18.05.1932
Efri deild: 77. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2212 í B-deild Alþingistíðinda. (2528)

256. mál, gjaldfrestur bænda og bátaútvegsmanna

Frsm. (Páll Hermannsson):

Þegar þetta mál var lagt fram til 1. umr., þá var ekkert um það rætt. Mér finnst því varla verða hjá því komizt að fara nokkrum orðum um málið almennt nú, þótt þingsköp ætlist ekki til þess við 2. umr. Það er öllum landsmönnum kunnugt, að hér sem annarsstaðar er skollin yfir ægileg viðskiptakreppa. Sú viðskiptakreppa hefir komið að okkur Íslendingum óvörum og óviðbúnum, bæði ríkinu sjálfu og einstaklingunum. Til þess liggja eðlilegar ástæður. Á undanförnum áratugum hafa landsmenn verið önnum kafnir við að koma af lífsnauðsynlegum framkvæmdum. Bændur hafa varið of fjár til að rækta og byggja landið. Hið opinbera hefir hlúð að því með lagasetningu og fjárframlögum. Landsmenn hafa verið í vorhug. Þeir hafa verið ákveðnir í því að hefjast alvarlega handa um að vinna þau verk, er vinna þarf, bæði vegna nútíðar og framtíðar, en hafa verið látin óunnin allt fram að byrjun þessarar aldar. En í mesta annríkinu skellur kreppan yfir, ekki ólíkt og stórhríð í júnímánuði. Það er svo skammt síðan kreppan skall yfir, að ekki eru til opinberar skýrslur um tjón það, er af henni hefir hlotizt. Þeir menn, er bezta hafa aðstöðu til að vita um slíkt, telja, að vörur landbænda hafi fallið í verði um 40–50%, og sú upphæð, sem þannig er horfin úr árlegri viðskiptaveltu þeirra bænda, er sauðfjárbúskap stunda, mun nema nálega 6 millj. kr. Allir sjá, hvílíkt tjón þetta er fyrir atvinnuveg, sem ekki hefir stærri viðskiptaveltu en íslenzkur landbúnaður. Erfiðleikarnir á að standa undir árlegum greiðslum eru auðsæir. Ofan á þennan bætist svo það, að við verðfallið hefir efnahag manna hnignað mjög, eins og sést t. d. með því að athuga verðlag á búpeningi nú og áður. Við það hefir ekki aðeins þeim, er áður voru illa stæðir, stórum hrakað, heldur hafa einnig þeir, er áður áttu allmikið umfram skuldir, komizt niður í núll, eða enn neðar.

Tildrög þessa frv. er að rekja til ríkisstj. og stj. Búnaðarfélagsins. Upphaflega var það samið af búnaðarþinginu, en síðan endursamið af landbn. Nd., og hygg ég, að þar hafi átt drýgstan hlut að málum hv. 2. þm. Skagf. Í Nd. hlaut frv. góðar undirtektir og var það afgr. þaðan með aðeins einu mótatkvæði.

Ég skal nú með fáum orðum gera nánari grein fyrir frv. í einstökum atriðum. Samkv. 1. gr. er ætlazt til, að þeir, sem landbúnað stunda eða útgerð báta minni en 30 smálesta, skuli eiga kost á að fá gjaldfrest á skuldum sínum eftir reglum frv.

Í 2. gr. er svo frá því sagt, hvernig þessu skuli hagað. Í hverri sýslu og hverjum kaupstað á að velja 3 manna skilanefnd og eru tveir nm. kosnir af sýslunefnd eða bæjarstj., en atvmrh. skipar formann nefndarinnar.

Í 3. gr. er frá því greint, að þeir, er telja sig ekki geta staðið í skilum með innkrafðar afborganir skulda, geti snúið sér til skilanefndar og látið hana taka málið til meðferðar.

Í næstu gr. er svo ákveðið, hvernig skilanefnd skuli haga sínum vinnubrögðum, og er skemmst af að segja, að hún á fyrst að leitast við að koma á frjálsu samkomulagi milli lánardrottna og skuldunauts. Ef það tekst ekki, hefir skilanefnd bæði rétt og skyldu til að ákveða sjálf um meðferð ákveðinna skulda skuldunauts. Þó getur skilanefnd ekki gefið tilslakanir á opinberum gjöldum, skuldum, sem stofnaðar eru á yfirstandandi ári, eða vaxtagreiðslum.

