22.04.1932
Neðri deild: 57. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2330 í B-deild Alþingistíðinda. (2668)

258. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Ólafur Thors:

Ég er nú búinn að gera svo glögga grein fyrir því dæmi, sem ég tók um skattgreiðslur hlutafélaga, að ég held, að hv. þm. hljóti allir að hafa skilið það.

Út frá því, sem hæstv. fjmrh. var að segja um það, að skattamálin væru ekki sérmál Framsóknarfl. og um hefnd, sem beita ætti og koma mundi niður á kjósendunum, verð ég að segja það, að hér er enginn að hugsa um að hefna sín. Hér er verið að hugsa um að knýja fram réttlætiskröfu, sem meiri hl. þjóðarinnar stendur á bak við. Við skiljum það fyllilega, hvað það er mikilsvert, að fjármál ríkisins séu forsvaranlega afgr. Og til þess að það geti þegar orðið, eftir því sem föng eru á, þarf Framsóknarfl. ekki annað en lata undan kröfu meiri hl. þjóðarinnar, sem ómótmælanlega er réttlætiskrafa. hér er því ekki um neina hefnd að ræða. Ég býst við, að hæstv. fjmrh. skilji það manna bezt í sínum flokki, hvað það er nauðsynlegt fyrir þjóðina, að samkomulag náist um fjármálin, og þess vegna vænti ég, að hann beiti sínu valdi í flokknum þannig, að hann lati það ekki á milli standa að samþ. full mannréttindi kjósendum landsins til handa.

Það er ekki hægt að deila um það í þessu máli, hver ábyrgðina ber. Það er eins augljóst, að stjórnarflokkurinn ber ábyrgð á því, ef ekki næst samkomulag um fjármálin, eins og það er augljóst, að sá, sem sækja þarf rétt sinn í hendur þess, sem heldur honum með óbilgirni, ber ekki ábyrgð á afleiðingum baráttunnar. Fjárveitingavaldið er það einasta vopn, sem minni hl. þingsins, sem þó fer með umboð meiri hl. þjóðarinnar, getur á þingræðislegan hátt beitt til þess að koma þessu sjálfsagða réttlætismáli fram sem fyrst, og tel ég það skyldu okkar að beita því.