20.04.1932
Neðri deild: 56. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2204 í B-deild Alþingistíðinda. (2510)

256. mál, gjaldfrestur bænda og bátaútvegsmanna

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Þessar 4 brtt., sem fyrir liggja við þessa umr., ganga ýmist út á það að víkka það svið, sem lög þessi eiga að ná til, eða þrengja það. Það er ekki nema eðlilegt, þegar verið er að búa til nýja löggjöf, að þá verði ágreiningur um það, hversu stórt eigi að vera verksvið slíkra laga. Ég skal í stuttu máli lýsa afstöðu landbn. til þessara brtt., og tek þá fyrst brtt. á þskj. 358, frá hv. 1. þm. Eyf. N. hefir ákveðið að mæla með þeirri till. Hún mun að sönnu stækka nokkuð það svið, sem lög þessi eiga að ná til, en n. fannst ekki rétt að útiloka þá, sem hafa meðfram atvinnu af öðru en landbúnaði og bátaútvegi, og mælir hún því með brtt.

Þá er brtt. frá hv. þm. Seyðf., um það, að lögin skuli ná til útgerðarsamvinnufélaga, sjómanna og verkafólks. N. sá ekki fært að mæla með þessu, því að ef útgerðarsamvinnufélög eru með, þá ætti eins að taka öll samvinnufélög, og það sá n. sér ekki fært og leggur því á móti þessari brtt.

Þá er það brtt. á þskj. 456, frá hv. l. þm. Rang., um það að þrengja svo verksvið þessara laga, að þau nái ekki til bátaúvegsmanna. Ég held, að ég hafi tekið það fram við 1. umr. þessa máls, að það var ekki ákveðið í því frv., sem kom til landbn. frá búnaðarþinginu, að taka bátaútvegsmenn með. En það komu fram raddir í n. um það, að það væri sanngjarnt. nú kemur hv. 1. þm. Rang. og telur, að þetta sé til ills eins fyrir þennan útveg, af því, skilst mér, að það geti orðið til þess, að lánardrottnar dragi sig til baka með ný lán, gangandi út frá því, að þessi lög muni verða framlengd síðar. Ég skal viðurkenna, að þetta getur komið fyrir. En náttúrlega var það ekki tilgangur n. að gera þessum útvegi illt, heldur þvert á móti. En ég segi fyrir mig, að það veikir mína sannfæringu fyrir því, að þetta sé til hjálpar, þegar eins kunnugur maður og hv. 1. þm. Rang. telur, að þetta verði til ills eins. En aftur á móti vegur það mjög hjá mér, og ég held hjá öllum í n., að það sýnist eins og gert sé upp á milli þeirra, sem óneitanlega hafa að ýmsu leyti svipaða aðstöðu, ef þetta er fellt burt. Þess vegna varð það ofan á í n. að mæla ekki með því, að þessi brtt. verði samþ. N. vill þá heldur una því, að d. felli þetta burt, því að eins og ég tók fram, þá skilst mér, að erfitt sé að halda því fram, að hér sé ekki um sanngirnismál að ræða, en vitaskuld er það álitamál, hvort það er til hjálpar eða ekki, og um það vil ég, að hv. dm. skeri úr.

Svo er það till. frá hv. þm. Vestm. um talsvert mikla víkkun á starfssviði þessara laga. Það varð ofan á í n. að mæla ekki með þeirri till. En fyrir mig skal ég segja það, að mér finnst samræmis vegna, að verði brtt. hv. 1. þm. Rang. ekki samþ., þá sé ýmislegt, sem mæli með því, að till. hv. þm. Vestm. verði samþ. En verði aftur á móti brtt. þm. Rang. samþ., þá mun ég greiða atkv. móti till. hv. þm. Vestm. Ég segi þetta aðeins frá mínu brjósti, en frá n. hefi ég það að segja, að hún getur ekki fallizt á brtt. á þskj. 475.

Ég held svo, að ég þurfi ekki að fara fleiri orðum um þetta mál. Það kemur fram, sem auðvitað var strax í byrjun, að menn eru hræddir og hikandi, hvað langt eigi að fara og hvort nokkuð eigi að gera. En ég hygg, að n. sé á sömu skoðun og áður, að nauðsynlegt sé að fá lög um þetta efni. Að því er bændur snertir mun hún ekki hvika frá að halda því alveg föstu. Sama er að segja, hvað viðvíkur bátaútvegsmönnum. N. getur ekki fallizt á að fella það í burt, en hinsvegar er henni það ekki eins fast í hendi eins og með landbúnaðinn.