03.06.1932
Efri deild: 93. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2297 í B-deild Alþingistíðinda. (2632)

88. mál, einkasala á tóbaki

Halldór Steinsson [óyfirl.]:

Af því að ég einn greiddi atkv. gegn frv. áðan við 2. umr., vil ég gera örstutta grein fyrir atkv. mínu.

Ég lít svo á, að ef hækka á verð á tóbaki frá þvi, sem nú er, þá mundi það hafa gagnstæð áhrif við það, sem ætlazt er til. Eins og vitanlegt er, hefir verð á tóbaki hækkað síðan tóbakseinkasalan tók til starfa, og mun það frá áramótum hafa numið um 20% og jafnvel meira hjá sumum smásölum. Þegar verðið er orðið eins hatt og nú, þá er meiri hætta á smyglun, og hækki það enn meira, má gera ráð fyrir talsvert meiri smyglun, enda hefi ég heyrt utan að mér, að frá áramótum hafi ekki borið svo lítið á því, að tóbaksvörum væri smyglað inn í landið. Ég álít því, að með nýrri hækkun muni draga úr þeim ágóða, sem ætlazt er til, að tóbakseinkasalan gefi, og greiði því atkv. gegn því, að frv. þetta verði að lögum.