18.05.1932
Efri deild: 77. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2240 í B-deild Alþingistíðinda. (2540)

256. mál, gjaldfrestur bænda og bátaútvegsmanna

Jón Baldvinsson:

Það má segja, að þeir tímar, er vér nú lifum á, eru óvenjulegir, enda er það mál, sem hér er á ferðinni, það líka. Það, sem einkum einkennir þetta frv., er það, að verið er með því að tryggja þá, sem atvinnurekstur hafa með höndum, fyrir því, að að þeim verði gengið, en hinir, sem engan atvinnurekstur hafa, eru látnir afskiptalausir.

Ég vil fyrst gera þá aths. við þetta frv., að mér skilst, að það geti valdið því, ef að l. verður, að kaupafólk og lögskráðir sjómenn, sem inni eiga af kaupi sínu frá árinu 1931, muni verða að bíða lengi eftir að fá það greitt. Það má nú vera, að ekki sé mikið um það, að kaupa- eða verkafólk eigi mikið af kaupi sínu ógreitt. En slíkt mun ekki óalgengt með þá sjómenn, er unnið hafa við bátaútveginn. Mér finnst slíkar kröfur falla undir ákvæði þessa frv., enda þótt kröfur sjómanna séu nú tryggðar með sjóveði. Þótt þær kröfur séu tryggðar og að þeirri tryggingu sé hægt að ganga, þá draga menn það oft í þeirri von, að þeir fái aftur pláss hjá sama útvegi. Þeir bíða þess vegna með að fá sér tildæmdar kröfur sínar, þótt þeim sé það auðvelt. Ég tel, að þetta mál þurfi vel að athuga, og mér virðist frv. fyrst og fremst stefna að því að styðja þá, sem betur eru settir í þjóðfélaginu og hafa yfir atvinnutækjum að ráða, en hinum er enginn stuðningur ætlaður.

Ég vil þá benda á ýmislegt annað, sem gerir þetta frv. athugavert í mínum augum. Ég sé ekki betur en að þeir, sem nota sár gjaldfrestsákvæði frv., komist í sérstaka aðstöðu í þjóðfélaginu. Ég geri sem sé ráð fyrir því, að þegar einstaklingar þeir, sem nota sér l., hafa fengið gjaldfrest, þá muni stuðningsmenn þeirra, er þeir hafa áður leitað til, og bankastofnanir, sem hafa veitt þeim fé til atvinnurekstrar, kippa að sér hendinni. Ég er hræddur um, að þeir menn verði álitnir vera komnir undir ákvæði skiptalaganna og að ekki verði talið þorandi að lána þeim mönnum neitt. Ég er hræddur um, að þetta komi fram. Og þó getur verið alveg nauðsynlegt, að þeim sé veitt lán, til að firra þá meiri skaða en nauðsyn er á að þeir bíði.

