26.05.1932
Efri deild: 84. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2252 í B-deild Alþingistíðinda. (2549)

256. mál, gjaldfrestur bænda og bátaútvegsmanna

Jón Jónsson:

Þetta frv. er eiginlega eina málið, sem verið hefir til meðferðar á þessu þingi, sem getur talizt veruleg kreppuráðstöfun og miðar í þá átt að hjálpa nokkrum hluta þjóðarinnar alveg sérstaklega í þessum örðugleikum. Væri því æskilegt, að það næði fram að ganga sem bezt úr garði gert.

Hv. 2. landsk. hélt því fram, að þetta frv. væri ekki nógu víðtækt, þannig, að það tæki ekki til eins margra stétta og vera bæri. Það kann vel að vera, að hv. þm. hafi hér nokkuð til síns máls, en það er þó ólíku saman að jafna um bændur og verkamenn, vegna þess að þegar verið er að veita bændum gjaldfrest, þá er það gert í því augnamiði, að þeir geti haldið atvinnurekstri sínum áfram, og það er það, sem okkur ríður mest á af öllu, svo að sem flestir af þeim, sem vinnufærir eru, geti haft eitthvað við að vinna. þessu veltur allt fyrir okkur. (JBald: Gott, að hv. þm. er nú farinn að tala eins og landsfaðir). Vitanlega eigum við allir að tala eins og landsfeður og hugsa um gagn landsins eins og við höfum vit og orku til. Með verkamanninn er nokkuð öðru máli að gegna en með bændur. Jafnvel þótt húsgögnin í stofunni hans væru af honum tekin, þá er hann þó ekki ófær til atvinnu sinnar framvegis eins og óbundinn, ef bústofn hans er tekinn af honum. En svo vil ég líka benda á það, að með þeirri breyt., sem á þessu þingi var gerð á lögum um aðför, þá var nokkuð hækkuð sú upphæð, sem er lögtaksfrjáls. Með því eru ástæður verkafólks mikið bættar frá því, sem nú er.

Það má segja, að það sé neyðarúrræði að taka smábátaútveginn út úr þessu frv., en það er gert samkv. eindregnum kröfum frá öllum bönkum landsins, sem telja það svo vandasamt mál að veita þeim þennan frest, og jafnvel stórhættulegt fyrir bankana, að ekki sé fært að ganga þá leið. Nú vil ég benda hv. 2. landsk. á það, að þar sem brtt. hans að miklu leyti við bátaútveginn, þá getur hún ekki átt við, ef sú brtt. n. verður samþ., að bátaútvegurinn verði tekinn út úr frv. Ég vildi því helzt, að hv. þm. vildi taka brtt. aftur til 3. umr. og bera þá heldur fram brtt., sem á fullkomlega við frv. eins og það verður þá.

Annars held ég, að ekki sé mikil þörf á að samþ. þessa till. hv. þm., ef frv. á aðeins að ná til bænda. Till. fellur því í raun og veru um sjálfa sig, ef bátaútvegurinn verður tekinn út úr frv. Það er sem betur fer, að þess eru ekki mörg dæmi, að það standi upp á bændur með kaupgreiðslur. Þeir klífa þrítugan hamarinn til að standa þar í skilum. Ég vona því. að hv. þm. taki brtt. sína aftur, ef brtt. n. verður samþ., því að þá á hans brtt. ekki lengur við, og er þar að auki óþörf. Hv. þm. vill ekki hafa skilanefnd í hverri sýslu. Þetta getur auðvitað orkað tvímælis, en það, sem vakti fyrir n. með því að vilja hafa skilanefnd í hverri sýslu, var það, að þá hafa skilanefndirnar miklu meiri kunnugleika á öllum högum bænda heldur en ef skilanefndin væri aðeins ein og hefði aðsetur í Rvík. Hún gæti ekki farið eftir neinu nema opinberum plöggum, skattskýrslum og öðru slíku, en ef skilanefnd er í hverri sýslu, þá gætu þær, auk þess sem þær fengju þessi skjöl í sínar hendur, aflað sér miklu nákvæmari upplýsinga en hægt er að fá úr opinberunt skýrslum. Þess vegna komst n. að þeirri niðurstöðu, að heppilegra væri að hafa skilanefndirnar þetta margar.

Þá vildi ég víkja lítilsháttar að því, sem hv. l. landsk. sagði. Hann virtist lita hornauga til brtt. frá landbn. við síðari málsgr. 16. gr., um það að fella úr gr. orðin „verða bú þeirra þá “, og setja í staðinn þessa setningu: Getur atvmrh. þá úrskurðað, að bú þeirra verði o. s. frv.

Ég held það sé rétt hjá hv. 4. landsk., að það séu traustsspjöll fyrir verzlunarfyrirtæki út á við, að gjaldfrestsákvæðin verði látin ná til þeirra. Auk þess álít ég, að það sé lítils virði fyrir verzlunarfyrirtæki að fá slíkan gjaldfrest, nema bú þeirra séu svo vel stæð, að þau eigi fyrir skuldum. Enda yrði ekki gengið að stærri verzlunarfyrirtækjum, ef þau eiga fyrir skuldum. Ég held, að n. hafi einmitt komizt að heppilegri niðurstöðu í till. sinni um að heimila ráðh. að veita þessum fyrirtækjum gjaldfrest, ef ástæða er til.

Hv. 1. landsk. virðist sjá ógurleg ljón á veginum í þessari brtt. n. Hann virðist ganga út frá því, að stj. hljóti að sýna hlutdrægni í meðferð þessarar heimildar og mundi aðeins veita kaupfélögum gjaldfrest, en ekki kaupmönnum. Ef það er sjálfsagt að ganga út frá því, að atvmrh. sýni hlutdrægni í þessu efni, þá hygg ég, að það geti farið eftir því, hver skipar það sæti, hverjir fyrir hlutdrægninni verða. Ég tek t. d., ef hv. 1. landsk. yrði atvmrh., þá megi treysta því, að kaupmennirnir verði ekki hafðir útundan. Annars skal ég taka það fram, að ég hefi ekki trú á því, að atvmrh., hver sem hann verður, sýni hlutdrægni í þessu máli. (JónÞ: „Mikil er trú þín“). Já hún er það mikil, að mér finnst ekki ástæða til að vantreysta stjórn landsins í þessu efni. Ég lít svo á, að þessi brtt. n. sé til bóta og því sé réttast að samþ. hana, þó að ég viðurkenni, að hún er ekkert stórt atriði. Þegar á það er litið, að þetta mal, sem hér er til umr., er eiginlega eina málið á þessu þingi, sem telja má, að sé fram komið sem kreppuráðstöfun til hjálpar bændum landsins, þá vil ég vona, að hv. þd. láti ekki það ólán henda sig að drepa þessa viðleitni til aðstoðar bændum gegn kreppunni, en sjái sér fært að greiða götu frv. með því að samþ. það. Má varla minni árangur vera af 100 daga starfi þessa þings.