18.05.1932
Efri deild: 77. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2228 í B-deild Alþingistíðinda. (2533)

256. mál, gjaldfrestur bænda og bátaútvegsmanna

Frsm. (Páll Hermannsson):

Mér skildist svo á hv. 4. landsk. og hv. þm. Snæf., að þeir litu svo á, að gallar þessa frv. væru meiri en kostirnir. Skilst mér því, að það, sem okkur greinir á um, sé það, að ég tel, að frv. verði til allmikils gagns, en lítils ógagns, en þeir álíta hinsvegar, að það verði til mikils ógagns, en lítils gagns. Og það er ekki nema skiljanlegt, þó að menn greini á um frv. eins og þetta og hver líti sínum augum á það, einkum þó þegar litið er til þess, að slík lagasmíð sem þessi, að stefnu til, vart mun hafa átt sér stað áður hér hjá okkur. — Hv. 4. landsk. talaði um það, að hér væru róttæk ráð á ferðinni. Það má að vísu orða það svo, að hér sé um „róttæk ráð“ að ræða, en enda þótt þau sýnist ef til vill róttæk á pappírnum, álít ég samt ekki, að þau verði róttæk í framkvæmdinni, miðað við það ástand, sem fyrir er í landinu.

Hv. 4. landsk. talaði einnig um það, að með þessum ráðstöfunum væri verði að flýja undan kreppunni. Get ég alls ekki fallizt á þetta hjá hv. þm., því að ég lít þvert á móti svo á, að með þessum ráðum sé verið að reyna að brynja fólkið fyrir kreppunni. Hugsum okkur aðeins bónda eða útgerðarmann, sem vegna verndar I. gæti áfram stundað atvinnuveg sinn og lifað af honum, en ella óumflýjanlega mundi hafa bætzt við í hóp hinna allt of mörgu verkamanna, sem enga atvinnu hafa, því að ef gengið væri að bóndanum eða útvegsmanninum og af honum tekið búið eða báturinn, eru mestar líkur til þess, að þeir einmitt bætist í hóp hinna allt of mörgu atvinnuleysingja. Ég lít svo á, að með því að stuðla til þess, að þessir menn og fjölskyldur þeirra geti áfram framfleytt sér á landbúnaði eða útgerð, sé betur séð fyrir þessum hóp og hann betur varinn fyrir áhrifum kreppunnar en ella. Það er því fjarri því, að hér sé um það að ræða að flýja undan krepp unni, enda verður hún ekki umflúin, þegar hún á annað borð er skollin yfir, en hlýtur óhjákvæmilega að hitta með öllum sínum þunga fólkið í landinu, og veltur auðvitað á ýmsu um það, hvernig mönnum reiðir af í þeirri viðureign.

Hv. 4. landsk. talaði um það, að ekki mætti grípa til svo róttækra aðgerða, nema sjáanlegt væri, að allmargir hefðu not af þessum l. Játa ég, að þeir verða allt of margir, sem undanþegnir verða þeirri vernd og hjálp, sem 1. veita. En treysta menn sér til að stækka þennan hóp og heimfæra t. d. undir vernd l. þá, sem ekki eiga fyrir skuldum og teljast vera gjaldþrota ? Ég held, því miður, að það muni ekki þykja fært að taka þennan flokk manna með, né heldur alla verkamannastéttina, enda er þess minni þörf, því að verkamenn þurfa ekki að hafa neitt á milli handanna til þess að geta stundað atvinnu sína, þar sem bóndinn hinsvegar getur ekki rekið atvinnu sína, nema hann hafi bú og bújörð, og sama gildir um bátaútvegsmanninn að sínu leyti. En engu að síður væri þó auðvitað æskilegast að geta veitt fleirum þá vernd, sem í þessu frv. felst, en að það er ekki gert, stafar eingöngu af því, að ekki er árennilegt né heldur fært að fara lengra í þessu efni en gert er í frv. Ef hjálpa á verulega í kreppunni, er ekki annað að gera en að skaffa peninga til þess að borga skuldirnar, og strika þær síðan út, en ég er hræddur um, að ríkið sé ekki við slíku búið, né heldur stofnanir og einstaklingar. Slíkt mun nú efst á baugi hjá Dönum að fara inn á þá braut, að strika úr skuldir, en ég er hræddur um, að við séum ekki til þess færir, eins og stendur a. m. k.

