18.05.1932
Efri deild: 77. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2221 í B-deild Alþingistíðinda. (2530)

256. mál, gjaldfrestur bænda og bátaútvegsmanna

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Það er sjálfsagt ekki undarlegt, þó að skoðanir séu skiptar út af þeirri löggjöf, sem hér er á ferðinni, og þótt margir álíti, að þörf sé að athuga sinn gang, áður en farið er inn á þá braut að setja slíka löggjöf sem þessa. Og það er sízt að undra, þó að maður eins og hv. 4. landsk., sem ber betra skyn á þessa hluti en margir aðrir, sökum starfs síns við eina af peningastofnunum landsins, hafi sérstaklega opin augu fyrir þessu. Gagnrýni hv. 4. landsk. á frv. hefir leitt hann að þeirri niðurstöðu að bera fram rökst. dagskrá í málinu, sem að vísu sýnir velvildarhug hv. þm. til aðalstefnu frv., en vísar þó málinu frá. Kemur þetta ekki á óvart frá manni í hans stöðu, eins og ég tók fram, og þótt ég sé ekki samþykkur öllum þeim aths., sem hv. þm. gerði við frv., skal ég ekki neita því, að bak við þær liggur mikil athugun á málinu, auk þess sem þær voru fluttar af mikill hógværð.

Út af því, að hv. 4. landsk. sagði, að þessi löggjöf væri svo róttæk og mundi hafa svo víðtækar afleiðingar, að ekki mæti gripa til þessara ráðstafana nema sérstaklega stæði á og óumflýjanlegt væri að gera slíkt, vil ég segja það, að sú er einmitt hin sama hugsun, sem vakir fyrir þeim, sem að þessu frv. standa, en munurinn er aðeins sá, að hv. 4. landsk. álítur ekki nauðsynlegt að stiga þessi spor, en aðrir álíta, að aðstaðan sé svo erfið og ástandið svo illt viðureignar, að það beri að gera þessa tilraun til að létta undir með mönnum í örðugleikunum. Vil ég í þessu sambandi minna á það, eins og hv. 4. landsk. líka kom inn á, að mikill og merkilegur aðdragandi liggur að þessari löggjöf. Frv. fór gegnum búnaðarþingið, og það frv., sem þaðan kom, var ekki í sama formi og þetta frv. Að því frv. stóðu allir fulltrúar landbúnaðarins, sem voru á búnaðarþinginu. Svo fór frv. til landbn. Nd., og þar var einnig samhuga ósk allra nm., að slík löggjöf yrði sett. Báðir þessir aðilar, búnaðarþingið og landbn. Nd., hafa því komizt að þeirri niðurstöðu að aðstaðan sé nú þannig og kringumstæðurnar, að óhjákvæmilegt sé að setja slíka löggjöf sem þessa.

Hv. þm. benti alveg réttilega á það, að það geta orðið töluverðar afleiðingar af því að setja slíka löggjöf. Hv. þm. sagði, að ekki mætti mikla erfiðleikana of mikið fyrir sér og telja kreppuna meiri en hún er, en ég vil benda hv. þm. á, að við megum heldur ekki gera meira úr afleiðingum slíkrar löggjafar en þörf er á. Það, sem er aðalatriðið hér, er að veita gjaldfrest, þó ekki nema í eitt ár og ekki öðrum en þeim, sem að mati þar til kvaddra manna teljast eiga fyrir skuldum. Það er ekki verið að tala um það að rýra aðstöðu manna, sem eiga skuldir hjá öðrum. Í ýmsum tilfellum yrði þessi ráðstöfun frekar til þess að tryggja, að skuldheimtumaður geti á sínum tíma fengið skuldina borgaða, með því að gefa skuldunaut hæfilegan frest til að halda atvinnurekstrinum gangandi, í stað þess að ganga að honum og hann yrði að selja nauðungarsölu, eins og öll sala verður á erfiðum tímum. Þó að það sé rétt, sem hv. þm. sagði, að þetta nái ekki til allra landsmanna, þá hygg ég samt, að það sé um svo marga menn að ræða, einkem bændur, sem þannig stendur á fyrir, að maður verður að telja þá eiga fyrir skuldum, ef þeir fái óáreittir að halda áfram atvinnurekstri sínum. Ég hygg því, að þetta muni ná til tiltölulega margra manna innan þess ramma, sem l. ná til. Mjög margir bændur mundu njóta verndar þessara l. Ég fullyrði það viðvíkjandi því fólki, sem ég er fulltrúi fyrir, að tiltölulega mjög margir mundu njóta verndar þessara l. En hitt hygg ég líka, eins og bent hefir verið á í Nd., sérstaklega af hv. frsm. landbn., að verkefni þessara l. yrði mest óbein áhrif, nefnilega að skapa ró um þetta fyrir fólkið, og óbeinu áhrifin af slíkum l. yrðu ef til vill þau farsælustu. Hv. 4. landsk. gat þess bæði í ræðu sinni og seinna í dagskránni, sem hann flutti, að tilgangurinn með þessu frv. sé góður og að æskilegt væri að geta veitt þessu fólki, sem um er að ræða, einhverja aðstoð. Hv. þm. hyggur, að sá tilgangur náist að talsverðu leyti með þessari dagskrá, en þó er vitanlega engum ljósara en honum, að það er ákaflega mikill munur á því, hvort málið er afgr. með þessari dagskrá, sem hann ber fram, eða afgr. með l. Stj. hefir vitanlega ekkert vald til þess að leggja fyrir bankastofnanir að veita slíkan frest eins og þar er stungið upp a. Það er ekki rétt að fara inn á þá braut, að ríkisstj. segi peningastofnunum fyrir um það að veita fresti. (PM: Það er alls ekki meiningin). Meiningin með því að bera fram dagskrána var eitthvað í þá átt, til þess að verða til liðs þeim mönnum, sem hér um ræðir. Að öðru leyti ætla ég ekki ú í einstök atriði þessa máls.

Hv. 4. landsk. er lögfræðingur og getur sjálfsagt bent á ýms einstök atriði í ákvæðum þessarar gr., sem ég get ekki tekið upp rökræður við hann um, því að til þess brestur mig lögfræðiþekkingu. Það sem ég vil leggja áherzlu á, er þetta, að virkilega er búið að undirbúa þetta mál vel og að það eru komnar frá mörgum og merkum aðilum ákveðnar óskir um, að löggjöf sem þessi verði sett. Út frá þessu vildi ég mega óska, að hv. d. sjái sér fært að afgr. málið í aðalatriðum í þeirri mynd, sem það nú liggur fyrir.