15.04.1932
Neðri deild: 52. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2279 í B-deild Alþingistíðinda. (2584)

245. mál, byggingarsamvinnufélög

Flm. (Steingrímur Steinþórsson):

Ég hefi leyft mér ásamt hv. þm. Dal. að flytja hér frv. á þskj. 245 um byggingarsamvinnufélög. Skal ég ekki halda langa ræðu fyrir frv. að þessu sinni. Öllum er það kunnugt, að sæmilegar byggingar eru ein hin helztu menningarskilyrði, en við erum svo settir, sem þetta land byggjum, að við eigum erfitt með að uppfylla þessi skilyrði, því að allar byggingar hér á landi, hvort sem er yfir menn eða búpening, þurfa að vera mjög vandaðar vegna veðráttunnar og verða af þeim ástæðum tiltölulega dýrari en annarsstaðar, auk þess sem það kemur og hér til, að við verðum að flytja inn meginhluta alls byggingarefnis, sem við notum, og gerir þetta byggingarnar enn dýrari. Það er því að ýmsu leyti vandasamt að leysa úr þessum málum.

Rétta frv. er tilraun til að færa byggingarmálin yfir á svið samvinnunnar, með því að koma á skipulagsbundnum félagsskap með mönnum um húsabyggingar, er starfi á samvinnugrundvelli. Til þessa hefir veðdeild Landsbankans einkum hjálpað til í þessum efnum með því að veita mönnum lán til bygginga. Sá öri vöxtur, sem verið hefir um húsabyggingar undanfarið við sjávarsíðuna, og þó einkum í Rvík, á aðallega rót sína að rekja til þess fjármagns, sem frá veðdeildinni hefir komið, og hefir ríkið stutt að þessu með því að taka lán til veðdeildarinnar í þessu skyni nokkrum sinnum. En mikils hefir þótt á skorta um það, að þessi starfsemi veðdeildarinnar væri rekin á eðlilegan hátt, og að fénu væri varið til hæfilegra bygginga, en ekki til lúksusbygginga einstakra manna. Liggur þó í hlutarins eðli, að ríkið getur ekki stutt að því, að komið sé upp dyrum lúksusbyggingum, heldur verður að snúa sér að því að koma upp hæfilegum byggingum og veita stuðning til þess. Er það virðingarverð tilraun í þessa átt, sem gerð hefir verið með verkamannabústöðunum, og eru nú hinir fyrstu verkamannabústaðir að risa upp hér í höfuðstað landsins. En þó að með þessu hafi verið stigið giftusamlegt spor til að leysa úr húsnæðisvandræðunum hér í Rvík, er þörfin samt svo mikil, að henni verður ekki fullnægt á þennan hatt eingöngu. Byggist hún of mikið á beinum framlögum úr ríkissjóði til þess, að hún geti orðið fullnægjandi. Eins og nú stendur eru húsabyggingar að kalla alveg stöðvaðar. Veðdeildin hefir ekkert fé til þessara hluta, og þótt menn geti fengið veðdeildarbréf, verða þeir að sæta því að fá féð að láni hjá einstökum mönnum, oft með óhagstæðum kjörum, því að afföll munu vera frá 1/3% upp í 1/2% á slíkum lánum í mörgum tilfellum. Liggur það í eðli hlutarins, hver áhrif þetta hefir á byggingarnar, sem þannig verða óeðlilega dýrar, og ef slíkar byggingar eru leigðar út, sem svo eru til komnar, verður húsaleigan óeðlilega há. Auk þess er þessu svo fyrir komið, að veðdeildarlánin fást þá fyrst, þegar búið er að reisa húsin, og af þeim ástæðum verður mönnum ókleift að komast að góðum kaupum á efni til bygginganna, eins og þeir gætu, ef hægt væri að greiða efnið um leið og kaup væru gerð. Á þennan hátt verður allt til þess að gera byggingar svo dýrar, að það er ofvaxið öllum nema efnuðum mönnum að ráðast í slíkar framkvæmdir. Tilgangur frv. er að reyna að leysa úr þessu með þeim hætti að veita mönnum aðstöðu til þess að draga saman fé í þessum tilgangi, sem ávaxtað sé í byggingarsjóðum félaganna, jafnframt því, sem ætlazt er til, að ríkisábyrgð verði tekin á nokkrum hluta af byggingarkostnaðinum. Skal ég ekki fara út í að ræða einstakar greinar frv. á þessu stigi málsins, en vil þó benda á það í þessu sambandi, að samkv. frv. er ætlazt til þess, að fjárins til byggingarstarfsemi félaganna verði aflað með frjálsum framlögum félagsmanna í stofnsjóð fyrst og fremst. Gefst ungum mönnum þannig kostur á að leggja fé til hliðar með það fyrir augum að reisa sér síðan sitt eigið hús. Einnig má búast við og virðist eðlilegt, að foreldrar í ýmsum tilfellum leggi í sjóði byggingarsamvinnufélaga fyrir börn sín. Þá er ennfremur svo ákveðið, að þegar félagsmaður hefir komið upp eigin húsi fyrir hjálp félagsins, skuli hann árlega greiða í stofnsjóð þess fjárhæð, sem nemur 1% af kostnaðarverði húsnæðis hans. Vil ég í þessu sambandi leiða athygli að því, að við prentunina hefir orðið „árlega“ fallið niður úr þessu ákvæði 3. gr. frv. — Svo er til ætlazt, að þegar menn hafa safnað saman sem nemur minnst 1/5 hluta andvirðis þess húsnæðis, sem þeir kjósa sér að koma upp, skuli félagið hjálpa þeim með það, sem á vantar, og taka lán í því skyni, enda komi ríkisábyrgð til um þessi lán, sem félagsmenn auk þess ábyrgjast sameiginlega. Með svona skipulagsbundnum félagsskap á að vera hægt að fá slík lán, ekki sízt þar sem ætlazt er til, að ríkisábyrgð standi fyrir þeim, og er þá ekki gert ráð fyrir, að ríkissjóður taki lán í þessu skyni, eins og þurft hefir að gera til veðdeildarinnar, heldur aðeins að ríkissjóður ábyrgist lánin innan þessa ramma.

