22.04.1932
Neðri deild: 57. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2310 í B-deild Alþingistíðinda. (2649)

258. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Magnús Guðmundsson [óyfirl.]:

Ég á brtt. á þskj. 487, um að á árinu 1933 skuli helmingur þeirra tekna, sem ræðir um í 1. gr. 1. nr. 54, 7. maí, 1928, um Menningarsjóð, renna í ríkissjóð. Þessar tekjur, sem má búast við, að nemi um 100 þús. kr., hafa undanfarið runnið í Menningarsjóð, og er það talsvert fé.

Ég bar fram á öndverðu þingi frv. um það sama, sem þessi brtt. við lögin fer fram á, að fresta skuli framkvæmd þeirra á árinu 1933 að þessu leyti, en mér sýnist sem það frv. muni eiga erfitt um afgreiðslu á þessu þingi, því það er langt síðan n. skilaði því frá sér, en það hefir enn ekki verið tekið á dagskrá. Mér sýnist líka, að úr því að að því ráði hefir verið horfið að bera fram frv. um frestun framkvæmda samkv. ýmsum lögum, þá eigi efni frv. heima í þessu frv. Því ber ég þessa till. hér fram nú.

Það er ekki af því, að ég vilji gjarnan taka peninga af þessum sjóði, að ég flyt þessa brtt., heldur er það af því, að mér sýnist sem það muni verða nokkuð erfitt að ná jafnvægi á fjárlfrv. Þessi hv. d. hefir nú afgr. Það frá sér með greiðsluhalla, sem nemur nærri 1,2 millj. kr., og þó þó hefir ekki neitt verið áætlað fyrir stórum gjaldaliðum, eins og sérstökum lögum, fjáraukalögum eða þál. Og þó mun það orka mjög tvímælis, hvort tekjurnar komi til með að verða jafnháar og þar er ráðgert. Ég fæ því ekki betur séð en að það stafi hrein vandræði af þessum tekjuhalla á árinu 1933 og að það verði að leita allra bragða til að draga eitthvað úr honum.

Ég hefi bent á það áður, að tekjuhallinn á undanförnum árum, hefir verið geysilegur. Á árinu 1930 varð hann 6 millj. kr. og á árinu 1931 2.5 millj., og hann verður á yfirstandandi ári, eftir því sem hæstv. fjmrh. hefir upplýst, ekki minni en á árinu 1931. Það er því auðsætt, ef þessu á að halda áfram, að það muni lenda í algerðu þroti. Það hlýtur því fyrst og fremst að vera skylda þessa þings að koma í veg fyrir slíkt. Það er með þessar hugleiðingar að baki, að fjvn. hefir flutt þetta frv. og till. á þskj. 486.

N. þykist hafa skorið talsvert djúpt áður í ýmsum efnum, og skal ég t. d. benda á 16. gr. frv. Þar hefir verið fellt niður til búfjártryggingarsjóðs 15 þús. kr., til bústofnslánadeildar 50 þús. kr., til lánadeildar smábýla 50 þús. kr., til ráðstöfunar á tilbúnum áburði 60 þús. kr. og ýmsar fleiri smáupphæðir. Og nú leggur n. til, að strikað verði út tillag til verkfærakaupasjóðs, sem er áætlað um 100 þús. kr. á ári. Þetta finnst mér ætti að sýna hv. dm. bæði það, að fjvn. telur mikla þörf á að reyna að jafna þennan halla, og líka það, að hún er ekki feimin við að skera niður það, sem við kemur landbúnaðinum. Mér finnst þess vegna, að þegar búið er með l. frá 1928 að leggja fram til náttúrufræðistarfa, bókaútgáfu og listaverkakaupa um 100 þús. kr. á ári, þá geti það ekki talizt ósanngjarnt að fara fram á að taka af því helminginn í eitt ár. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því, að þessi till. mín verði felld, a. m. k. sýnist mér þá, að d. sé í meira lagi mislagðar hendur, ef hún getur ekki sætt sig við, að þessi styrkur verði tekinn að hálfu í eitt ár, þegar svo margir styrkir til landbúnaðarins eru teknir að öllu leyti í 11/2 ár eða meira. Að því er snertir það atriði, hvenær lögin öðlist gildi, þá skal ég benda á það, að í 2. gr. frv. stendur, að lögin skuli öðlast gildi þegar í stað. En mér finnst sanngjarnt, þó að eitthvað lengur yrði veitt til hlutaðeigandi stofnana, t. d. til 1. næsta man. Ég get ímyndað mér hvað viðvíkur ágóðanum af tóbakseinkasölunni, að það muni erfitt að gera það upp upp á dag, hversu ágóðinn er mikill. Mín tilætlun er sú, að stj. geri það, sem henni þykir sanngjarnt í þessu efni. Hún getur tekið áætlunarupphæðir, þó ekki sé miðað nákvæmlega við þann dag, sem um er að ræða. — Ég ætla ekki að fara út í aðrar till., en vil aðeins endurtaka það, að ég tel með öllu óforsvaranlegt, ef ekki kæmi skýrt fram hjá þinginu, að eitthvert tillit væri tekið til hinna örðuga tíma, sem nú standa yfir.