Nú eru það engan veginn allir, sem komizt geta að þessum kjörum. Í 10. gr. greinir, hverjir ekki geta komið til greina. Það eru í fyrsta lagi þeir, sem ætla má, að geti sjálfir staðið straum af skuldbindingum sínum án þess að bíða verulegan hnekki. Í öðru lagi þeir, sem líklegir eru til að nota frestinn til að rýra tryggingar lánardrottna sinna. Í þriðja lagi þeir, sem búa við svo erfiðar ástæður, að ekki séu líkur til, að þeir geti uppfyllt skuldbindingar sínar í venjulegu árferði. Og loks í fjórða lagi þeir, sem ekki teljast eiga fyrir skuldum.

Í 12. gr. er það ákveðið, að skilanefnd megi ekki úrskurða lengri greiðslufrest en 1 ár frá úrskurðardegi.

Loks er svo ákveðið í 16. gr., að ef lögin valda þeim lánsstofnunum, er gefið hafa út vaxtabréf, erfiðleika um innlausn þeirra, þá megi ríkið taka lán til að hlaupa þar undir bagga með þeim, er greiðslufrest fá, og endurborgist af þeim þannig, að ríkið sé skaðlaust af. Í niðurlagi gr. er ákvæði um, að aðrar lánsstofnanir, þar með talin verzlunarfyrirtæki, sem lenda í greiðsluörðugleikum vegna laganna, verði ekki tekin til gjaldþrotameðferðar að þeim nauðugum meðan lögin eru í gildi, ef þau teljast eiga fyrir Skuldum.

Að síðustu er í 18. gr. ákveðið, að kostnaðurinn við framkvæmd laganna sé greiddur úr ríkissjóði og bæjar- eða sýslusjóð, að hálfu úr hvorum.

Ég hefi nú lýst efni frv. í fáum orðum. Í n. hefir ekki náðst fullt samkomulag um frv. Meiri hl. leggur til, að það verði samþ., en minni hl., hv. 4. landsk., mun tæplega sjá sér fært að leggja það til. Annars mun hann sjálfur gera grein fyrir skoðun sinni.

Frá mínu sjónarmiði séð getur frv. orðið að talsverðu gagni. Það er ljóst, að það er enginn fullnaðarlausn á vandræðunum, en mér skilst, að það ætti að geta orðið að nokkru liði. Fyrst og fremst verður það skoðað sem tilraun til að hjálpa mönnum, og verður því til þess að halda kjarkinum uppi. Þá má búast við, að lánardrottnar gangi vægara að mönnum, þegar kostur er á að fá greiðslufrest samkv. slíkum lögum. Mér blandast ekki hugur um, að tímar sem þessir eru afaróhentugir til að innheimta skuldir fyrir báða aðila. Það er vitanlegt, að þó menn geti ekki fengið nema lítinn hluta skuldar greiddan á tímum eins og þessum, þá getur hún fengizt öll þegar um hægist. Og almennt er það viðurkennt, að íslenzkir bændur séu skilvísir. — Í þriðja lagi má gera ráð fyrir því að það gæti komið sér vel fyrir báða aðila, að skilanefnd gengi í mál þeirra og leitaði samkomulags með þeim um gjaldfrest eða ákvæði hann. Og loks í fjórða lagi ætti allmikil hjálp að verða að 16. gr. bæði fyrir lánsstofnanirnar og skuldunauta.

Um niðurlag 16. gr. er það að segja, að það kom inn í frv. við 3. umr. þess í Nd. Í fljótu bragði mætti líta svo á , að það væri réttlátt. En þegar nánar er að gáð, held ég, að þess sé tæpast þörf. Ég held, að kaupmenn og kaupfélög þurfi ekki að búast við og geti ekki búizt við, að gamlar skuldir verði afborgaðar í þessu árferði. Ég held, að verzlanir geri sér ekki von um og ætlist ekki til, að menn greiði meira en ársúttekt sína og vexti af gömlu skuldunum. Ég held því, að þetta ákvæði sé þess eðlis, að ekki sé rétt að leiða það í lög. Samkv. þessu hefir n. því lagt til, að síðari málsgr. 16. gr. falli niður.

Læt ég svo útrætt að þessu sinni um málið.