Enn er eitt, sem má nefna. Nú hefir þessum mönnum verið veitt lán á árinu 1931 út á fisk, bæði veiddan og óveiddan. Þetta lán eiga þeir að greiða jafnótt og fiskurinn selst. En nú selst hann ekki fyrr en á þessu ári, og jafnvel ekki fyrr en á árinu 1933. Hvernig á nú að fara með þetta? — Mér finnst, að um þetta þurfi að vera alveg sérstök ákvæði. Bankarnir hafa lánað gegn þessu veði, og ef lántakendum er veitt undanþága um greiðslu skuldanna, þá getur það leitt til kæruleysis fyrir þeim að standa í skilum, sem lítinn áhuga hafa fyrir því að borga skuldir sínar. Ég hygg því, að þetta gæti orðið misbrúkað. Sama verður uppi gagnvart öðrum þeim, er lána til útgerðar. Það er t. d. almennt, að óhjákvæmilegt er að fá að láni salt, veiðarfæri og olíu. Flestar slíkar skuldir, sem stofnaðar voru síðari hluta ársins 1931, eru enn ógreiddar. Helzt má vera, að olían sé greidd nokkuð jöfnum höndum, en þó munu þar líka vera skuldir frá hausti eða fyrri hluta síðastl. vetrar. Fyrir öllum slíkum lánum bæði frá bönkum og öðrum stofnunum stendur afli, sem ekki er seldur. Ég tel því óhjákvæmilegt að bæta ákvæði í frv. um, að óseldur afli gangi til að greiða þær skuldir, sem hann er að veði fyrir, jafnótt og verð fæst fyrir hann. Ef ekki er séð fyrir því, þá mundi það blátt áfram verða til þess, að fjöldi mótorbáta myndi ekki geta gengið næsta vetur. Til þess að koma þeim af stað, er nauðsynlegt að geta fengið lán út á væntanlegan afla, en slík lán mundi enginn þora að veita, nema tryggilega sé um þetta búið. Fáir eru svo efnum búnir, að þeir geti gert út án þess að fá lán til þess að koma bátunum af stað. Og langflestir bátarnir eru ekki stærri en svo, að þeir myndu falla undir þetta ákvæði. Eitthvað 20–30 bátar alls eru svo stórir, að þeir myndu verða utan við ákvæði frv. Ég held nú satt að segja, að ekki verði gengið svo harkalega að mönnum á þessum tímum, sem nú standa yfir, hvorki af lánsstofnunum, svo sem sparisjóðum og bönkum, né heldur af öðrum stofnunum, t. d. kaupfélögunum, að fyrir þær sakir sé nauðsynlegt að setja l. um greiðslufrest. Það, sem fært hefir verið fram sem mikilvægust ástæða fyrir frv., er innheimta skulda vegna fyrirtækja, sem hætta störfum, ef óprúttnir menn hafa á hendi innheimtuna. Af slíku getur vitanlega stafað stórfelld hætta. En um það atriði út af fyrir sig væri þá rétt að setja sérstaka löggjöf, sem næði yfir það eitt. Þeirra hluta vegna væri ekki þörf á jafnalmennu lagaboði eins og þetta frv. er.

Ég vék að því áðan, að þeir, sem notfæra sér ákvæði þessa frv., ef að l. verður, mundu öðlast sérstaka aðstöðu í þjóðfélaginu. Þeir yrðu eins og merktir menn, sem ganga mundi verr að fá lán. Þeir ættu sennilega svo erfitt með það, að nauðsynlegt mundi að tryggja þeim aðgang að lánum, með því að tryggja þau sem forgangskröfur. Ef t. d. eigendur mótorbáta geta ekki vátryggt báta sína, sem veðettir eru fyrir lánum, yrði veðhafi að leggja fram fé í vátrygginguna. Væri hann eftir frv. almennur kröfuhafi fyrir slíku fé, sem þó er óhjákvæmilegt að leggja fram. Ég bendi á þetta til athugunar, og sömuleiðis á forgangskröfur verkafólks, sem það hefir eftir sérstökum lögum. Ég vil beina því til n., að hún taki þetta til athugunar. Ég held, að heppilegast væri, að málið verði tekið út af dagskrá nú og það athugað betur áður en 2. umr. er lokið. Það er auðveldara að koma fram með víðtækar efnisbreyt., sem samþ. eru, við 2. umr., heldur en að geyma þær til 3. umr. Það vill oft fara svo, þegar slíkar breyt. eru settar inn í frv., að ekki er gætt sem skyldi að þær falli inn í frv., svo að fullt samræmi verði. Er þá hægt að tefla frv. og laga það, sem aflaga hefir farið, við 3. umr. Alltaf er hætt við, að eitthvað skolist og ákvæðin rekist á. (Forseti: Þar sem fundartími er nú þrotinn, verð ég að mælast til þess, að hv. þm., ef hann á mikið eftir, fresti ræðu sinni þar til síðar). Ég á eftir að minnast á nokkur atriði. Mun ég því, að tilmælum hæstv. fors., fresta ræðu minni, og geymi mér rétt til að halda henni áfram síðar.