28.05.1932
Efri deild: 86. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2264 í B-deild Alþingistíðinda. (2562)

256. mál, gjaldfrestur bænda og bátaútvegsmanna

Jón Baldvinsson:

Ég greiddi því atkv. við 2. umr. að fella bátaútveginn úr frv. Ég áleit, að ef tækist að höggva af því greinarnar, mundi frekar takast að fella frv. í heild. Ég áleit, að ef bátaútvegsmenn væru með, þá væri með frv. stofnað til vandræða, eins og ég raunar óttast um frv. yfir höfuð að tala. Þess vegna mun ég sæta lagi með að fella það, þegar kostur er á. En ef á að fara þá leið að taka eina stétt í landinu út úr og láta frv. gilda fyrir hana, þá tel ég það ranglæti, sem ég get ekki fellt mig við, og þess vegna hefi ég nú flutt þær brtt, sem hér liggja fyrir, um að taka til viðbótar bændastéttinni tvær fjölmennustu stéttir landsins þar fyrir utan, verkamenn og sjómenn.

Mér skildist hv. 4. landsk. telja, að þetta frv. ætti ekki að ná nema til atvinnurekenda. Ef gengið er út frá því, að frv. verði til gagns, þá er a. m. k. hér um 3 fjölmennustu stéttirnar að ræða, bændur, verkamenn og sjómenn. Ég sé því ekki, að hér sé um neina mótsögn hjá mér að ræða, enda hefi ég boðað þessar brtt. mínar frá upphafi.

Að öðruvísi hagi til um verkamenn og sjómenn heldur en bændur, vegna þess að þörf þeirra fyrir greiðslufrest sé minni en bændanna, er tómur misskilningur. Ég hygg, að þessum mönnum verði engu síður erfitt, ef að þeim er gengið, að halda áfram sinni atvinnu heldur en bændunum. Þó að bóndi flosni upp vegna skulda, eru möguleikar fyrir hann að setjast annarsstaðar að með búskap. Aftur getur atvinna verkamanns, sem gengið er að og allt af tekið, skýli auk heldur annað, komizt á slíka ringulreið, að hann verði ófær til að sjá fyrir sér og sínu skylduliði. Hygg ég, að í reyndinni sé hér ekki mikill munur á.

Í samræmi við það, sem ég hefi nú sagt, mun ég fyrst greiða atkv. með rökst. dagskrá hv. 4. landsk. Ég álít, að ef nokkuð er hægt að gera í þessu máli, þá sé það allt annað en þetta, sem í frv. stendur. Ég get hugsað, að það kæmi að góðu gagni að skipa eina skilanefnd fyrir allt landið, sem t. d. sæti hér í Rvík, og veitt yrði síðan úr ríkissjóði nokkur fjárfúlga til þess að standast þann kostnað, sem leiddi af ákvæðum skilan. um samninga milli lánsstofnana og skuldunauta. Slík skilanefnd fyrir allt landið hygg ég að mundi gera gagn.

Ég vil nota tækifærið nú til að benda hv. frsm. landbn., sem ég sé, að nú er að kveðja sér hljóðs, á þessa leið, með tilliti til þess, að í hans kjördæmi munu vera heilir hreppar, sem munu óska eftir því að semja í einu lagi við lánardrottna sína. Ég þykist sjá, að þessir hreppar muni þurfa á aurum að halda til þess að geta gert slíka nauðasamninga. Ég veit ekki, hve mikla fjárhæð muni þurfa til þessa, en þó mun það vera allmikið. frv. er stungið upp á, að ríkissjóður veiti 200 þús. kr. vegna afleiðinga, sem frv. gæti haft fyrir lánstofnanir. Þar er ráðgert, að ríkissjóður leggi fram allstóra fjárfúlgu án þess að skuldunautar hafi beint gagn af eða megi létta skuldabyrðina að mun. Ef ríkið á annað borð ætlar að leggja fram svona mikið fé, þá hygg ég, að réttara sé, að því fé sé varið til þess, að aðþrengd héruð geti komizt að heppilegum samningum um greiðslu skuldafjár íbúa sinna.