14.04.1932
Neðri deild: 51. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2300 í B-deild Alþingistíðinda. (2641)

258. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Héðinn Valdimarsson [óyfirl.]:

Verð að hryggja hv. fjvn. með því að lýsa yfir því, að ég er algerlega á móti þessu frv., og skal ég nú með nokkrum orðum gera grein fyrir því, af hverju ég er á móti efni frv. og því makki, sem á bak við það liggur.

Skv. 1. lið þessa frv. er ætlazt til þess, að framkvæmd 1. frá 1913 um að ríkissjóður leggi Landsbankanum til 100 þús. kr. á ári í næstu 20 ár verði frestað til ársloka 1933. Munu nú vera eftir 2 afborganir af þessu framlagi ríkissjóðs til Landsbankans, og eins og þm. er kunnugt, tók Landsbankinn á sínum tíma lán erlendis út á þetta lögákveðna framlag ríkissjóðs, sem hann afborgar með því. Það er því ekki vafi á því, að þetta kemur illa við Landsbankann, þegar hann sjálfur á að fara að svara afborgununum af þessu láni, sem miðaðar eru við þessar árlegu útborganir ríkissjóðs á framlaginu til bankans. Þá vottar og ekki fyrir því, að fjvn. hafi leitað álits bankans sjálfs um þetta mál, enda er lítill vafi á því, að n. hefði fengið þau svör hjá bankanum, að hann ætti ekki þægilegt með að missa af þessu fé nú. Hinsvegar voru hér á þinginu 1929 samþ. lög, sem heimila stj. að undanþiggja bankann þeirri kvöð að kaupa ræktunarsjóðsbréfin af Búnaðarbankanum, og var til þess ætlazt af þinginu, að stj. neytti þessarar heimildar, en þó að bankinn hafi farið fram á þetta, hefir stj. þó neitað að verða við því. Þessi kvöð bankans um að kaupa ræktunarsjóðsbréfin nemur jafnhárri upphæð á ári og ríkissjóðstillagið til bankans er, og eru því möguleikar á því, að bankinn geti verið an ríkistillagsins, ef hann jafnframt er leystur undan þessari kvöð til að kaupa jarðræktarsjóðsbréfin. Lítur ekki út fyrir, að fjvn. hafi athugað þetta, og mun ég bera fram brtt. við frv. í þessa átt við 2. umr. málsins.

Þá leggur n. til, að skemmtanaskatturinn skuli renna í ríkissjóð til ársloka 1933. Hefi ég áður talað um þennan skatt oftar en einu sinni, en hann er þannig til kominn, að honum var rænt frá hlutaðeigandi bæjar- og sveitarfélögum. Varð hann til mikils gagns, t. d. hér í Rvík, en hér var honum varið til ýmissa félagsþarfa, til ,ellistyrks, til að kosta barnahæli o. s. frv. En ekki er kunnugt um, að skatturinn hafi komið að sömu notum síðan hann var rændur frá hinum upphaflegu og réttu notendum. Það er hinsvegar alkunnugt, að sveitar- og bæjarfélög eru nú ekki betur stæð en ríkið sjálft, og mun ég því bera fram þá brtt. við frv. við 2. umr., að skatturinn renni til þessara aðilja. Vil ég ekki láta þess ógetið í þessu sambandi, því að það sýnir vel, hversu vandað hefir verið til um undirbúning frv., að ekkert bendir til þess, að n. hafi leitað álits þjóðleikhússtj. um þetta mál, og þó að ég líti svo á, að ekki hafi verið rétt að láta þennan skatt renna til þjóðleikhússins, verð ég samt að segja það, að ekki hefði verið út vegi að leita álits þess aðiljans um málið, sem fær þessar tekjur.

