18.05.1932
Efri deild: 77. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2232 í B-deild Alþingistíðinda. (2534)

256. mál, gjaldfrestur bænda og bátaútvegsmanna

Pétur Magnússon:

Ég held, að hæstv. forsrh. hafi gert of mikið úr skyldurækni minni, þegar hann gerði ráð fyrir því, að afstaða mín til þessa máls mótaðist af starfi mínu við eina af bankastofnunum landsins, nefnil. Búnaðarbankann. En svo er alls ekki. Svo að frv. verði að l., hefi ég ekki trú á því, að það hafi neina teljandi þýðingu fyrir Búnaðarbankann, og afstaða mín stjórnast heldur ekki af umhyggju fyrir þeirri stofnun. Ég hefi viljað kryfja málið til mergjar, óhlutdrægt, og fór því fjarri, að ég gengi að athugun þess með illvilja, því að ég hefði haft meiri tilhneigingu til að vera með málinu, ef sannfæring mín hefði leyft mér það.

Hæstv. forsrh. sagði, að ég hefði viðurkennt, að slíkar ráðstafanir sem þessar væru heimilar, ef óumflýjanlegt væri að grípa til þeirra, og þóttist hann færa rök fyrir því, að þær væru óumflýjanlegar. Ég orðaði þetta nú að vísu ekki svo, heldur sagði ég, að ég áliti, að hið eina, sem heimilað gæti slíkar ráðstafanir, væri það, ef alþjóðaþörf krefðist þess, og ég þykist hafa leitt rök að því áður, enda hefi ég ekki heyrt neinn vefengja það, nema þá helzt hæstv. ráðh., að þessar hagsbætur, sem frv. er ætlað að veita, ná ekki nema til tiltölulega fárra manna, og þegar svo er, er ekki rétt að gera slíkar ráðstafanir sem þessar, sem geta haft þýðingu fyrir framtíðina og vakið tortryggni og ótta um það, að löggjafarvaldið sjáist lítt fyrir með að skerða réttindi, sem talin eru að vera vernduð jafnvel af stjórnskipunarl. landsins. Slíkar ráðstafanir má ekki gera, nema almenningsþörf krefjist, en þótt nokkrir tugir manna kunni fremur að geta bjargað sér fram úr örðugleikunum með því að nota sér ákvæði frv., er það ekki nægilegt til þess að heimila, að til þessara ráðstafana sé gripið. En það er augljóst, þegar athugað er, hverjir verða þeirrar hjálpar aðnjótandi, sem frv. er ætlað að veita, að þeir eru ekki nema tiltölulega fáir, enda kom það og greinilega fram í ræðu hv. frsm., að hann býst ekki við, að frv. komi að almennum notum, heldur muni aðeins tiltölulega fáir nota sér það.

Hæstv. forsrh. talaði mikið um það, að frv. hefði fengið góðan undirbúning. Hefði það upphaflega verið samið af fulltrúum Búnaðarfélagsins, en síðan garnrýnt og endursamið að nokkru af landbn. Nd. Ég hafði nú að vísu ekkert sett út á undirbúning frv., en ég verð þó að segja það, að mér finnst ýms ákvæði frv. ekki nægilega hugsuð, og ef frv. gengur áfram til 3. umr., mun ég bera fram brtt. við það, til þess að bæta úr helztu ágöllunum.

Hæstv. ráðh. sagðist vera þeirrar skoðunar, að frv. mundi aðallega hafa óbein áhrif, og er ég honum sammála um þetta, þó að ég hinsvegar álíti, að þessi óbeinu áhrif frv. verði á annan veg en hæstv. ráðh. virtist halda. Hann virtist gera ráð fyrir, að verkanir frv. myndu aðallega koma fram í því að halda skuldheimtumönnunum frá því að ganga að skuldunautunum, en ég held hinsvegar, að frv. muni fremur verka svo, að menn hlífðist meira við að láta fjármuni sína út sem kröfur.

Þá fannst hæstv. ráðh. Það allmikill munur á afgreiðslu málsins, annarsvegar að samþ. frv. og hinsvegar að samþ. dagskrártill. mína, og neita ég því ekki, að þetta er allmikill munur, en þegar lítið er á þetta með sömu augum og við hv. frsm. baðir gerum og tekið tillit til þess, að tiltölulega fáir munu nota sér ákvæði frv., verður munurinn ekki mikill í framkvæmdinni, a. m. k. ekki sú hliðin, sem að skuldunautunum snýr. Þótt það sé að vísu rétt, að stj. hefir ekki bankana eða aðrar opinberar lánsstofnanir á valdi sínu, þannig, að hún geti sagt þeim að gera þetta eða hitt, er það þó ljóst, að stj. hefir a. m. k. þá aðstöðu gagnvart ríkisbönkunum, að þeir tækju fullt tillit til þess, sem hún bæri fram í þessum efnum, ekki sízt þegar litið er til þess, að þetta mundi fara saman við hagsmuni stofnananna sjálfra. Þegar þessa alls er gætt, sýnist mér sem hv. þdm. geti greitt till. minni atkv. með góðri samvizku.

