18.05.1932
Efri deild: 77. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2238 í B-deild Alþingistíðinda. (2537)

256. mál, gjaldfrestur bænda og bátaútvegsmanna

Pétur Magnússon:

Það er fyrir minn atbeina, að landbn. hefir flutt þessa brtt. við 16. gr. frv., og er því ekki nema eðlilegt, að ég svari til saka. Ég skal jata, að ef þessi leið yrði farin, sem hv. 1. landsk. benti á, að setja inn í frv. ákvæði um það, að ekki megi gera aðför hjá þeim mönnum, sem vegna gjaldfrestsins lenda í greiðsluþroti, er bætt úr alvarlegustu ágöllum gr. En eins og hún er nú, þá nær hún engri átt, því að það getur ekki komið til máls, að einstakir lánardrottnar fái möguleika til þess að ganga eftir öllum kröfum sínum, en aðrir verði að líða um þær. Jafnvel þótt bætt yrði úr þessum galla á þennan hátt, væri ég samt deigur að samþ. gr., því að ég veit ekki, hvaða áhrif það gæti haft út á við, ef við færum að lögfesta þetta. Hugsum okkur t. d., að enskt firma seldi verzlun hér í Reykjavík saltfarm með freiðslufresti. Verzlunin lánaði svo saltið út, máske aðallega til smáútvegsmanna. Þegar svo að gjalddaga kæmi, ætti hún útistandandi hjá þeim nokkur þúsund eða máske tugi þúsunda, en þá hefðu þeir fengið sér úrskurðaðan gjaldfrest og greiddu verzluninni því ekkert af skuld sinni. Saltverzlunin myndi þá segja firmanu, að hún væri ekki svo stödd að geta gert þetta, úr því að skuldunautar hennar þyrftu ekki að greiða henni, og skjóta sér um leið undir ákvæði 2. málsgr. 16. gr. frv. Ég veit ekki, hvort þessu yrði tekið með þökkum. Ég er hvert á móti hræddur um, að það yrði litið svo á, að við byggjum við löggjöf, sem ekki væri sæmileg siðuðum þjóðum, er halda vilja vinsamlegum viðskiptum sín á milli. Og þangað til ég öðlast öruggari vitneskju um það, hvernig þetta fyrirkomulag myndi verka, er ég deigur að halda slíku ákvæði í lögum, sem felst í 2. málsgr. 16. gr, frv., jafnvel þótt bætt yrði úr mest áberandi göllunum.