28.05.1932
Efri deild: 86. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2274 í B-deild Alþingistíðinda. (2571)

256. mál, gjaldfrestur bænda og bátaútvegsmanna

Jón Þorláksson:

Ég tók undir aðfinnslur hv. 4. landsk. við 2. umr. og gerði tilraunir til þess að fá bætt úr því, sem hann benti á, að áfátt væri. Játa ég, að það hefir ekki tekizt nema að nokkru leyti, og þó eru þessir ágallar miklu minni en upphaflega voru í frv., nú, þegar bátaútvegsmenn eru fallnir undan ákvæðum þess. Hefi ég hugsað nokkuð um þessi atriði síðan og komizt að þeirri niðurstöðu, að gallarnir séu ekki svo hættulegir, að rétt sé að hafna því þeirra vegna.

Það er sennilega rétt hjá hv. 4. landsk., sem hann athugaði við 2. málsgr. 16. gr., að ekki er útlit fyrir, að einstakir skuldheimtumenn geti leitað fullnustu í eignum verzlunarfyrirtækja, sem koma undir þetta ákvæði gr., að bú þeirra skuli ekki tekið til gjaldþrotaskipta að þeim nauðugum, ef þau reynast eiga fyrir skuldum. Segjum, að svo fari nú, að skuldheimtumenn leiti fullnustu, og þyki hætta á, að fjárnámið hafi þau áhrif, að þetta fyrirtæki bíði slíkan hnekki, að það eigi ekki lengur fyrir skuldum, — já, þá er þetta verzlunarfyrirtæki þar með fallið undan ákvæðinu, svo að skuldheimtumenn hafa rétt til þess að krefjast gjaldþrotaskipta. Verður þá að gera ráðstafanir innan 8 vikna til þess að fá fjárnáminu riftað, og verður þá fyrirtækið ekki tekið til gjaldþrotaskipta. (PM: Hvar eru ákvæði um það?). Í sjálfri gr. stendur, að fyrirtækið verði að eiga fyrir skuldum til þess að geta fengið hann rétt, að búið verði ekki tekið til gjaldþrotaskipta að því nauðugu. Geri ég ráð fyrir, að þessi réttur standi ekki nema meðan fyrirtækin eiga fyrir skuldum. Játa ég að vísu, að það getur verið naumur frestur að koma þessu í kring innan 8 vikna, en þó má bíða og sjá, hvort þau vandkvæði koma í ljós, sem hv. 4. landsk. drap á. Sama hygg ég að gildi um skuldir hjá bændum, ef stofnaðar eru eftir 1. jan. 1932. Ef bóndi á ekki fyrir skuldum, lít ég svo á, að hann sé fallinn undan þessu ákvæði, og geti þá aðrir leitað fullnustu í búi hans. Held ég, að þessir annmarkar séu ekki eins miklir og hv. þm. heldur fram og megi því vel samþ. frv. þess vegna.