Það má vera, að sum ákvæði frv. kunni að þykja orka tvímælis, t. d. þar sem ákveðið er, að stærð húsnæðis skuli ekki fara fram úr 5 herbergjum. Verður að vísu að ákveða eitthvað um þetta, en hvort hér sé miðað við heppilega stærð, getur verið álitamál, en það er þó mín skoðun, að okkar þjóðfélag hafi ekki efni á að stuðla að stærri byggingum. Þá er og gert ráð fyrir sambyggingum, til þess að gera byggingarnar ódýrari.

Þá vil ég vekja athygli á ákvæðum 9. gr., sem miða að því að fyrirbyggja brask og óeðlilega verðhækkun á húsunum. Er svo ákveðið, að söluverð húsanna megi ekki fara fram úr kostnaðarverði þeirra, að viðbættu virðingarverði þeirra umbóta, sem á húsunum kunna að hafa verið gerðar, en að frádreginni hæfilegri fyrningu, og er jafnframt tilskilið, að byggingarsamvinnufélögin hafi forkaupsrétt á húsunum. Álít ég þetta mjög mikilsvert atriði.

Ég skal ekki þreyta hv. d. með því að hafa þessi orð miklu fleiri. Frv. er fyrst og fremst miðað við staðhætti kaupstaða og þorpa, enda flutt fyrir atbeina manna hér í Rvík, sem hugsa sér að leysa úr húsnæðisvandræðunum á þennan hátt á grundvelli samvinnunnar. En þó að frv. sé þannig aðallega sniðið við þarfir þorpa og kaupstaða, get ég hugsað mér, að svipað skipulag komi einnig til greina í sveitum landsins í framtíðinni, því að ég er þess fullviss, að hér eiga síðar eftir að rísa upp sveitaþorp með samvinnubúskap og sambyggingum fleiri og færri fjölskyldna. Ég er því ekki í neinum vafa um það, að hér er um framtíðarmál að ræða, sem á það skilið, að því sé veitt full athygli. Og ég vildi mega vænta þess, að málið fengi góðar undirtektir hér í d. og að það yrði athugað gaumgæfilega, hvort hér er ekki einmitt bent til réttrar lausnar á þessum málum.

Ég skal að lokum geta þess, að ef frv. verður samþ., eins og ég vona að verði, munum við flm. bera fram till. um breyt. á ríkisveðbankalögunum, sem samþ. voru á síðasta þingi, í þá átt, að skuldabréf byggingarsamvinnufélaganna gangi til jafns um kaup við skuldabréf veðdeilda Landsbankans, Búnaðarbankans og byggingarsjóðs verkamanna.

Í þeirri von, að frv. verði vísað til 2. umr., vil ég svo leyfa mér að leggja til, að frv. verði vísað til allshn.umr. lokinni.