn fengu þeir ekki neitt. stefnuskránni er ennfremur: „Að leitað verði færis um myndun sölusamlags fyrir aðrar útfluttar fiskafurðir verstöðvanna, byggt að samvinnuháttum“. Við jafnaðarmenn höfum gert fyrirspurn um það, hvort framsóknarmenn myndu vilja fylgja okkur í því að koma skipulagi á saltfisksöluna, og án þess að tiltaka nokkurt sérstakt skipulag, en svarið frá forsrh. var neitandi. Ennfremur segir: „Að verðfesta krónuna í núverandi gengi“. Það er framkvæmt með því, að krónan er lækkuð um 20%. „Að seðlaútgáfan komist sem fyrst í hendur Landsbankans að fullu“. Sú framkvæmd hefir orðið á þá leið, að fjmrh. hefir beðið fjhn. að flytja frv. um, að Útvegsbankinn haldi um óakveðinn tíma þeim seðlaútgáfurétti, sem hann hefir, 4 millj. kr. „Að bankar og aðrar lánstofnanir gangi eftir fullum skilum skuldunauta sinna við hverskonar atvinnurekstur sem er“. Þetta er framkvæmt með gjaldfrestfrv. því, sem borið er fram, um að veita eins árs gjaldfrest.

„Að skerpa eftirlit með bönkum og sparisjóðum“. Það er framkvæmt með því, að flytja till. um afnám bankaeftirlitmannsins. Ég fyrir mitt leyti álít, að sá maður, sem nú gegnir þessu embætti, hafi ekki staðið vel í stöðu sinni, en það er þó ekki hægt að segja, að það sé „að skerpa eftirlit með bönkum og sparisjóðum“ að afnema embættið.

Í skattamálum er stefna flokksins sú, að „lækka tolla þá, er hvíla á nauðsynjavörum, en auka beina skatta“. Þetta framkvæmir hæstv. fjmrh. svo, að hann ber hér upp hvert frv. á fætur öðru um að auka óbeinu skattana. Flokkurinn vill „létta fátækraframfærslu af sveitar- og bæjarfélögum með því að koma á skyldutryggingum“. Stj. hefir ekki borið við að framkvæma þetta stefnuskráratriði flokksins, og frv. okkar Alþýðufl.manna, sem um þetta fjallar, virðist ekki hafa vakið neinn sérstakan fögnuð hjá henni.

Í byggingarmálum vill flokkurinn „efla byggingar- og landnámssjóð“. Þetta er svo framkvæmt, að hæstv. fjmrh. gerir hverja tilraunina á fætur annari til þess að svipta sjóðinn styrk þeim, er hann nú nýtur af ágóða tóbakseinkasölunnar. Flokksþingið ákvað að láta „rannsaka þegar í stað, hvort eigi sé unnt að lækka kostnað við húsagerð í landinu með skipulagsbundinni verzlun með byggingarefni og bættum vinnuaðferðum“. þessu hefir stj. ekkert gert.

Hér hefi ég rakið fjölda mála, sem sýna, að stj. hefir ekki gert það, sem kjósendur hennar hafa ætlazt til, að hún gerði. Það mætti rekja margt í viðbót, en þetta er nægilegt til að sýna, hversu gífurlega stj. hefir brugðizt sínum flokksmönnum til þess að þóknast íhaldinu.

Ég vil þó geta um tvö mál í viðbót, sem ekkert stendur um í stefnuskránni. Annað er kreppan, hitt lýðréttindin. Ég vil lesa það upp, sem fyrrv. stærsti spámaður flokksins, rithöfundurinn — sem þá var — Jónas Jónsson, sagði einu sinni um kjördæmaskipunina. Í bók hans, „Komandi ár“, stendur þetta, með leyfi hæstv. forseta:

„Hinsvegar mætti greiða götu glöggrar flokkamyndunar á ýmsan hátt, en með engu fremur en að stækka kjördæmin og beita hlutfallskosningu. Þá koma stefnurnar fram fremur en einstaklingsáhrif, ættarfylgi eða fjármagn. Ef 3–1 sýslur væru í sama kjördæmi og kosið með hlutfallskosningu, reynir minna á „síðustu atkvæðin“, úrskurð þeirra andlega ómyndugu, sem fluttir eru í bifreiðum á kjörstaðinn, eins og sauðir til slátrunar. Hlutfallskosning tryggir rétt minni hlutans“. Allir vita hvernig stjórnin og ekki sízt Jónas Jónsson stendur nú í þessu máli.

Ég hefi því miður ekki lengri tíma. Ég vil aðeins geta þess að lokum, að í kreppumálum hefir flokkurinn enga stefnuskrá gefið út, enda stj. ekkert gert. Á því eina sviði hefir stj. því ekki getað brotið gegn yfirlýsingum flokksins.