28.05.1932
Efri deild: 86. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2265 í B-deild Alþingistíðinda. (2565)

256. mál, gjaldfrestur bænda og bátaútvegsmanna

Jón Þorláksson:

Ég held, að varla verði um það deilt, ef á annað borð talizt þörf fyrir slíka löggjöf sem þessa, að þá sé hennar alveg sérstaklega þörf handa þeim mönnum, er stunda landbúnað, vegna þess, að þegar gengið er að bónda, sem hefir bú og lifir af því, þá þýðir gjaldþrotakrafa á hann nokkurnveginn undantekningarlaust það, að hann verður að yfirgefa sitt heimili og sína atvinnu. Slíkar búsifjar verða bændum í öllum tilfellum miklu tilfinnanlegri heldur en öðrum borgurum þjóðfélagsins, er stunda aðra atvinnuvegi, því að aðför gegn þeim hefir venjulega ekki í för með sér þær afleiðingar, að þeir þurfi að yfirgefa sína atvinnu, nema þá stærri atvinnurekendur, sem þó frekar en bændurnir hafa möguleika til þess að koma fótum fyrir sig á ný. Aðför og gjaldþrotakrafa mun ekki hafa líkt því eins mikla röskun í för með sér á högum verkamanna og sjómanna eins og bændanna, sem í slíkum tilfellum missa ekki aðeins bústofn sinn, heldur einnig jarðnæði og önnur skilyrði til þess að reka atvinnu sína. Nú finnst mér sem ákvæði þessa frv. muni koma þeim að gagni, sem ætlað er að verða þeirra aðnjótandi. Ég get ekki annað en tekið það trúanlegt, að víða í sveitum muni ástandið vera svo, að þessa gjaldfrests sé full þörf, og þess vegna sé rétt að gera frv. að lögum. Hitt er mér ljóst, að svo geti farið. að afleiðingarnar af þessu frv., ef að lögum verður, geti orðið nokkuð á annan veg fyrir bændastéttina heldur en gert er ráð fyrir. Ég er nefnilega dálítið hræddur um það, að af óttanum við, að ekki verði við þessi lög látið sitja, heldur séu þau aðeins fyrsta sporið í nýja stefnu í þessu efni, geti farið svo, að lánardrottnar verði tregari en áður að veita bændum ný lán, af ótta við það, að ákvæði frv. verði framlengd eitthvað fyrst um sinn og verði jafnvel ekki aðeins látin ná til skulda, sem stofnaðar voru um síðustu áramót, heldur einnig til þeirra skulda, er síðan og hér eftir kunna að myndast. Komi upp slíkur ótti meðal lánardrottna, er mjög líklegt, að þeir verði tregari en áður á lánveitingar til þeirra stétta, sem löggjafarvaldið hefir þannig skapað sérstöðu í þjóðfélaginu.

Lánveitendur hafa yfirleitt ekki kunnugleika til þess að kynna sér það, hverjir meðal bænda það eru, sem líklegir séu til að komast undir þessi lög eða ekki ég munu þau því eðlilega verða til þess að rýra lántökumöguleika bænda yfir höfuð.

Ég er ekki viss um, að það sé ógæfa fyrir bændastéttina, þótt af þessu leiddi allharðar útlánshömlur hjá verzlunum á yfirstandandi ári. En ég lít með miklu meiri ugg á afleiðingarnar fyrir aðrar stéttir — verkamenn og sjómenn —, ef farið væri að draga þær undir þessa löggjöf. Ég er hræddur um, að þeir yrðu fáir úr þeim stéttum, sem yrðu hlunnindanna aðnjótandi af löggjöfinni, en hræddari um hitt, að sú takmörkun á útlánum, sem þessar stéttir yrðu fyrir við að komast undir slíka löggjöf, myndi verða þeim mjög tilfinnanleg, og e. t. v. allt að því óbærileg. Ég veit ekki, hvernig fer um verkamenn og sjómenn í þurrabúðarplássunum, ef verzlanir kippa að sér hendinni um lán. Það getur haft mjög skaðlegar afleiðingar, og ég fyrir mitt leyti vildi, með hagsmuni þessara stétta fyrir augum, ekki stuðla að því, að þær yrðu dregnar inn undir þessa löggjöf. Það er þannig um bóndann, að þótt honum sé neitað um lán, þá hefir hann lengst af eitthvað til nauðsynlegra þarfa. Hann hefir eitthvað til að borða og eitthvað til að klæða heimilið með; en þetta hefir verkamaðurinn og sjómaðurinn ekki. Ef þeim er neitað um lán, verður fyrsta afleiðing þess sú, að skortur verður á lífsnauðsynjum á heimilinu. Þótt ég sé bannig í vafa um, hvort meira vegur, þegar á heildina er litið, ávinningur eða halli af slíkri löggjöf, þá vil ég samt leggja mitt atkv. til að gera þessa tilraun í þeirri mynd, sem frv. er nú i.

Viðvíkjandi skrifl. brtt. frá hv. 3. landsk., sem var lýst hér, þá vil ég láta það í ljós, að ég tel hana allsendis óþarfa, því að skuldir, sem stafa af ógreiddu verkakaupi, eru undanþegnar gjaldfresti þessara laga. Mér finnst, að óogreiddur aflahlutur hjá mönnum, sem hafa landbúnað að aðalatvinnuþegi, megi gjarnan vera undanþeginn líka. Það eru sjálfsagt æðimargir menn á landinu, sem hafa landbúnað að aðalatvinnu, og stunda þó eitthvað dálítið sjávarútveg, þar sem vel má vera um aflahlut að ræða. Get ég ekki séð nein rök fyrir þessari brtt. hv. þm., þót hún sé e. t. v. meinlaus.