Það var ekki margt í ræðu hv. frsm., sem ég sé ástæðu til að fara frekar inn á en þegar hefir verið gert. Hv. þm. Snæf. hefir og tekið margt það fram, sem ég ella hefði séð ástæðu til að segja í sambandi við ræðu hv. frsm., og ég er honum sammála í öllum höfuðatriðum. Um eitt atriði er ég honum þó ósamþykkur. Hv. þm. Snæf. álítur nefnil., að menn muni í stórum stíl nota sér ákvæði frv. og það geti því aftur haft víðtæk áhrif á starfsemi lánsstofnana. Ég er ekki trúaður á þetta. Ég hygg, að þeir verði svo tiltölulega fáir, sem geta notað sér ákvæði frv., að ég óttast ekki mjög truflanir af þeim ástæðum.

Hv. frsm. sagði, að frv. væri aðeins róttækt á pappírnum, en mundi hinsvegar ekki verða róttækt í framkvæmdinni. En ef hv. frsm. stendur í þeirri trú — því er hann þá að reyna að stuðla að því, að málið nái fram að ganga?

Þá þótti hv. frsm. Það ekki rétt hjá mér, að með þessum ráðstöfunum væri verið að reyna að flýja undan kreppunni, heldur sagði hann, að um það væri að ræða að brynja þjóðina gegn kreppunni. Ef þetta er rétt hugsun hjá hv. frsm., þá hefi ég misskilið allt það, sem talað hefir verið um „brynjun atvinnuveganna“, því að ég hefi skilið það tal svo, að stuðla átti að því að koma atvinnuvegunum í það horf, að þeir gætu staðið á eigin fótum og varizt svo örðugleikunum. En hér er hinsvegar um það að ræða að fresta vissum afleiðingum fjárhagsörðugleikanna með því að færa greiðslurnar aftur í tímann og leysa menn þannig undan því að standa í skilum um skuldbindingar sínar á réttum gjalddaga. Og slíkt verður ekki kallað nein brynjun gegn kreppunni, og réttara að hafa þau orð um, sem ég hafði, að með þessu er verið að reyna að flýja undan kreppunni — fresta afleiðingum hennar.

Hv. frsm. sagði, að bezta hjálpin í þessum efnum væri sú að skaffa peninga og strika skuldirnar út, og er ég honum sammála um þetta. Ef það á annað borð er nauðsynlegt að gera einhverjar svipaðar ráðstafanir og hér er um að ræða, álít ég, að það mundi hafa almennari og meiri þýðingu, ef hægt væri að fara inn á þessa braut og færa skuldirnar ýmist niður eða strika þær alveg út, eftir því sem sýnt hætti í hverju tilfelli. En til þessa þarf mikið fé, og um það er ekki í annað hús að venda en til ríkissjóðs, en hvar hann eigi að taka þetta fé, er mér ekki ljóst. En það liggur í augum uppi, að meiri líkur eru til þess, að slíkar ráðstafanir komi að notum en það kák, sem hér er á ferðinni. Þessi er og sú leiðin, sem Danir munu nú helzt hallast að til úrlausnar í þessum efnum, því að eftir því, sem síðustu blöð herma, eru þeir fallnir frá greiðslufrestshugmyndinni. Og það er þó ekki einasta, að hér sé um kák að ræða, heldur geta þessar ráðstafanir einnig dregið mjög þungan dilk á eftir sér. Það er misskilningur hjá hv. frsm., að ég haldi því fram, að ef frv. verði að 1., muni það hafa mikil áhrif fyrir skuldheimtumenn almennt, og hefi ég reyndar drepið á það áður, að ég geri ekki ráð fyrir því, að það verði almennt, að menn noti sér ákvæði frv., jafnvel þó þeir hafi skilyrði til þess. Vaxtabyrðin er auk þess í mörgum tilfellum meginhlutinn af hinum umsömdu greiðslum; svo er það t. d. í fasteignastofnunum. Þar er fyrstu árin mikill meiri hl. hinna árlegu greiðslna vextir. Í annari fasteignalánastofnuninni hér, Búnaðarbankanum, eru flest lánin ung, 7–8 ára gömul — þau elztu — og eru vextirnir því aðalatriðið. Það gegnir dálítið öðru máli um Landsbankann, því að veðdeild hans hefir starfað svo lengi, að í mörgum tilfellum má vera, að afborganir séu orðnar meiri en vextirnir. Hvað aðrar lánsstofnanir snertir, þá býst ég við, að þeim þyki gott, ef þær fá vextina.