Það hefir réttilega verið bent á, að sá hópur manna, sem ekki eiga fyrir skuldum, muni vera býsna stór, en um þetta verður þó að gæta þess, að frv. gerir ráð fyrir, að lagt verði til grundvallar við úrskurðun gjaldfrestsins meðaltal 3 síðustu ára, og gefur þetta betri útkomu en ef miðað væri eingöngu við ástandið eins og það er, því að verðlag var miklu hærra t. d. 1929 en það er nú. En þrátt fyrir þetta er þó hópur þeirra, sem ekki eiga fyrir skuldum, allt of stór, en eins og ég áður sagði, er ég hræddur um, að Alþingi muni ekki treysta sér til að taka þá með, þó að æskilegast væri þeirra vegna.

Hv. 4. landsk. og hv. þm. Snæf. vildu báðir halda því fram, að lánsstofnanir, eins og kaupmenn, kaupfélög og sparisjóðir, mundu lenda í miklum óþægindum vegna þessara l. Ég er ekki svo mjög hræddur við þetta. Ég held, að almennar viðskiptastofnanir, eins og kaupmenn og kaupfélög, sem starfa og ætla að starfa áfram, geri sér ekki vonir um að fá inn skuldir sínar eða krefja menn um afborganir af gömlum skuldum. En eins og bent hefir verið á, er hér um fleiri fyrirtæki að ræða en þessi viðskiptafyrirtæki, og það fyrirtæki, sem eru í sömu þörf fyrir að ganga eftir skuldum sínum, hvar svo sem þær eru, eins og hinum fátæku atvinnurekendum er mikil þörf á því að komast hjá að greiða skuldirnar. Stofnanir, sem hafa með höndum viðskipti eins og vaxtabréfasölu, komast ekki hjá því að ganga eftir skuldum sínum, enda gerir frv. sérstakar ráðstafanir til þess, að við slíka samninga sé hægt að standa, og álít ég þau ákvæði frv. mjög mikils virði.

Ég er sammála hv. 4. landsk. um það, að þessi 1. hefðu þurft að ná til fleiri manna, og ég ætla, að við séum einnig sammála um það, að slíkt sé ekki hægt, eins og öllum hlutum nú er háttað. Hinsvegar er ég ósammála hv. 4. landsk. um það, að l. muni hafa nokkrar verulegar truflanir á viðskiptalífinu í for með sér, enda er ekki ætlazt til, að þau gildi nema í eitt ár, svo að óþægindin, sem l. kynnu að geta valdið, ættu aldrei að geta orðið mikil.

Hv. þm. Snæf. hafði mikið út á þetta frv. að setja. Taldi hann jafnvel frv. óþarft með öllu, og hélt því hinsvegar fram, að það mundi ekki koma að neinum notum í framkvæmdinni, en aðeins valda óþægindum. Er ég hv. þm. algerlega ósamþykkur um þetta, því að ég lít svo á, að frv. sé mjög þarft og muni enda koma að miklum notum, en þar sem búið er að ræða allýtarlega einstök atriði frv., sé ég ekki beint ástæðu til þess að fara út í það í sambandi við ræðu hv. þm. Snæf. — Hv. þm. endaði ræðu sína með því að slá því föstu, að frv. mundi aðeins verða til þess að auka óskil og óreiðu í viðskiptum. Get ég ekki fallizt á þetta. Ég fæ ekki séð, að ef svo færi, sem ekki er ómögulegt, að l. drægju úr lánsviðskiptum milli manna, mundi slíkt endilega þurfa að verða til þess að auka óskil og óreiðu. Og ég fæ ekki heldur séð það, að þótt góðir menn reyni að miðla málum og semja um skuldir manna á meðal, þurfi af því að leiða meiri óskil og óreiðu í viðskiptum. Mér sýnist sem þetta muni frekar leiða til hins gagnstæða. Og ég er sannfærður um það, að ef ekkert verður að gert í þessum efnum til þess að hindra það, að farið verði ógætilega fram um innheimtu gamalla skulda á hendur bændum og bátaútvegsmönnum, muni af því stafa mikið óhagræði fyrir báða málsparta, skuldareigandann og skuldunautinn.

Hv. þm. Snæf. benti á það, að sparisjóðirnir mundu standa varnarlitlir gagnvart þessum l., og mætti búast við því, að inneignamenn gengju að innieignum sínum, af því að þeir mundu þurfa á þeim að halda. En hvernig mundu þá hinir standa að vígi, sem ekki eiga innieignir, en skulda öðrum, þegar óþyrmilega væri að þeim gengið um innheimtu skuldanna, eins og búast má við, að verði, ef ekkert verður að gert í þessum efnum ? Mér virðist a. m. k. sem rétt sé að reyna að stuðla að því, að slíkt eigi sér ekki stað, ekki sízt þegar til þess er lítið, að svo mun nú komið jafnvel fyrir innieignamönnunum, sem venjulega reka betri og arðvænlegri atvinnugreinar en hinir, að þeir þurfa að ganga á innieignirnar, til þess að nota þær í þarfir líðandi stundar.