Þriðji liður frv. fjallar um það, að tekjurnar af tóbakseinkasölunni skuli renna til ríkissjóðs til ársloka 1933. Eins og kunnugt er, var svo ákveðið í lögunum um tóbakseinkasöluna frá þinginu 1931, að helmingurinn af tekjum einkasölunnar skyldi renna í byggingar- og landnámssjóð, en hinn helmingurinn í byggingarsjóði verkamanna. Var þetta samkomulag milli Alþýðuflokksins og Framsóknarflokksins á sumarþinginu, og sýnist vera stuttur tími liðinn til þess að ganga á gerða samninga og fara að rifta þessu nú, og getur það auk þess valdið miklu tjóni. Á síðastl. sumri var byrjað á að reisa verkamannabústaðina hér í Rvík, með 54 íbúðum, þegar sýnt var orðið, að tekjur tóbakseinkasölunnar mundu fást í þessu skyni. Fékkst 200 þús. kr. lán til bygginganna hjá lífsábyrgðarfél. danska ríkisins (Statsanstalten), og frekari lán fást ekki þaðan úr landi, því að öll slík lán hafa nú verið bönnuð í Danmörku, og má því telja fullvíst, að ekki sé um annað fé að ræða til að fullgera byggingarnar, sem nú eru langt á veg komnar, en það, sem byggingarsjóðirnir hafa yfir að ráða, ef ágóðanum af tóbakseinkasölunni verður nú rænt til handa ríkissjóði. Var auðvitað gengið út frá því um þessar framkvæmdir, að byggingarsjóðirnir nytu þessa tekjustofns, sem búið var að ákveða þeim með lögum, og eftir venjunni um útborganirnar á verzlunarhagnaði einkasölunnar gömlu hefði átt að borga út nokkurn hluta hans 1. júlí í ár, en svo var ráð fyrir gert, að byggingunum yrði lokið að fullu í maí, í vor, og hefði verið hægt að fá bráðabirgðalán til þess til þess tíma, er verzlunarhagnaðurinn yrði útborgaður, eða jafnvel til áramóta, ef til slíks hefði komið. Það er því augljóst mal, að þessar ráðstafanir hafa hin mestu vandkvæði í för með sér um byggingu verkamannabústaðanna, og er ekki útlit fyrir, að hægt verði að fullljúka þeim, ef þessar till. ná fram að ganga. Hefir n. auðsjáanlega ekki athugað þetta. Það ætti því engan að furða, þó að við jafnaðarmenn séum á móti slíkum till. sem þessum, enda kemur ekki til nokkurra mála, að byggingarsjóðirnir séu rændir því fé, sem í þeirra hlut er fallið af verzlunarhagnaði tóbakseinkasölunnar nú þegar að lögum. E. t. v. skilja þó sumir þm. Það betur, að ekki er æskilegt að svipta byggingar- og landnámssjóð þessum tekjustofni. Ég ætla a. m. k., að bændurnir muni líta svo á málið.

Um fjórða lið þessara till., þar sem um er að ræða frestun á framkvæmdum laganna frá 1931, um hýsing prestssetra, hefi ég ekkert sérstakt að segja, en mér þykir tilhlýðilegt að fara nokkrum orðum um það samkomulag, sem liggur á bak við þessar till. í dag er afmælisdagur byltingarinnar í fyrra, þegar hæstv. forsrh. rak þm. heim með aðstoð konungsvaldsins, og á þeim sama degi bera sjálfstæðismenn fram samkomulagsfrv. til þess að bjarga fjármálunum fyrir þann flokk, sem þeir þóttust ekki síður verða fyrir barðinu á í fyrra með þingrofinu en aðrir þm., sem þá voru reknir burt héðan af þingi af stjórnarflokknum. Hygg ég, að kjósendur þeirra sjálfstæðismanna muni ekki lítið hissa á þessari afmælisathöfn fulltrúa sinna hér á Alþ., enda öfunda ég þá ekki af þessu samkomulagi við stjórnarflokkinn, né heldur öfunda ég framsóknarmenn af þessu innilega ástasambandi við sjálfstæðismenn í fjvn. um afgreiðslu fjármálanna. Við jafnaðarmenn getum ekki fallizt á þetta frv., eins og ég hefi skýrt frá, og af okkar hálfu er um ekkert samkomulag að ræða við stj. enn sem komið er um lausn fjármálanna, eins og sýnist vera af hálfu Sjálfstæðisflokksins.