20.04.1932
Neðri deild: 56. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2208 í B-deild Alþingistíðinda. (2512)

256. mál, gjaldfrestur bænda og bátaútvegsmanna

Jón Ólafsson:

Ég bjóst svo sem ekki við, að ég mundi breyta áliti hv. landbn. með því, sem ég sagði. Ég ætlaði mér vissulega ekki þá dul, að það mundi hafa áhrif á álit sumra manna hér í hv. deild. En ég vildi láta það koma fram, út af orðum, sem fallið hafa, að það er mitt eigið álit, sem ég fer hér með, en ekki þess banka, sem ég starfa við. Hann hefir ekkert álit látið uppi, af þeirri ástæðu, að til hans hefir ekki verið leitað. Hér er um vandræðaráðstöfun að ræða, eins og reyndar allir viðurkenna, sem líka getur leitt til vandræða. En ef því að mér er það enn eigi fullljóst, hve miklum vandræðum það getur valdið, þá vil ég fara hægt af stað, meðan enn er eigi séð, hvað víðtæk áhrif þessi ákvæði hafa, svo að þau valdi ekki meiri truflun en þörf er á.

Ég endurtek það, að ég er alveg viss um það, að þegar þetta einu sinni er komið á, þá verður það framlengt ár frá ári. Því að það er líka alveg víst, að við erum ekki komnir í botn á vandræðunum ennþá, og sízt á þessu ári. Verður þá ekki hægt að hætta, ef komið er inn á þessa braut. En afleiðingin af því, að búið er að festa hinar gömlu skuldir, er sú, að miklu harðara verður að þeim skuldum gengið, sem stofnaðar eru á þessu ári. Það er enginn vafi á því, að harðara verður gengið að þeim skuldum, sem hægt er að að ganga. Því er ekki hægt að neita.

Hv. þm. Borgf. var að tala um það, að 10, gr. frv. tryggði það, að öllum veðum yrði vel við haldið. Þar væri svo sem engin hætta á, að ekki yrði allt í bezta lagi. Ég veit nú ekki, hvort hv. þm. Borgf. er eins kunnugur þessum vottorðum og ég, sem gefin eru þeim mönnum, sem lán þurfa að taka. Ef hann væri það, þá vissi hann líka, hve ábyggileg þau vottorð eru, sem gefin eru af góðum vinum þess, sem lán þarf að taka, og sem einatt eru miðuð við þá upphæð, sem lántakandi þarf að fá. Ég segi það, að ég vil ekki treysta slíkum vottorðum. Einmitt vegna slíkra vottorða hefir afarmikið fé tapazt. Þegar litið er til 9. gr. frv., þá sest, að skilanefnd og atvmrn. eru hinn eini réttur, sem tekið er tillit til. Þeir, sem lánað hafa, hafa ekkert að segja um þetta. En ég tel það þó mikið atriði og eiginlega óhjákvæmilegt, að lánþegar hafi nokkurn hita af lánardrottnum sínum. En þegar skuldunautarnir eru komnir undir slíka lagavernd, sem hér er gert ráð fyrir, þá verður þeim ef til vill sama, hvernig fer úr því, og gæta þess miður að standa við skuldbindingar sínar og halda við eignum sínum eftir að þeir hafa fengið vottorðið. Er því hætt við því, að ekki komi allir þeir aurar til skila, sem annars hefðu getað komið. Það má nú segja, að með þessu frv. sé verið að tryggja sjávarútveginum, eða hinum smærri hluta hans, að ekki verði gengið að bátaeigendum, ef þeir teljast eiga fyrir skuldum, eru líklegir til þess að svara vöxtum af skuldum sínum og að geta haldið sínum útveg. Þá verði þeim veittur greiðslufrestur á lánum. En ég held, að það hafi nú verið venja lánsstofnananna að ganga ekki að skuldunautum sínum fyrr en í fulla hnefana. Dæmin eru mörg um það, að það hafi verið gert allt of seint, en aldrei of snemma. Og þegar þetta er skoðað nákvæmlega, þá verða þessi ákvæði aðeins skjól fyrir þá, sem haga sér verr en skyldi. Hv. þm. Borgf. þarf þó ekki að halda, að ég sé að mæla á móti því, að þetta verði reynt hvað landbúnaðinn snertir. En ég vil fara varlega af stað í þessu. Og ég hefi viljað lýsa því, hvernig ég er hræddur um, að þetta verki. Ég er hræddur um, að það skerði lánstraust þeirra, sem undir lögin heyra, bæði eins og annars. Og það er ekki af neinum illvilja gert, að ég ber fram brtt. mína, heldur af því, að ég tel, að bátaútvegurinn hafi illt eitt af því að komast undir þessi ákvæði. Vil ég því ráða hv. deild til að samþ. brtt. mína.