18.05.1932
Efri deild: 77. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2236 í B-deild Alþingistíðinda. (2536)

256. mál, gjaldfrestur bænda og bátaútvegsmanna

Jón Þorláksson:

Ég vil fyrir mitt leyti taka því málefni vel, sem felst í frv. þessu. Ég geri ráð fyrir, að eins og nú standa sakir, geti verið nokkuð réttar ástæður til þess að tryggja hina smærri atvinnurekendur, svo að þeir fái færi á að bíða betri tíma með greiðslur skulda sinna. En mál þetta er mjög vandasamt, eins og m. a. kom fram í aðfinnslum og aths. hv. 4. landsk. Vandinn liggur í því, að hér er farið fram á, að löggjöfin skapi greiðslufrest fyrir ákveðinn flokk skuldunauta. En það er nú svo, að ef farið er að gefa greiðslufrest einum lið í viðskiptakeðju þjóðfélagsins, þá berast áhrifin þegar í stað til annara aðilja í viðskiptakeðjunni.

Ég þekki dæmi þess, að á vandræðatímum hafi löggjafarþing gripið til þess að lögleiða almennan greiðslufrest á skuldum. Það hefir hann kost fram yfir gjaldfrest á takmörkuðu sviði, eins og hér er um að ræða, að það nær til allra, svo enginn þarf að komast í greiðsluvandræði gagnvart sínum skuldunautum meðan fresturinn stendur. Ákvæði frv. þessa eiga að ná til sæmilega vel stæðra bænda og bátaútvegsmanna, ef þau skilyrði eru fyrir hendi, sem skilanefnd metur gild, og eingöngu miðast við höfuðstól þeirra skulda, sem stofnaðar eru fyrir 1. jan. 1932 vegna landbúnaðar og bátaútvegs. Verði það úr, að frv. þetta verði samþ., þá skellur gjaldfrestur sá, sem það veitir, á þeim, sem kröfu eiga. Í 2. málsgr. 16. gr. er gerð tilraun til þess að draga úr þeim alvarlegu afleiðingum, sem af því geta orðið, ef skuldunautur fær sér úrskurðaðan gjaldfrest, en kröfuhafi ekki, enda þótt hann þurfi hans eins með. En hv. landbn. leggur til, að þessi málsgr. falli burt. Það tel ég aftur svo varhugavert, að ég finn sérstaka ástæðu til að gera þá brtt. að umtalsefni.

Hv. 4. landsk. hefir borið fram sem ástæðu gegn þessari umræddu málsgr. frv., að einstakir kröfuhafar kaupmanna, kaupfélaga og lánsfélaga geti notað sér það, að eftir ákvæðum hennar megi ekki taka bú þeirra til gjaldþrotaskipta, og fengið úr þeim greiðslur, er gætu orðið til tjóns fyrir aðra skuldheimtumenn fyrirtækisins. Þetta er réttmæt aðfinnsla við gr. eins og hún er nú orðuð. Til þess að tryggja, að þetta geti ekki komið fyrir, þyrfti ef til vill að setja fyrirmæli um það, að þau fyrirtæki, sem ræðir um í þessari síðari málsgr. 16. gr. frv., mætti hvorki taka til gjaldþrotaskipta né heldur gera fjárnám hjá þeim. En ég vil með engu móti missa úr frv. þau ákvæði, sem vernda kröfueigendur frá gjaldþroti og stórkostlegu spelli, ef þeir vegna gjaldfrestsins geta ekki innheimt kröfur sínar. Það má vel vera, að það væri meira að segja þörf á að fara svo langt þeim til verndar, að heimila skilanefnd að úrskurða þeim gjaldfrest líka. Þá vil ég í þessu sambandi leiða athygli að því, að mér getur ekki betur skilizt en að þeir sjálfir, sem gjaldfrestsins eiga að njóta, séu að nokkru leyti í sömu hættunni og þau fyrirtæki, er verndar eiga að njóta af 2. málsgr. 16. gr. Mér skilst nefnil., að eftir ákvæðum frv. geti bændur t. d. ekki fengið sér úrskurðaðan gjaldfrest nema vegna þeirra lána, er þeir hafa stofnað til vegna búskaparins. Sama máli gegnir og um smábátatúvegsmenn. Þar eru skuldirnar miðaðar við útveginn. En nú getur það verið, að þessir menn hafi stofnað til skulda vegna ýmislegs annars, t. d. vegna náms barna sinna o. fl. þegar þannig stendur á, að menn skulda fjárhæðir óviðkomandi atvinnurekstrinum, þá skilst mér, að gera megi aðför hjá þeim vegna þeirra skulda, eftir því sem frv. er orðað nú, því að gjaldfresturinn er aðeins bundinn við hinar ákveðnu skuldir. Sé þetta rétt, þá ber að því sama eins og með fyrirtækin, sem um ræðir í 2. málsgr. 16. gr., að sumir skuldheimtumennirnir geti til fullnustu fengið kröfur sínar, jafnvel þó að efnahagurinn sé svo rýr, að aðrir fái ekki það, sem þeim ber. Ég held því, að ekki sé rétt að fylgja till. hv. landbn. um að fella niður þessa umræddu málsgr. 16. gr. frv. Það þarf að athuga þetta betur, bæði að því er snertir þá menn sjálfa, er njóta eiga gjaldfrestsins samkv. frv., og eins vegna þeirra fyrirækja, sem vegna gjaldfrestsins kunna að lenda í greiðsluörðugleikum, svo að aðrir geti ekki gengið að þeim.

Ég vil nú biðja hv. n. að taka þessar bendingar mínar til athugunar fyrir 3. umr., og ég hefði jafnvel fundið ástæðu til þess að fara fram í það við hana, að hún taki þessa brtt. sína á þskj. 754 aftur, svo að málsgr. mætti standa í frv., enda þótt á henni þurfi að gera breytingar.