14.05.1932
Neðri deild: 75. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2287 í B-deild Alþingistíðinda. (2593)

245. mál, byggingarsamvinnufélög

Steingrímur Steinþórsson:

Ég stend ekki upp til þess að halda langa ræðu. Ég vil þakka hv. allshn. fyrir afgreiðslu hennar á þessu máli. Þær smávægilegu breyt., sem n. leggur til, að gerðar verði við frv., tel ég fremur til bóta. Aðalbreyt. er að lækka hámarkstölu herbergja í hverri íbúð úr 5 niður í 4. Þessu get ég verið samþykkur, því að hugmyndin með þessu frv. er ekki sú, að styrkja menn til þess að koma upp lúksusbyggingum, heldur aðeins hæfilegum íbúðum fyrir venjulegar fjölskyldur.

Hv. 3. þm. Reykv. var með dálitlar aðfinnslur við frv., án þess þó að hann legðist fast á móti því. Mér virtist hann óttast mest, að það myndi valda samkeppni við verkamannabústaðina, ef að lögum yrði. Það er nú svo, að hverjum þykir sinn fugl fagur, en ég skal þó fyllilega játa, að það merkilega fyrirtæki, verkamannabústaðirnir, virðist, hvað byrjunina snertir a. m. k. heppnast mjög vel, og er hv. 3. þm. Reykv. og þeim öðrum, sem hafa beitt sér fyrir því, til sóma. En ég er ekki sammála honum um það, að hægt sé að fullnægja byggingarþörf almennings hér í Rvík og víðar með þeirri aðferð eingöngu, nema ríkissjóður leggi fram því meira fé.

Hv. 3.þm. Reykv. hélt því fram, að ekki væri um bein framlög að ræða úr ríkissjóði til verkamannabústaðanna. Þetta fæ ég ekki skilið, því að bæði ríkið og bærinn leggja fé fram í þessu skyni, og hv. þm. telur, að auka verði við þau framlög. Hitt getur verið rétt, að lán þau, sem tekin hafa verið handa þeim verkamannabústöðum, sem nú er verið að reisa, séu ekki dýrari, en það, að fullir vextir séu af heim greiddir af félagsmönnum; en það haggar ekki við þeirri staðreynd, að ríkissjóður leggur bein fjárframlög til bústaðanna. Ég hygg, að hugmyndin um byggingarsamvinnufélög, á þeim grundvelli, sem frv. greinir, sé rétt og að við stefnum þar á rétta leið í byggingarmálum. Ég tel ekki, að nein óeðlileg samkeppni þurfi að verða á milli þessara tveggja byggingarfélaga, eins og hv. þm. virðist óttast. Þau stefna bæði í þá átt að koma upp hæfilegum byggingum fyrir þá menn, sem ekki geta byggt algerlega af eigin rammleik.

Þá vildi hv. 3. þm. Reykv. halda því fram, að ábyrgð sú, sem ríkissjóði er ætlað að taka á sig vegna byggingarsamvinnufélaga, væri meiri en ábyrgð hans fyrir verkamannabústaðina, og benti jafnframt á, að ekki væri fulltryggilega búið um áhættuna gagnvart ríkissjóði. En eins og hv. þm. benti sjálfur réttilega á, þá eru einmitt í frv. mikilsverð ákvæði, sem gera áhættu ríkisins vegna ábyrgðarinnar minni. Það má ekki veðsetja húsin fyrir meiru en 80% af upphaflegu kostnaðarverði þeirra; eru húsin því mikilsverð trygging fyrir ábyrgðinni, og auk þeirra er svo hin sameiginlega ábyrgð félagsmanna.

Það mun vera rétt hjá hv. þm., að eins og nú standa sakir sé ekki hægt að fá lán erlendis til slíkra bygginga sem þessara, en frv. er ætlað að vera framtíðarmál og má því ekki miðast eingöngu við yfirstandandi tíma. Ég er að sjálfsögðu fús til samvinnu um breyt. á frv., en þó um þær breyt. einar, sem ekki snerta aðalkjarna málsins. Ég fæ ekki skilið, að ekki sé hyggilegra fyrir ríkið að veita ábyrgð til þess, að menn geti komið upp byggingum, sem miðaðar eru við þörf fólksins og unnið er að eftir föstu skipulagi, heldur en að viðhalda því ástandi, sem verið hefir um aðallánsstofnun þá, sem lánað hefir til húsabygginga — veðdeild Landsbankans. Úr henni hefir ekki aðeins verið veitt fé til byggingar húsa, sem byggð hafa verið við hæfi fjölskyldnanna, heldur hefir miklu af fé hennar verið varið til þess að reisa skrauthýsi einstakra manna, þar sem hver íbúð kostar of fjár, stundum 100 þús. kr. eða meira. Einkum hefir þannig verið farið að hér í Rvík. Þannig hefir því verið farið með fé það, sem ríkið hefir beinlínis orðið að taka að láni handa veðdeildinni, en hér er aðeins farið fram á, að ríkið taki ábyrgð á láni til þess að koma upp íbúðum, sem miðaðar eru við þarfir fólksins, en það er og hlýtur að verða sú rétta lausn byggingarmalanna. Hitt er óviðeigandi, að ríkið styrki menn til þess að koma upp skrautbyggingum, sem kosta fleiri tugi og jafnvel hundruð þúsunda.

Sé ég svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða ollu frekar um þetta mál. Hv. 3. þm. Reykv. talaði um það af velvilja, en taldi, að verkamannabústaðirnir myndu fullnægja byggingarþörfinni, en eins og ég hefi tekið fram, tel ég enga óeðlilega samkeppni þurfa að verða á milli þeirra og þessara samvinnubygginga. Vil ég svo óska, að málið fái að ganga áfram. Eigi ég sæti á næsta þingi, mun ég gera mitt til þess að það komist fram, ef það næst ekki nú á þessu þingi.