28.05.1932
Efri deild: 86. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2275 í B-deild Alþingistíðinda. (2572)

256. mál, gjaldfrestur bænda og bátaútvegsmanna

Pétur Magnússon:

Ég vil aðeins benda hv. 1. landsk. á það, að riftunarreglur gjaldþrotaskiptalaganna miðast ekki við aldur aðfararinnar, heldur málssóknarinnar. Ef nægjanlega langur tími er liðinn frá því mál það var höfðað, sem til aðfararheimildar leiðir, heldur fjárnám gildi, þó að skuldunautur síðar verði gjaldþrota. Þar, sem svo stendur á, koma gjaldþrotaskiptin öðrum skuldheimtumönnum því ekki að neinu gagni, og stendur þannig óhaggað það, sem ég hefi haldið fram, að ákvæði þetta opnar leiðir til að auðga vissa skuldheimtumenn á annara kostnað.