31.05.1932
Neðri deild: 88. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2276 í B-deild Alþingistíðinda. (2577)

256. mál, gjaldfrestur bænda og bátaútvegsmanna

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Þetta frv. er nú komið aftur frá Ed. eftir langa og nokkuð harða meðferð þar.

Ég hefi ekki haft tækifæri til að bera breyt. Ed. undir þá, sem með mér eru í landbn., og get því ekki talað hér fyrir hönd meðnm. minna, en fyrir sjálfan mig vil ég skýra frá því, að ég legg til, að frv. verði samþ. óbreytt. Aðalbreyt., sem Ed. gerði á frv., er sú, að ákvæði þess skuli ekki taka til bátaútvegsmanna. Eins og hv. þdm. muna, var talsverður ágreiningur um þetta atriði hér í Nd. Ég tel það talsverða skemmd á frv., að bátaútvegurinn skuli vera tekinn svona út úr. Hinsvegar vil ég ekki leggja það til nú, að hann verði tekinn inn í frv. aftur, því að með því er frv. stofnað í mikla hættu. Legg ég því til, að frv. verði samþ. óbreytt.

Þá hefir verið bætt nýrri gr. inn í frv., 17. gr., þar sem það er tekið fram, að tímabilið frá afhendingu gjaldfrestsbeiðnar til loka hins úrskurðaða frests teljist ekki með fyrningartíma skulda eða víxilréttar. Ég býst við, að þetta ákvæði sé nauðsynlegt, jafnvel þó að það standi í lögunum um fyrningu skulda og hægt sé að fyrirbyggja fyrningu með sérstakri aðferð, sem þar er lögleidd. En því fylgir nokkur fyrirhöfn, og er því betra, að ákvæði um það sé sett í þessi lög.

Þá hefir því og verið bætt við niðurlag 16 gr., að þessi lög taki ekki til skulda, er stafa af ógreiddu verkakaupi eða ógreiddum aflahlut. Þetta með aflahlutinn hefir vitanlega litla þýðingu, eftir að bátaútvegurinn var tekinn út úr frv., og ég hygg, að það hafi einnig mjög litla þýðingu, þó að tekið sé fram, að lögin skuli ekki heldur ná til ógreidds verkakaups, því að það mun vera mjög óalgengt, að bændur greiði ekki verkakaup strax. Hinsvegar tel ég enga ástæðu til að amast við þessu ákvæði. Aðrar breyt., sem gerðar hafa verið á frv., tel ég mjög lítilsverðar, og tekur ekki að minnast á þær. Með tilliti til alls þessa legg ég til, að frv. verði samþ. eins og það liggur nú fyrir.