26.05.1932
Efri deild: 84. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2244 í B-deild Alþingistíðinda. (2545)

256. mál, gjaldfrestur bænda og bátaútvegsmanna

Jón Baldvinsson. Ég varð að stöðvast í miðri ræðu, er frv. þetta var á dagskrá síðast. Ég var þá að tala um 16. gr. Ég get haldið áfram að tala um þau atriði, er ég vildi þá gera að umtalsefni, enda þótt málið horfi nokkuð öðruvísi við nú, eftir þær brtt., sem hv. landbn. hefir borið fram, þar sem hún m. a. leggur til, að ákvæði 16. gr. verði þrengt. En þar sem óvíst er um, hvort þær brtt. verða samþ., þá get ég haldið áfram mínum aths. við frv.

Þar sem 16. gr. heimilar fjmrh. að greiða 200 þús. kr. til þeirra stofnana, sem verða fyrir erfiðleikum vegna innlausnar vaxtabréfa, er þær hafa gefið út, mun vera átt við veðdeildir Landsbankans og Búnaðarbankans, og sennilega hin gömlu vaxtabréf Íslandsbanka og vaxtabréf Ræktunarsjóðs. En hér getur fleira komið til greina, sem valdið getur óþægindum. Skal ég nefna það, að oft hafa mótorbátar verið keyptir frá útlöndum á þann hátt, að fenginn hefir verið gjaldfrestur á andvirði þeirra til 1, 2 eða 3 ára. Hafa þá bankarnir oft tekið ábyrgð á greiðslunni. Er því hér um skuldir að ræða hjá bátaeigendum, sem falla mundu undir ákvæði frv., en bankarnir þó verða að standa skil á. Sýnir þetta, að fleira getur komið til álita í sambandi við þetta ákvæði en hin innlendu vaxtabréf. Um þetta þyrfti að bæta ákvæði í frv.

Ég var búinn að geta þess, að mér þætti frv. þetta vera hlutdrægt, þar sem það tekur aðeins yfir tvær stéttir í þjóðfélaginu. Ég álít, að það ætti einnig að ná til verkamanna- og sjómannastéttanna. Það liggur þó í hlutarins eðli, að hægt er af þeim að taka nauðsynlega búshluti og annað, sem þeim er nauðsynlegt að hafa vegna sinnar atvinnu. hjá þeim getur einnig verið um skuldir að ræða, svo sem ógreidda húsaleigu og annað, sem réttmætt væri að veita greiðslufrest á, ekki síður en á því, sem frv. nú nær yfir. Þess ber einnig að gæta, að verkamenn og sjómenn geta komizt undir það ákvæði frv. að greiðsla á eftirstöðvum kaups þeirra og hluta þeirra af afla verði stöðvuð. Að þessu athuguðu hefi ég borið fram brtt. við 16. gr. um það, að ákvæði þessa frv., ef það verður lögfest, nái eigi að því er gjaldfrest snertir til skulda, er stafa af ógreiddu verkakaupi eða ógreiddum aflahlut. Það er alveg víst, að ekki alllítið af slíkum skuldum er stofnað fyrir árslok 1931, er teljast myndi til höfuðstóls skulda samkv. 1. gr. Er því sjálfsagt að samþ. þessa brtt. Einnig álít ég, að sjálfsagt væri að breyta svo 1. gr. frv., að ákvæði hennar verði einnig látin ná til hinna fjölmennu stétta, er ég hefi nefnt, verkamanna og sjómanna. Vil ég beina því til hv. landbn., hvort hún vill ekki koma fram með slíka brtt. fyrir 3. umr. Treysti hún sér ekki til þess, mun ég gera það.

Ég er ekki alveg viss um, að brtt. hv. landbn. séu í samræmi við álit og till. þeirra manna, er hún leitaði ráða hjá. Ég var ekki viðlátinn og heyrði því ekki alla ræðu hv. frsm. Ég hygg, að brtt. n. fullnægi ekki því viðtali og till., er n. bárust. Að þessu sinni skal ég þó ekki fara lengra út í það, en æski aðeins, að brtt. mín við 16. gr. verði samþ. Mun ég svo taka frv. til nánari athugunar fyrir 3. umr. og gera þá við það þær brtt., sem mér þykir ástæða til vera, eftir því, hvaða afgreiðslu það fær við þessa umr.