22.04.1932
Neðri deild: 57. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2311 í B-deild Alþingistíðinda. (2650)

258. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Héðinn Valdimarsson [óyfirl.]:

Hæstv. fjmrh. talaði nokkuð um verðtollinn á tóbaki og afstöðu okkar Alþýðuflokksmanna til hans. Hún var eins og í öðrum skattamálum, þar sem við höfum ekki viljað útvega nýjar tekjur í ríkissjóð. Við heldum, að svipað stæði á fyrir Sjálfstæðisflokknum, en það er ekki orðið svo,

því að allir sjá, að það er alveg sama, hvort þeir ganga inn á að taka burt eitthvað af lögskipuðum framkvæmdum eða samþ. ný skattalög, vegna þess að ríkissjóður fær því meira til umráða. Sjálfstæðismenn hafa gengið frá sínu gamla principi, að afla stj. ekki tekna, og sérstaklega á þetta við um tóbakseinkasöluna. Í fyrra samþ. þeir, að hagnaðurinn af tóbakseinkasölunni skyldi alls ekki renna í ríkissjóð, heldur ganga til verkl. framkvæmda, til verkamannabústaða og byggingar- og landnámssjóðs. Með því að samþ., að þessar framkvæmdir séu felldar niður, samþ. þeir í raun og veru tóbakseinkasölu fyrir ríkissjóð. Það er gott fyrir þá að muna það, þegar þeir koma til kjósenda sinna, að sýna staðfestu sína í þessu máli.

Hæstv. fjmrh. var hér með ávítur við okkur jafnaðarmenn út af því, að við hefðum ekki samþ. þetta, því á þann hátt hefðu fengizt 200 þús. kr. til verkamannabústaða og byggingar- og landnámssjós. En það var ekki þetta, sem verið var að reyna á þinginu í fyrra, þegar lögin voru samþ., heldur hitt, að tekjurnar af einkasölunni skyldu ekki renna í ríkissjóð, heldur að þær skyldu allar renna til verkamannabústaðanna, hvort sem þær væru meiri eða minni. Þá minntist hæstv. fjmrh. á verðtollinn. Hann sagði, að okkur sjálfum hefði verið um að kenna, ef hann yrði samþ. Það er nú svo, enda kæmi okkur ekki til hugar, þó að þessar brtt. mínar yrðu samþ., að skera þetta nákvæmlega við 200 þús. kr. Við álítum, að með því sé gengið skemmra í því að ræna verkamannabústaðina. Það sýnist svo, að Framsókn, sem áður lét stj. sína eyða fé í hugsunarleysi og an nokkurrar aðgæzlu, hafi gripið þessi skelfing við það að sjá, hvernig komið var með fjárhag ríkisins, að þeir fara nú að spara hvern eyri, án þess að líta á það mikla tjón, sem þeir gera með því að leggja mest á þá stéttina, sem verst á með að verja sig. Það er svo með bændurna, að þó þeir séu margir jafnfátækir og verkamenn, þá hafa þeir meira pólitískt vald í þinginu, og þess vegna hafa þeir ekki þorað að leggja eins á þá. En þeir líta svo á, að vegna þess, hvernig kjördæmaskipunin er og hvað fáir fulltrúar verkamanna eru. Þá sé þeim óhætt að gera hvað sem þeim sýnist. Mér sýnist, eins og ég hefi áður sagt, að Sjálfstæðisfl. hafi hér farið í kringum sig með þessum till., sem sama sem auka tekjur ríkissjóðs. Ég gæti trúað, að ef þær yrðu eitthvað lægri í ár, sem vel gæti hugsazt, þá muni það geta farið svo 1933, að tekjurnar verði hærri en gert er ráð fyrir, og jafnvel svo, að þó verðtollurinn verði ekki samþ., þá muni stj. hafa nægilegt fé til að ráðstafa, hvað þá heldur ef samþ. verður tekjuaukafrv., og þá er farið inn á sömu braut, að gefa stj. til ráðstöfunar margar millj. kr., sem hún svo notar eftir eigin geðþótta milli þinga.

Ég þykist vita, að það muni koma í sama stað niður, hvort ég tala lengur eða skemur, þar sem málið hefir slíka einingu íhaldsflokkanna, og læt ég því staðar numið.