14.05.1932
Neðri deild: 75. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2283 í B-deild Alþingistíðinda. (2591)

245. mál, byggingarsamvinnufélög

Frsm. (Sveinbjörn Högnason):

Það er ekki þörf á að ræða það almennt hér, hversu nauðsyn á því er mikil, að öllum almenningi sé gert það kleift að geta komið upp þaki yfir höfuð sér. Dýrtíð húsaleigunnar er eitt þyngsta bölið, sem við eigum við að stríða, a. m. k. hér í Rvík, og er því hin mesta nauðsyn á að finna eitthvert skipulag, sem dregur úr dýrtíðinni og léttir þær kvaðir, sem lagðar eru á almenning í þessum efnum. Þegar litið er til þess, hvernig ástandið er, er ekki ólíklegt, að miklu valdi hér um það skipulagsleysi, sem ríkir í byggingarmálum kaupstaðanna, og hið annað, sem miklu veldur um þetta efni, er vafalaust það, hversu erfitt hefir verið, einkum á síðustu tímum, að fá lánsfé með sæmilegum kjörum.

Þetta frv. er flutt með það fyrir augum að reyna að bæta úr þessum ágöllum. Stofnar það til skipulags á þessum málum, sem ætti að gera almenningi það ódýrara og aðgengilegra að eignast húsnæði en nú er, í því skipulagsleysi, sem ríkir í þessum efnum. Hefir svipaðri löggjöf verið komið á hjá ýmsum öðrum menningarþjóðum og reynzt mjög vel.

Frv. gerir ráð fyrir, að menn myndi með sér samvinnufélagsskap um byggingar, og er ætlazt til þess, að félagsmenn leggi fram 1/5, af verði þess húsnæðis, sem þeir vilja koma sér upp, en að afgangurinn fáist með hagkvæmum lánum, sem ríkissjóður stendur í ábyrgð fyrir. Reisir frv. þær skorður, sem frekast er unnt, við þessum ábyrgðum ríkissjóðs, en auðvitað má um það deila, hvort þær séu þó nógu miklar. N. var á einu máli um það, að það væri einkum þetta atriði frv., ábyrgðarskylda ríkissjóðs, sem sérstaklega væri athugavert, og bar hún það því undir hæstv. fjmrh., og hafði hann ekkert sérstakt að athuga við þessi ákvæði frv. — Enda þótt að sjálfsögðu megi alltaf deila um einstök fyrirkomulagsatriði í þessu efni, álítur n., að bót muni verða að frv., og leggur því til, að það verði samþ., en einstakir nm. hafa áskilið sér rétt til að hafa óbundin atkv. um þær brtt., sem fram kunna að koma við frv.

N. flytur tvær brtt. við frv., og er sit fyrri aðeins leiðrétting, að á milli orðanna í 3. gr. „félagsmaður“ og „í stofnsjóð“ komi: á ári. Eins og þetta ákvæði er í frv., mætti skilja það svo, að hér væri um að ræða gjald, sem borgað væri í eitt skipti fyrir öll, en sú er ekki meiningin, eins og reyndar liggur í augum uppi, og hefir n. því borið fram þessa brtt., til þess að fyrirbyggja allan misskilning í þessu efni.

Hin brtt. n. er við 6. gr. frv. og gengur út á það, að íbúðir, sem byggðar verða samkvæmt þessum lögum, megi vera með 2–4 herbergjum, í stað 2–5 herbergja, eins og þetta er ákveðið í frv. N. lítur svo á, og er það í samræmi við skoðanir hv. flm. á þessu atriði, að ekki sé ástæða til þess með þessari löggjöf að vera að létta undir með mönnum með að koma sér upp íbúðum með fleiri en fjórum herbergjum, auk eldhúss og annara nútímaþæginda, enda á hverri fjölskyldu, sem ekki gerir sér óhófskröfur í þessum efnum, að vera þetta nægilegt.

Sé ég svo ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum fyrir hönd n.